Lækkun húshitunarkostnaðar

44. fundur
Mánudaginn 02. nóvember 1992, kl. 15:35:48 (1759)

     Kristinn H. Gunnarsson :
    Virðulegur forseti. Staðan hefur því miður breyst svo frá því ég bað um orðið þar til ég kemst að að hæstv. iðnrh. er hlaupinn úr salnum að sinna brýnni erindum en að hlusta á umræðu þingmanna um lækkun húshitunarkostnaðar. Ég verð að lýsa sérstakri hryggð minni yfir þeim önnum ráðherrans að mega ekki vera að því að dvelja með okkur um stund til að hlýða á viðhorf þingmanna til þessa máls, ekki síst eftir brýningar hv. þm. Gunnlaugs Stefánssonar sem hvatti þingmenn til að láta hendur standa fram úr ermum og berja á óvininum sem hann var búinn að finna, stjórn Landsvirkjunar. Það er auðvitað mikil framför þegar menn átta sig á því hver bregður fæti fyrir fögur stefnumörk og átta sig á því hver andstæðingurinn er, sem liggur í leynum og spillir fyrir fögrum áformum. Það mun vera stjórn Landsvirkjunar. Það tilkynnist hv. Alþingi að samkvæmt upplýsingum frá hv. 5. þm. Austurl. er það stjórn Landsvirkjunar sem hefur komið í veg fyrir að ríkisstjórnin næði fram markmiðum sínum. Efa ég ekki að þessar upplýsingar eru réttar enda er þingmaðurinn í betra sambandi við almættið en ég.
    Ég vil snúa mér að þessu fyrrbæri, stjórn Landsvirkjunar, sem þvælist fyrir og dregur lappirnar. Eftir því sem ég best veit er kosið í þá stjórn dálítið pólitískt, kannski ekki svo mjög en samt svolítið. Það slæðast þarna inn nokkrir menn sem ég er ekki grunlaus um að tilheyri Sjálfstfl. og Alþfl. Ef maður legði saman þessa grunuðu menn er ég ekki frá því að við hefðum drjúgan meiri hluta í stjórn Landsvirkjunar. Það er dálítið fróðlegt að velta því fyrir sér hvernig á því stendur að þessi meiri hluti, sem er sami meiri hluti og stendur að ríkisstjórninni, er að þvælast svona fyrir. Eru það sjálfstæðismennirnir og alþýðuflokksmennirnir í stjórn Landsvirkjunar sem eru svona fúlir út í sjálfstæðismennina og alþýðuflokksmennina í ríkisstjórn að þeir þvælast fyrir fögrum áformum, jöfnun? Það væri fróðlegt ef hv. þm. vildi gefa okkur upplýsingar um það því mér er alveg ókunnugt um hvernig mannval er í þessari stjórn að öðru leyti en því að hv. 1. þm. Norðurl. v. er þar og er mikill víkingur til verka eins og við vitum.
    Þetta er eiginlega fyrsta atriðið sem ég tel að hv. þm. Gunnlaugur Stefánsson verði að varpa ljósi á. Hvernig stendur á því að sjálfstæðismennirnir og alþýðuflokksmennirnir í stjórn Landsvirkjunar þvælast fyrir fótum hæstv. iðnrh.? Þvílík ósvífni, liggur mér við að segja. Þetta gera ekki venjulegir flokksmenn, alla vega ekki í þessum flokkum, að þvælast fyrir sínum ráðherrum. Það er alveg greinilegt að þeir sem þarna eru eru engar heybrækur, eins og hæstv. utanrrh. upplýsti okkur um að fyrirfyndust í stjórnarliðinu, einhver slatti af heybrókum sem eyðilegði góð áform stjórnarinnar um breytingar á virðisaukaskatti. Það væri líka fróðlegt ef sá ágæti stjórnarþingmaður, sem hér situr og er annar af tveimur í þingsal að hlusta á umræður um lækkun húshitunarkostnaðar, upplýsti okkur um það svolítið nánar hverjar þessar heybrækur eru í stjórnarliðinu sem eyðileggja hin góðu áform í fjárlagafrv.
