Lækkun húshitunarkostnaðar

44. fundur
Mánudaginn 02. nóvember 1992, kl. 15:09:08 (1754)

     Iðnaðarráðherra (Jón Sigurðsson) :
    Frú forseti. Í tilefni af þessari till. til þál. langar mig að rifja upp að í stefnuyfirlýsingu núv. ríkisstjórnar segir m.a., með leyfi hæstv. forseta:
    ,,Lífskjör verða jöfnuð, m.a. með lækkun húshitunarkostnaðar þar sem hann er mestur.``
    Þetta stefnumið er svo áréttað í stefnu- og starfsáætlun ríkisstjórnarinnar, Velferð á varanlegum grunni.
    Eins og kom fram hjá hv. 2. þm. Suðurl. var það eitt af fyrstu verkum núv. ríkisstjórnar að auka niðurgreiðslur á orku til hitunar íbúðarhúsnæðis og breyta framkvæmd þeirra til jöfnunar. Þessi breyting kom til framkvæmda 1. júní 1991. Með þeirri ákvörðun má segja að fyrsta áfanga af þremur í tillögum meiri hluta orkuverðsjöfnunarnefndar frá 1991 hafi verið náð, eins og reyndar hv. 2. þm. Suðurl. vék nokkuð að.
    Með bréfi til stjórnar Landsvirkjunar 21. maí 1991 áréttaði ég það markmið að menn vildu stefna að lækkun kostnaðar við hitun íbúðarhúsnæðis á svonefndum köldum svæðum í samræmi við tillögur orkuverðsjöfnunarnefndar. Ég beindi því þar til stjórnar Landsvirkjunar að hún ynni að því marki.
    Þann 10. apríl á þessu ári ritaði ég svo aftur stjórn Landsvirkjunar bréf og ítrekaði þar ósk ríkisstjórnarinnar til fyrirtækisins að heildsöluverð á raforku til íbúðarhúsnæðis yrði lækkað. Í þessu bréfi sagði enn fremur, með leyfi forseta:
    ,,Ráðuneytið bendir jafnframt á að vegna lágs heimsmarkaðsverðs á olíu er kostnaður við rafhitun íbúðarhúsnæðis svipaður eða hærri en við olíukyndingu þrátt fyrir auknar niðurgreiðslur úr ríkissjóði.``
    Þá var á það bent að sá áfangi sem náðist á sl. ári hafi fyrst og fremst verið með auknum niðurgreiðslum úr ríkissjóði og æskilegt væri að í næsta áfanga verði hlutur orkufyrirtækjanna stærri. Þessi sjónarmið áréttaði ég svo á ársfundi Landsvirkjunar í apríl á þessu ári þar sem ég fjallaði sérstaklega um jöfnun orkuverðs. Reyndar kom þetta líka fram í fyrirspurnatíma hér sl. fimmtudag. Þá kom einnig fram að stjórn Landsvirkjunar hefði að svo stöddu ekki séð sér fært að koma til móts við þessi tilmæli. Það er álit stjórnar Landsvirkjunar að hvorki verðlagningarsjónarmið né ríkjandi markaðsaðstæður réttlæti slíka verðlækkun.
    Ég vil taka fram að ég mun enn halda þessum sjónarmiðum að stjórn Landsvirkjunar og minni á að þar eru þingkjörnir fulltrúar að störfum.
    Hvað hitaveiturnar varðar og málefni þeirra sem hæstan hafa kostnað vil ég sérstaklega vekja athygli á því að á föstudag í síðustu viku yfirtók ríkissjóður stóran hluta af skuldum hitaveitu Eyra. Þá var jafnframt staðfest að byggðasamlag hefði verið stofnað um orkuveiturnar á Selfossi, Eyrarbakka og Stokkseyri, en það var einmitt forsendan fyrir þeim stuðningi.
    Þá liggur fyrir erindi frá Hitaveitu Suðureyrar við Súgandafjörð sem er eitt af þessum dýru orkuveitufyrirtækjum þar sem enn er óskað eftir aðstoð ríkisins. Um það mál er fjallað hjá iðnrn. og fjmrn.
    Þá vil ég nefna að með vísun til samnings um yfirtöku ríkissjóðs af skuldum Hitaveitu Akraness og Borgarfjarðar frá árinu 1987 mun fara fram úttekt á stöðu þessara mála þar.
    Það er því langt í frá, virðulegi 2. þm. Suðurl., að tillögum orkuverðsjöfnunarnefndar hafi verið stungið undir stól eins og hér virtist ýjað að í máli framsögumanns og í grg. þáltill. sem við hér ræðum, en í grg. með till. segir, með leyfi forseta:
    ,,Síðustu vikurnar hafa hins vegar komið frá ríkisstjórninni hugmyndir og tillögur sem margir óttast að muni valda auknum verðmismun á orku.``
    Þessa hugsun endurtók svo 1. flm. tillögunnar. Ég get fullvissað hv. 2. þm. Suðurl. um að ekkert í þeim hugmyndum sem ræddar hafa verið í ríkisstjórn mun valda auknum verðmismun á orku. Ég tel þvert á móti að breytingar á virðisaukaskattsskilum orkufyrirtækja gætu leitt til þess að dragi úr verðmismun á orku.
    Ég vek líka athygli á því að í hugmyndunum sem ræddar voru var gert ráð fyrir því að auknu fé yrði veitt til niðurgreiðslna á orku til hitunar hjá þeim sem búa við hæst orkuverð. Mín skoðun er sú að með tilteknum breytingum á virðisaukaskattskerfinu mætti einmitt með því að leggja virðisaukaskatt á orku til húshitunar afla þess fjár sem á hefur skort til að lækka hitunarkostnað á svonefndum köldum svæðum og hjá dýrustu hitaveitunum.
    Ef Alþingi kýs að álykta um lækkun hitunarkostnaðar er að mínu áliti mjög mikilvægt að þingið móti samhliða stefnu um hvert fé verði sótt til slíkra breytinga. Ég tel mikilvægt að þingmenn fjalli einnig um þá hlið málsins. Við vitum öll, sem þingið sitjum, að á þessum erfiðu tímum í fjárhagsmálefnum ríkisins verður margt að víkja sem menn gjarnan vildu gera.

