Lækkun húshitunarkostnaðar

44. fundur
Mánudaginn 02. nóvember 1992, kl. 14:59:12 (1753)

     Flm. (Jón Helgason) :
    Hæstv. forseti. Ég mæli hér fyrir till. til þál. um lækkun húshitunarkostnaðar sem ég flyt ásamt tveimur öðrum þingmönnum. Till. hljóðar þannig, með leyfi forseta:
    ,,Alþingi ályktar að fela ríkisstjórninni að ljúka áætlun um lækkun húshitunarkostnaðar sem sett var fram í till. til þál. sem flutt var á 113. löggjafarþingi 1990--1991, 453. máli.``
    Hinn 1. okt. 1990 skipaði hæstv. þáv. iðnrh. og núv., Jón Sigurðsson, nefnd til að gera tillögur um verðjöfnun á raforku og undirbúa frv. til laga um það efni. Starfssvið nefndarinnar var síðar víkkað þannig að hún fjallaði einnig um heildsöluverð á raforku og vanda þeirra hitaveitna sem hafa hæstar gjaldskrár. Í nefndina voru skipaðir fulltrúar allra þáverandi stjórnmálaflokka, þeir Eiður Guðnason, sem var formaður nefndarinnar, Þorvarður Hjaltason, Óli Þ. Guðbjartsson, Jón Helgason, Sveinbjörn Jónsson, Danfríður Skarphéðinsdóttir, Pálmi Jónsson og Birgir Ísl. Gunnarsson, en þegar hann varð seðlabankastjóri tók Friðrik Sophusson við hans starfi. Nefndin skilaði skýrslu og tillögum 5. mars 1991 sem allir nefndarmenn stóðu að, þeir Friðrik Sophusson og Pálmi Jónsson þó með fyrirvara.
     Á grundvelli tillagna nefndarinnar flutti iðnrh. strax eftirfarandi tillögu til þingsályktunar, með leyfi forseta:
     ,,Alþingi ályktar að fela ríkisstjórninni að beita sér fyrir að lækka húshitunarkostnað á Íslandi þar sem hann er hæstur og minnka þannig þann aðstöðumun einstaklinga og fjölskyldna sem nú er við lýði.
     Þessi aðstöðujöfnun skal m.a. eiga sér stað með eftirfarandi hætti:
    1. Auknum jöfnuði skal náð í þremur áföngum á næstu tveimur árum þannig að kostnaður við hitun íbúðarhúsnæðis vísitölufjölskyldunnar (35.420 kWh ársnotkun) hjá rafveitum og rafkyntum hitaveitum verði ekki hærri en 5.000 krónur að jafnaði á mánuði, miðað við verðlag í janúar 1991.`` --- Þess má geta að miðað við breytingu á vísitölu síðan mun þessi upphæð vera núna um 5.400 kr.
  ,,2. Alþingi beinir því til þingkjörinna fulltrúa í stjórn Landsvirkjunar að þeir á þeim vettvangi beiti sér fyrir sérstökum aðgerðum til lækkunar á heildsöluverði raforku til hitunar íbúðarhúsnæðis. Aðgerðirnar miði að því að heildsöluverð á raforku til hitunar íbúðarhúsnæðis lækki á næstu tveimur árum niður í kostnaðarverð orku frá nýjum virkjunum að viðbættum flutningskostnaði til dreifiveitna.`` --- Þess verður að geta að því miður hefur lítið áunnist í þessu efni en með því að lækka verðið niður í kostnaðarverð orku frá nýjum orkuvirkjunum var reiknað út að hinn svokallaði langtímajaðarkostnaður væri aðeins 74% af heildsöluverði Landsvirkjunar. Síðan hefur komið til krafa um auknar arðgreiðslur Landsvirkjunar í ríkissjóð sem að sjálfsögðu veldur líka hækkun á orkuverði.
