Lánskjör og ávöxtun sparifjár

44. fundur
Mánudaginn 02. nóvember 1992, kl. 14:39:13 (1749)

     Jón Helgason (andsvar) :
    Hæstv. forseti. Ég vil taka undir meginefni frv. en vil sérstaklega vekja athygli á því að að sjálfsögðu fara lánskjör eftir fleiru en verðtryggingu og því eru það vaxtakjörin í heild sem skipta á hverjum tíma miklu máli. Staðan er sú hjá okkur að vextir eru hér tiltölulega háir samkvæmt upplýsingum Þjóðhagsstofnunar þó þá megi finna hærri í öðrum löndum, t.d. í Svíþjóð. Eitt sker sig þó úr og það eru ríkisbréf. Vextir á þeim eru miklu hærri hér en í öðrum viðskiptalöndum. Það er vissulega athugunarefni, bæði fyrir hæstv. ráðherra, hæstv. ríkisstjórn og stuðningsflokka hennar að reyna að breyta því og koma í sambærilegt horf við samkeppnislönd okkar.