Lækkun húshitunarkostnaðar

44. fundur
Mánudaginn 02. nóvember 1992, kl. 15:44:33 (1760)

     Flm. (Jón Helgason) :
    Hæstv. forseti. Ég þakka fyrir þær umræður sem hér hafa farið fram og undirtektir við tilgang þessarar þáltill. Ég þakka hæstv. iðnrh. fyrir þær aðgerðir sem hann hefur komið fram og eru í þessa átt og m.a. eru nú tíundaðar í greinargerð með tillögunni. Ég vil ekki halda því endilega fram að þrátt fyrir þessar aðgerðir iðnrh. hafi húshitunarkostnaður verið að vaxa eins og hv. 5. þm. Austurl. sagði að hefði orðið niðurstaðan síðustu árin, þ.e. að mismunurinn hafi vaxið. Ég vil viðurkenna árangur af þessum fyrsta áfanga. Ég held að það hljóti að vera auðvelt að sjá að við flm. till. styðjum hæstv. iðnrh. þar sem tillagan fjallar um að framkvæmd sé þáltill. sem hæstv. ráðherra lagði fram. Ég sé ekki að það sé hægt að undirstrika betur stuðning við hæstv. ráðherra en með því formi sem hér er haft á tillögunni. En því miður virðist það vera svo að hæstv. ráðherra þurfi á meiri stuðningi að halda. Hér er verið að bjóða stuðning Alþingis fram ef þessi tillaga verður samþykkt. Það hefur verði bent á hvernig hann hefur farið halloka í glímunni við stjórn Landsvirkjunar. Ég held því að hann hljóti að taka því fagnandi ef Alþingi vill knýja þarna á.
    Síðan er það hinn hlutinn sem er niðurgreiðsla úr ríkissjóði. Í tillögu hæstv. iðnrrh. var ákvæði um að það yrði tekið fjármagn af ákveðnum lið í fjárlögum, öðru niðurgreiðslufjármagni. Nú í fjárlagafrv. er hins vegar gert ráð fyrir því að þessi fjárlagaliður verði skorinn niður að verulegu leyti. En fjármagnið verður ekki notað til jöfnunar orkuverðs eins og þáltill. hæstv. iðnrrh. gerði ráð fyrir heldur fer það beint inn í ríkissjóð. Þess vegna held ég að það sé mjög brýnt nú, áður en fjárlagafrv. verður tekið til afgreiðslu, að vilji Alþingis komi skýrt fram í þessu efni. Ég vona að hv. 5. þm. Austurl., sem á sæti í fjárln., muni beita sér fyrir því og styðja þannig hæstv. iðnrh. Með þessari ábendingu vil ég líka svara þeirri spurningu hæstv. iðnrh.: Hvert á að sækja féð? Við ætlumst til þess að það verði gert á sama hátt og samstaða nær allra þingflokka var um þegar nefndin afgreiddi sína tillögu sem hæstv. iðnrh. gerði að sinni. Ég vil því vonast til þess að menn verði við áskorun hv. 5. þm. Austurl. sem og annarra um að þessu máli verði tryggður framgangur og að eitthvað fari að gerast í þessum málum almennt. Það mun ekki hafa gerst síðan bókin Velferð á varanlegum grunni kom fram, engin almenn framkvæmd. Er það kannski svo að útgáfa þeirrar bókar hafi sett stólinn fyrir dyrnar? Ég veit það ekki. Ég vona að svo verði ekki til frambúðar.