    Við skulum skoða þessi góðu áform sem heybrækurnar brugðu fæti fyrir. Það segir í fjárlagafrv., með leyfi forseta, á bls. 342:
    ,,Tekið er upp sérstakt framlag að fjárhæð 80 millj. kr. til niðurgreiðslu á húshitun á ,,köldum svæðum`` í tengslum við breytingar á virðisaukaskatti.``
    Við höfum fengið útreikninga frá Sambandi ísl. hitaveitna á áhrifum þessara breytinga. Þær hafa ekki áhrif upp á 80 millj. kr. á fjárhag hitaveitna heldur 540 millj. Það kallast ekki að stuðla að lækkun eða jöfnun orkuverðs. Ég mundi segja að það væri öfugt, þ.e. hækkun. Það er sá fagnaðarboðskapur í fjárlagafrv. sem hæstv. iðnrh. stendur að. ( Gripið fram í: Með góðu hugarfari.) Með góðu hugarfari. ( Gripið fram í: Enda velviljaður maður.) Enda velviljaður maður. Til marks um velvilja hæstv. iðnrh. til jöfnunar á landsvísu á hinum ýmsu aðföngum launþega sem búa um allt land minni ég þingmenn á frv. sem ráðherra flutti á síðasta vetri til að draga úr jöfnun á bensínverði og á olíuvörum um landið. Í stað þess að það væri jafnt um allt land átti það að vera misjafnt. Það átti bara að vera jafnt á ákveðnum stöðum á landinu en annars staðar átti það að vera misjafnt. Þetta var gert í anda jafnaðarstefnunnar. ( Gripið fram í: Þetta er eitthvert frv. sem þú hefur samið.) Þetta er frv. sem hv. 1. þm. Vestf. sat á og drap eiginlega í hv. efh.- og viðskn. við nokkurn óróleika hæstv. iðnrh. á síðasta þingi.
    Ég minnist þess að í umræðu um það frv. sagði hæstv. iðnrh. til að lýsa góðum hug sínum til jöfnunar að það væri ekki hlutverk ríkisins að jafna öllu út og suður. Ég spurði ráðherrann þá hvort þetta ætti ekki bara við bensín og olíur eins og augljóst var eða hvort það ætti líka við um húshitun, hvort það væri ekki hlutverk ríkisins að jafna öllu út og suður varðandi húshitun. Ráðherrann neitaði því ekki. Ég vildi því fyrst velta því fyrir mér hvort það væri virkilega þannig að Alþfl., með hæstv. iðnrh. í fararbroddi, sé sammála þeirri stefnumörkun sem hér er lýst að hafi verið flutt sem þáltill. á 113. þingi. Ég er nokkuð efins um að markmið Alþfl. og iðnrh. sé að jafna orkuverðið í ljósi þeirra umræðna og þess frv. sem ráðherrann hefur þegar flutt. Ég sé ekki annað en það sé markmið Alþfl. og iðnrh., sem leiðir flokkinn í þessu máli, að auka mismuninn. Eða hvernig skyldi standa á því að ráðherrann skuli ekki koma fram þeirri stefnu sem hann telur sig standa fyrir, að auka jöfnuð, í þremur áföngum á næstu tveimur árum þannig að kostnaður við hitun íbúðarhúsnæðis vísitölufjölskyldu hjá rafveitum og kynntum hitaveitum verði ekki hærri en 5.000 kr. að jafnaði á mánuði miðað við verðlag í janúar árið 1991? Ráðherrann er búinn að vera eitt og hálft ár í ríkisstjórn. Það er liðið eitt og hálft ár af tveimur og enn er ekki kominn nema einn áfangi til framkvæmda af þremur. Hvenær koma hinir tveir áfangarnir til framkvæmda sem boðaðir eru í fyrsta tölulið? Það þýðir lítið að vera að skrattast á stjórn Landsvirkjunar og segja að hún sé að þvælast fyrir. Ég veit ekki betur en ríkisstjórnin hafi þau tök á sínum heybrókum að hún komi fram sínum málum þegar þurfa þykir innan þings sem utan. Við knýjum því á um efndir ríkisstjórnarinnar á þessu fyrirheiti. Hvar eru efndirnar? (Forseti hringir.) Virðulegur forseti, þetta var góður endir.