Lánskjör og ávöxtun sparifjár

44. fundur
Mánudaginn 02. nóvember 1992, kl. 14:44:19 (1751)

     Kristinn H. Gunnarsson :
    Virðulegi forseti. Frv., sem hér liggur fyrir, er fyrir margra hluta sakir býsna áhugavert og vekur upp og gefur færi á umræðu um lánskjaravísitölu, tilgang hennar, eðli og reynslu manna af henni. Ég tel það eitt af brýnni umræðuefnum Alþingis að velta þessu máli fyrir sér. Auðvitað er margt sem orkar tvímælis þá gert er, hvort sem það er að setja á tiltekna vísitölu til að mæla stærðir eða taka hana af. Það þarf að líta á málin frá nokkuð víðu sjónarhorni og taka inn í býsna marga þætti sem hafa áhrif á heildarmyndina.
    Ég vil nefna fáein atriði sem mér hefur fundist vera annmarki á þessu vísitölukerfi almennt og stuðla frekar en hitt að því að grafa undan trausti á slíku fyrirkomulagi.
    Ég vil fyrst nefna þann megingalla að sá sem á að greiða skuldina og undirgengst skuldbindingar um vísitölu tekur á sig alla áhættu um þróun mála á lánstímanum hvað varðar vísitölu og vexti og önnur þau kjör sem kveðið er á um í lánssamningi að séu breytileg. Eitt af því sem mér hefur fundist orka mjög tvímælis er hvort það ætti að heimila lánveitingar með breytilegum kjörum. Það er að mínu viti nokkurt siðleysi fólgið í því að fá fólk til að taka lán á tilteknum kjörum, eins og þau líta út við undirskrift samnings, en áskilja sér síðan rétt til að breyta þeim kjörum sér í hag og lángreiðandanum í óhag hvenær sem er á lánstímanum. Þar á ég fyrst og fremst við vextina. Það er alkunna og þarf ekki að minna menn á það að eitt af því sem hefur valdið verulegum vandræðum hjá fjöldamörgum hér á landi eru þessir breytilegu vextir. Menn muna kannski enn þá tíma þegar vextirnir fóru úr 3% upp í 10% á örskömmum tíma að því er mig minnir árið 1984 eða 1985. Auðvitað gerbreytir þetta stöðu þeirra sem taka lánið. Það eykur því gífurlega kostnað þeirra við lántökuna. Mér hefur stundum fundist að það væru réttar leikreglur að skipta áhættunni til helminga og skylda þá sem veita lán eða vilja fá aðra til að taka lán hjá sér að hafa fast fyrirkomulag á láninu og afnema ákvæði um breytileg lánakjör eða fyrirvara lánveitanda um það að hann áskilji sér rétt til að breyta kjörum á láninu hvenær sem honum dettur í hug. Það er eitt af þeim atriðum sem hafa reynst launafólki hvað erfiðust í gegnum tíðina og hefur ítrekað komið mjög hart niður á pyngju þeirra, t.d. hækkanir á afborgunum af lánum til húsnæðiskaupa.
    Mér finnst að mörgu leyti sanngjarnar leikreglur að sá sem lætur lánið eða peningana af hendi undirgangist þá kvöð að lánið, sem hann er að veita, sé með föstum kjörum. Hvort sem það er með verðtryggingu eða vöxtum sem samið er um þarf það að vera fast og óumbreytanlegt út lánstímann svo sá sem tekur lánið veit að hverju hann gengur og hefur þar fast land undir fótum allan lánstímann. Hann tekur að vísu áhættuna af því að afsala sér hugsanlega skárri lánskjörum ef vextir kynnu að lækka en sá sem lætur lánið af hendi verður líka að sæta því að taka áhættu því hann getur ekki tekið sér hærri vexti ef vaxtastigið hækkar á lánstímanum. Það held ég að sé grundvallaratriði í fjármálaviðskiptum að þeir sem taka lán geti búið við það öryggi að lánskjör séu föst.
    Eitt dæmi af hálfu stjórnvalda sem hefur breytt verulega miklu fyrir lántakendur er hringlandaháttur og lagabreytingar sem koma aftan að fólki. Ég nefni sem dæmi lögin um greiðslumark fasteignaveðlána sem sett voru 1985 en þau voru sett í kjölfarið á misgengi launa og verðlags og áttu að tryggja hag þeirra, sem greiða lán, með þeim hætti að greiðslubyrði þeirra fari ekki upp fyrir fast skilgreint mark hverju sinni. Ef vextir hækkuðu eða vísitölumisgengi myndaðist sem leiddi til hærri afborgunar af lánunum, þá átti sá munur sem varð á greiðslumarkinu og afborguninni, ef hún varð hærri, að flytjast aftur fyrir höfuðstól og lengja greiðslutíma þannig að þeir sem tóku lánin áttu þá að búa við það öryggi á lánstímanum að greiðslur þeirra af láninu færu ekki upp fyrir tiltekið greiðslumark. Þetta voru skilmálar sem voru samþykktir á Alþingi og settir fram í skuldabréfum t.d. hjá Húsnæðisstofnun ríkisins.
