Lækkun húshitunarkostnaðar

44. fundur
Mánudaginn 02. nóvember 1992, kl. 15:25:02 (1756)

     Ingibjörg Pálmadóttir :
    Virðulegi forseti. Hér er til umræðu till. til þál. um lækkun húshitunarkostnaðar. Eins og hv. 1. flm., 2. þm. Suðurl., sagði er tillagan ekki ný af nálinni. Hún er sem sagt frá 113. löggjafarþingi en fékk ekki þann framgang sem menn vonuðust eftir þrátt fyrir góðan vilja allra þingmanna. Í fyrirspurnatíma á Alþingi í fyrra spurði hv. varaþingmaður Sigurður Þórólfsson hvort tillagan mundi ekki ná framgangi á hinu háa Alþingi. Þá sagði hæstv. iðnrh. að hann teldi svo mundi verða en vegna tímaskorts á 113. löggjafarþingi hefði ekki verið hægt að lögfesta hana. Nú höfum við tíma og nú höfum við tíma til að framkvæma hin góðu verk.
    Hv. 5. þm. Austurl. talaði hér mikið og heitt. Ég vildi að hægt hefði verið að jafna þann hita sem í hans máli var því hann hrósaði hæstv. ráðherra mjög fyrir að hafa gengið skref í jöfnunarátt í fyrra. En hv. þm. gleymdi alveg að geta þess að í fyrra hækkaði rafmagnsverð þrisvar sinnum. Það varð því ekki um jöfnun að ræða því miður. Þessu má ekki gleyma.
    Höldum áfram að skoða hvaða tillögur eru í gangi hjá hæstv. ríkisstjórn í húshitunarmálum af því að hæstv. iðnrh. gaf tilefni til þess. Hann sagði áðan að allar tillögur hæstv. ríkisstjórnar væru í þá átt að jafna húshitunarkostnað. Það er alrangt því miður. Það er alls ekki til að jafna. Ég er t.d. með bréf frá Hitaveitu Akraness og Borgarfjarðar þar sem segir, með leyfi forseta:
    ,,Í tengslum við fjárlagafrv. fyrir árið 1993 hefur verið til umræðu að leggja ný gjöld á húshitun í landinu. Fréttir hafa borist af því að annaðhvort verði hætt að endurgreiða virðisaukaskatt, innskatt, eða lagt verði á nýtt þrep í virðisaukaskatti.
    Stjórn Hitaveitu Akraness og Borgarfjarðar hefur af þessu verulegar áhyggjur. Það hefur verið rætt um það árum saman að orkuverð hitaveitunnar sé allt of hátt og leita þurfi allra leiða til að lækka það. Hækkun vatnsverðs vegna nýrra skatta yrði notendum hér mjög erfitt. Nú er hitunarkostnaður hér 2,5 sinnum hærri en í Reykjavík er gerir samkeppnisstöðu þeirra byggðarlaga mjög erfiða gagnvart þeim svæðum sem bjóða ódýrari orku.
    Samband ísl. hitaveitna hefur tekið saman meðfylgjandi töflu sem sýnir þá hækkun er nýir skattar hafa í för með sér. Það er reiknað með að nýtt skattþrep í virðisauka yrði 14%. Það er mjög breytilegt eftir veitum hver áhrifin yrðu. Hjá Hitaveitu Akraness og Borgarfjarðar eru útgjöldin að stærstum hluta afborganir og vextir. Innskatturinn er því ekki ýkjahár. Nýtt skattþrep legst hins vegar á öll útgjöld af fullum þunga. Nýr skattur á húshitun yrði mjög óréttlátur því hann leggst svo mismunandi á notendur eftir því hvar þeir búa.``
    Leggst mismunandi á notendur eftir því hvar þeir búa. Það er ekki verið að jafna orkuverð með þessum tillögum.
    Síðan er í fjárlagafrv. gert ráð fyrir því að 80 millj. kr. komi til niðurgreiðslu á húshitun á köldum svæðum. 80 millj. gera náttúrlega ekki neitt til jöfnunar. Það hljóta allir að viðurkenna sem hafa skoðað þær miklu hækkanir sem verða. (Gripið fram í.) Ég heyri ekki almennilega hvað hv. síðasti ræðumaður segir þó hann tali nú hátt en hann er búinn með sinn tíma hér í þessari umræðu.
    En það eru aðrar tillögur uppi líka hjá hæstv. ríkisstjórn sem ekki lækka orkuverð né jafna. Ég er hér með bréf frá Rafmagnsveitum ríkisins, sem iðnrh. var líka sent. Hæstv. iðnrh. var að ræða um að það væri verið að tala um jöfnun og jafnvel lækkun en það er alls ekki rétt. Ég ætla að lesa það bréf líka, með leyfi hæstv. forseta:
    ,,Á fundi Rafmagnsveitu ríkisins, fulltrúa iðnrn. og fjárlagaskrifstofu þann 17. sept. 1992 um fjárlög fyrir árið 1993 kom fram af hálfu fjárlagaskrifstofu að ríkisstjórnin hefði ákveðið eftirfarandi:
    1. Að B-hluti ríkisfyrirtækja tæki á sig lífeyrissjóðsskuldbindingar að fullu vegna eigin starfsmanna.
    2. Að ríkisfyrirtæki greiði arð í ríkissjóð sem verði hlutfall af eigin fé, 2%.
    3. Að hætt verði endurgreiðslu innskatts þegar um er að ræða virðisaukaskattsfrjálsa sölu.
    Afleiðingar af framangreindum breytingum verða eftirfarandi:
    1. Tilfærsla á lífeyrissjóðsskuldbindingum frá ríkissjóði til Rarik veldur samkvæmt lauslegu mati kostnaðarauka upp á u.þ.b. 9 millj. kr. á árinu 1992.
    2. 2% arður af eigin fé hefði vegna ársins 1991 orðið 222 millj. kr.
    3. Ef innskattur verður ekki endurgreiddur af hitasölu sem er án virðisaukaskatts veldur það 200 millj. kr. kostnaðarauka á árinu 1993. Verði heimilað að fella niður virðisaukaskatt af þeirri heildsölu Landsvirkjunar sem ætla má að sé vegna húshitunar verður kostnaðarauki á árinu 1993 60--70 millj. kr. Samkvæmt upplýsingum tekjudeildar fjmrn. þarf sérstaka stjórnvaldsákvörðun til að heimila slíka túlkun eða undanþágu.
    Þetta er það sem við höfum verið að tala um um jöfnun húshitunarkostnaðar. Þrátt fyrr góðan vilja

og heitar bænir hv. 5. þm. Austurl. sýnist mér að ef ríkisstjórnin ætlar með tillögum sínum að ganga þennan veg verður hækkun og ójöfnuður enn þá meiri en nú er á húshitun í landinu. (Gripið fram í.) Ég er mjög óánægð með það, hv. þm., og ég er tilbúin að styðja bæði hæstv. ráðherra og hv. síðasta ræðumann til góðra verka. En ég er ekki tilbúin í nýjan ójöfnuð eða meiri ójöfnuð en nú er.