  ,,3. Viðskrh. ákveði að á síðari helmingi þessa árs verði greiddar 35 millj. kr. af því fé sem á fjárlögum er veitt til niðurgreiðslna á vöruverði á árinu 1991 til aukinnar verðjöfnunar á raforku til hitunar íbúðarhúsnæðis, enda eigi húseigendur ekki þess kost að kaupa orku frá hitaveitum sem byggja á jarðvarma. Þessi tilfærsla niðurgreiðslufjár verði síðan aukin.
    4. Iðnrh. láti fram fara úttekt á fjárhagsstöðu hitaveitna sem byggja á jarðvarma þar sem kostnaður við hitun íbúðarhúsnæðis er hærri en sambærilegur kostnaður við hitun íbúðarhúsnæðis vísitölufjölskyldunnar hjá rafveitum og rafkyntum hitaveitum. Úttektinni verði lokið eigi síðar en 1. okt. 1991.
    5. Fjmrh. beiti sér fyrir ráðstöfunum til að aðstoða hitaveitur, sem byggja á jarðvarma, við skuldbreytingar á lánum þeirra eða leggi fram tillögur um aðrar aðgerðir til þess að tryggja að kostnaður við hitun íbúðarhúsnæðis vísitölufjölskyldunnar hjá þeim verði ekki hærri en hjá rafveitum og rafkyntum hitaveitum skv. 1. tölul., enda sýni fyrirtækin aðhald í rekstri og umsvifum.
    6. Því fé, sem Landsvirkjun kann í framtíðinni að verða gert að greiða ríkinu fyrir virkjunarréttindi, verði að hluta varið til aukinnar verðjöfnunar á innlendri orku.``
     Því miður náðist ekki samstaða um að afgreiða þessa tillögu fyrir þinglok þá. Þrátt fyrir það ákvað núv. ríkisstjórn í maí 1991 að taka fyrsta skrefið samkvæmt þessum tillögum og auka niðurgreiðslu til rafhitunar um 60 millj. kr. En síðan virðist tillögunum hafa verið stungið algjörlega undir stól þar sem ríkisstjórnin hefur ekkert aðhafst frekar í þessu skyni.
     Samkvæmt tillögunni átti heildartilfærsla niðurgreiðslna þegar þeim væri lokið að nema um 220 millj. kr. Nú er gert ráð fyrir í núv. fjárlagafrv. að lækka mikið þá niðurgreiðsluupphæð sem þarna var ætlað til að taka af. Það fjármagn á ekki að renna til þess að lækka orkuverð heldur til þess að létta byrðum af ríkissjóði.
    Síðustu vikurnar hafa hins vegar komið frá ríkisstjórninni hugmyndir og tillögur sem ýmsar orkuveitur óttast að muni valda auknum verðmismun á orku. Þegar þar við bætist að atvinnuleysi fer vaxandi og ráðstöfunartekjur minnka verður slíkur mismunur á okruverði enn þá ranglátari og tilfinnanlegri.
     Það er því mikilvægt að Alþingi taki afdráttarlausa afstöðu í þessu máli með samþykkt á grundvelli tillagna sem allir flokkar voru í aðalatriðum sammála um fyrir tveimur árum.
    Í 6. lið tillögu hæstv. iðnrh. er vikið að því að láta skuli hluta af því verði sem Landsvirkjun greiðir fyrir orkuréttindi í framtíðinni renna til orkujöfnunar. Það höfðar til þess að það sé óviðunandi að Landsvirkjun skuli fá þessi réttindi í sumum tilvikum fyrir ótrúlega lágt verð án þess að taka á sig einhverjar skyldur á móti. Þar virðist vera réttlætanlegt að hafa efst á blaði skylduna til þess að landsmenn fái orkuna frá fyrirtækinu á sem jöfnustu verði.
    Ég vil svo leyfa mér að óska eftir því að að lokinni þessari umræðu verði tillögunni vísað til síðari umr. og iðnn.