    Mig langar til að benda á það að iðnrn. hefur ekki tök á því að auka fé til orkuverðsniðurgreiðslna á tímum almennrar lækkunar fjárveitinga í raunverulegum stærðum til allra málaflokka. Til þess eins að halda niðurgreiðslum á orku óbreyttum á næsta ári í fjárlagafrv., eins og tillaga er gerð um, þurfti í reynd að skera niður aðra fjárlagaliði iðnrn. umfram almenna kröfu til slíkrar lækkunar.
    Í tillögu orkuverðsjöfnunarnefndarinnar var gert ráð fyrir því a.m.k. hluta þess fjár sem varið yrði til að auka niðurgreiðslur á orkunni kæmi af fé sem ætlað er til niðurgreiðslna á vöruverði. Eins og kunnugt er eru fram undan verulegar breytingar á því kerfi. Ég tel að þetta komi fyllilega til greina en tel að sjálfsögðu að það sé þingsins að fjalla um það í samhengi við fjárlagagerðina.
    Að lokum, virðulegi forseti, vil ég árétta þá skoðun mína að ég tel það mikilvægt að hv. iðnn. fjalli um þetta mál, fyrst og fremst út frá því sjónarmiði hvernig er best að koma í framkvæmd þeirri stefnu sem mörkuð var í tillögum orkuverðsjöfnunarnefndarinnar frá 1991. Ég tel ekki fyrir fram víst að það sé heppilegast að gera það með þáltill. því hér er fyrst og fremst um framkvæmdaratriði að ræða sem ræðst af þeim fjárveitingum og skiptingu þeirra, en vil að lokum taka undir anda þeirrar tillögu sem hér er flutt.