Gjaldeyrismál

45. fundur
Þriðjudaginn 03. nóvember 1992, kl. 13:44:53 (1763)

     Jóhannes Geir Sigurgeirsson :
    Virðulegi forseti. Eins og fram kom í ræðu formanns hv. nefndar er samstaða í nefndinni um afgreiðslu þessa máls og þarf þess vegna ekki að hafa um það mörg orð á þessu stigi. Nefndin hefur lagt mikla vinnu í málið og ég vil nota þetta tækifæri til að þakka formanninum fyrir góða og sanngjarna verkstjórn hvað það snertir.
    Ég vil ítreka þær viðvaranir sem koma fram í annarri málsgrein nál. þess eðlis að það verði að fara varlega og stíga skrefin ekki hraðar en svo að peningamarkaður okkar og Seðlabankinn verði tilbúnir til að takast á við það á hverjum tíma.
    Ég hef marglýst yfir þeirri skoðun minni úr þessum stól að það geti ekki staðist með frjálsum vöxtum og frelsi á fjármagns- og viðskiptamarkaði að öðru leyti, að halda genginu í handstýrðu kerfi. Ein af forsendum frv. ef það verður að lögum er að hægt verði að taka upp gjaldeyrismarkað sem byggist, eins og komið hefur fram, á millibankamarkaði, þ.e. viðskiptum banka með gjaldeyri sín á milli og við Seðlabankann.
    Þetta leiðir hugann að því sem hefur verið að gerast á síðustu vikum þegar menn hafa látið sem svo að íslenska krónan væri eini gjaldmiðillinn sem gæti staðið af sér allar þær miklu breytingar sem hafa orðið á gjaldmiðlum í Evrópu, sem er mikil þversögn ef við tökum tillit til þess að í raun hefur íslenska krónan verið að hoppa upp og niður eftir því sem gjaldmiðlar í Evrópu hafa verið að breytast. Það er því ákveðin þversögn fólgin í því að genginu sé haldið stöðugu.
    Ég ætla í þessum töluðu orðum að beina spurningu til hæstv. viðskrh. þess efnis hvað líði undirbúningi að því að taka upp markaðsskráningu krónunnar. Ég vil rifja upp í því sambandi að þegar seðlabankalögum var breytt á síðasta þingi til þess að leggja grunninn að þessari breytingu var það mjög uppi í umræðunni, m.a. frá hæstv. viðskrh., að tengja krónuna við ECU. Ég taldi það á þeim tíma hið mesta óráð og það væri engin forsenda fyrir því þó við vildum taka upp markaðsskráningu krónunnar að sú gengiskarfa sem við tengdum okkur við væri ECU. Ég tel enn að það sé miklu skynsamlegra að sú markaðskarfa endurspegli sem mest það viðskiptamunstur í útflutningsviðskiptum sem við búum við og tel reyndar að reynslan hafi sýnt að þetta álit mitt sé rétt.
    En það er annað sem ég vil minna á í þessu sambandi. Í skýrslu sem við fengum varðandi þetta atriði, m.a. frá Seðlabankanum, var bent á það að ef menn ætluðu að tengja krónuna við ECU þyrfti að koma til, eins og þar var orðað ef ég man rétt, kerfislæg aðlögun krónunnar að gjaldmiðlum þeim sem við værum að tengja okkur við.
    Við sem vorum að reyna að rýna í þetta skildum það á þann veg að menn efuðust um að sú gengisskráning sem væri á krónunni núna mundi standast og menn vildu finna ráð til þess að aðlaga gengið því sem við værum að ganga inn í áður en við tækjum upp markaðsskráninguna. Þetta held ég að sé skynsamlegt og eigi alveg eins við þótt sú gengiskarfa, sem við tengjum okkur við, verði sú sem er í gildi núna. Ég held að það sé miklu skynsamlegra að hnika genginu í það horf sem við teljum að við getum varið þegar við verðum búin að taka upp markaðsskráninguna þannig að það fari ekki á þann veg að gengið hrekjist strax í upphafi, eins og aðstæður eru núna, að þeim neðri fráviksmörkum sem við verðum að setja.
    Ég vil inna hæstv. viðskrh. eftir hans áliti á þessum vangaveltum mínum. Auk þess vil ég spyrja hæstv. viðskrh. þeirrar sömu spurningar og ég spurði reyndar á síðasta þingi, þ.e. hver hann telji að séu eðlileg fráviksmörk krónunnar í okkar tilfelli miðað við sveiflukennda atvinnuvegi eftir að við erum búin að taka upp markaðstengingu krónunnar.