    Síðan gerist það að menn eru látnir sæta því, þeir sem að þessum skilmálum gengu og töldu sig hafa öryggi í þessum efnum, að lögunum um greiðslumark er breytt og verndin gagnvart breytilegum vöxtum er afnumin þannig að hækkaðir vextir komu beint fram í hækkandi greiðslum en dreifðust ekki á lánstímann eða aftur fyrir lánstímann með vernd greiðslumarksins. Þarna voru stjórnvöld á þeim tíma að koma aftan að þeim sem höfðu tekið lán með þessum kjörum og töldu sig hafa skrifað undir skuldbindingar sem veittu þeim þessa vernd.
    Ég hef tekið þetta mál upp í húsnæðismálastjórn og við höfum verið að fara yfir lögfræðilegt álit í þessum efnum. Það er ljóst að mínu viti að sú framkvæmd að velta hækkun vaxtanna á Byggingarsjóð ríkisins á síðasta ári úr 3,5% í 4,9% beint út til greiðenda í hverja afborgun er mjög umdeilanleg. Ég tel ekki leika vafi á því að þessi framkvæmd stenst ekki lög. Niðurstaðan í þessu máli liggur ekki fyrir en hún mun líka hafa mikil áhrif á greiðslubyrði þeirra sem hafa tekið lán í Byggingarsjóði verkamanna þar sem fyrirhuguð er hækkun vaxta úr 1% í 2,4% 1. mars nk.
    Ég vil líka nefna að með verðtryggingunni sem slíkri er sá sem veitir lánin að taka sér býsna miklar tryggingar gagnvart öllum hugsanlegum breytingum, t.d. breytingum erlendis sem við getum ekki haft nein áhrif á og valda erfiðleikum í okkar þjóðarbúskap. Lánveitendur hafa tryggt sig fyrir þeim þó að þeir erfiðleikar lendi á almenningi í landinu af fullum þunga að öðru leyti. Þannig má nefna sem dæmi, sem að sumu leyti er kannski dálítið broslegt, að uppskerubrestur á kaffi í Brasilíu leiðir til hækkunar skulda hjá fólki hér á landi af því að sá sem hefur lánað hefur tryggt sig fyrir því með svokallaðri lánskjaravísitölu og hvernig að því er staðið að reikna hana út.
    Maður kann auðvitað að spyrja sjálfan sig: Er rétt eða eðlilegt að sá sem á útistandandi peninga hjá öðrum þurfi ekki að taka neina áhættu í þessum efnum? Á hann að njóta þess að eign hans hjá öðrum hækkar við að erfiðleikar verði í kaffiuppskeru í Brasilíu? Það er nákvæmlega það sem gerist að það veldur hækkun á höfuðstól lánsins.
    Annar ókostur verðtryggingar er sá að menn hætta að greina á milli raunverulegra vaxta. Menn hætta að gera sér grein fyrir hver er hinn raunverulegi kostnaður við að taka lán. Í vitund manna er til eitthvað sem heitir verðtrygging og hún er eitthvað sem er utan sviga í þeim efnum og bætist bara við höfuðstólinn. En auðvitað er kostnaðurinn við að taka lán ekki bara vextir og lántökukostnaður. Hann er líka verðtrygging. Verðtrygging er ekkert annað en aukavextir. Hún er í eðli sínu ekkert annað en vextir sem heita verðtrygging.
    Hinu mega menn náttúrlega ekki gleyma að verðtryggingu fylgja líka kostir. Þeir kostir eru helstir fyrir þá sem skulda, eins og atvinnuvegina og aðra, að sá hluti vaxta sem heitir verðtrygging greiðist ekki út á hverjum gjalddaga heldur dreifist á lánstímann. Allir þekkja muninn á vöxtum og verðtryggingu þannig að vextir lánsins koma til greiðslu hverju sinni að fullu. Menn greiða vextina á gjalddaga frá síðasta gjalddaga en verðtryggingin, sem er hluti vaxtanna, veldur því að það er minna sem menn þurfa að greiða hverju sinni en hafa lengri tíma til að borga þann þátt vaxtanna sem heitir verðtrygging. Ókosturinn við að afnema verðtryggingu yrði sá að vextir kæmu að fullu til greiðslu hverju sinni. Það mundi trúlega hækka greiðslubyrði á ákveðnum tímabilum í afborgun láns. Þetta verða menn að vera meðvitaðir um líka.
    En í heildina finnst mér óeðlilegt að verðtrygging skuli vera slík trygging fyrir þá sem lána peninga sem raun ber vitni. Þeir hafa í raun og veru allt sitt á þurru, taka enga áhættu og áskilja sér þar að auki heimild til þess að auka kostnaðinn við lántökuna með breytilegum vöxtum ef tilteknar aðstæður leiða til þess að vextir almennt hækka í þjóðfélaginu.
    Staða þeirra sem lána gagnvart stöðu þeirra sem skulda allt of ójöfn. Staða þeirra sem skulda þarf að verða miklu styrkari en hún er í reynd. Því tel ég þetta frv. í sjálfu sér fyllilega tímabært og vænti þess að það leiði til skaplegrar umræðu um lánskjör og ávöxtun sparifjár, eins og hér segir, en kannski ekki hvað síst um stöðu skuldara í samfélagi markaðshyggjunnar.