Fréttaflutningur af slysförum

45. fundur
Þriðjudaginn 03. nóvember 1992, kl. 14:21:35 (1772)

     Flm. (Gunnlaugur Stefánsson) :
    Virðulegi forseti. Ég hef leyft mér að bera hér upp á Alþingi till. til þál. um fréttaflutning og upplýsingaskyldu um slysfarir og harmraunir fólks. Till. hljóðar svo:
    ,,Alþingi ályktar að fela dómsmálaráðherra að skipa nefnd til þess að móta starfsreglur um fréttaflutning og upplýsingaskyldu stofnana um slysfarir og harmraunir fólks.``
    Í greinargerð kemur m.a. fram að þessi tillaga var flutt á 115. löggjafarþingi en varð þá eigi útrædd.
    Tilgangur þessarar tillögu er að koma á fót samráðsvettvangi þeirra aðila og stofnana sem næst koma upplýsingamiðlun af slysförum og harmraunum fólks. Mikilvægt er að samræmdar viðmiðunarreglur eða leiðbeiningar geti ríkt við slíkar aðstæður er taki mið af mannhelgi, virðingu og hluttekningu en um leið af nauðsynlegri upplýsingaskyldu svo að ekki verði vegið að fjölmiðlafrelsi í landinu.
    Fréttaflutningur af slysförum og harmraunum fólks er vandmeðfarið og viðkvæmt mál. Íslenskir fjölmiðlar hafa í áranna rás leitast við að fjalla um slík mál af tillitssemi og varkárni. Þó má greina þá þróun að ágengni fjölmiðla gagnvart einstaklingum, sem hlut eiga að máli, björgunarsveitum að störfum og öðrum viðkomandi aðilum verði æ meiri og óvægnari. Aukin samkeppni fjölmiðla um fréttaöflun af atburðum og málavöxtum getur orðið til þess að misbjóða mannvirðingu og siðrænum gildum. Hér er hvorki verið að leggja til lagasetningu né opinbera reglugerð heldur að þeir aðilar og stofnanir, sem nærri aðstæðum koma, geti sameinast um samræmdar starfsreglur. Þá er einnig mikilvægt að greina betur upplýsingaskyldu viðkomandi stofnana, samtaka og starfsstétta gagnvart fjölmiðlum.
    Í tillögunni er lagt til að dómsmálaráðherra sjái um skipan slíkrar nefndar er lagt gæti grundvöll að samráðsvettvangi og styrkt og eflt gagnkvæman trúnað og skilning viðkomandi aðila og stofnana. Í starfi nefndarinnar er eðlilegt að hafa náið samráð m.a. við slysavarna- og björgunarsveitir, samtök blaða- og fréttamanna, Prestafélag Íslands, Lögreglufélag Íslands, Rannsóknastofnun Háskólans í siðfræði, Samtökin um sorg og sorgarviðbrögð, Læknafélag Íslands og barnaverndarráð.
    Þessi tillaga er flutt vegna brýnnar nauðsynjar og vona ég að viðkomandi þingnefnd skoði málið rækilega.
    Það er spurning sem við verðum líka að velta fyrir okkur hvort Alþingi eigi yfir höfuð að hafa einhverja skoðun í þessum efnum eða hvort það eigi algerlega að ráðast af markaðnum, ef við getum orðað það svo, hvernig með þessi mál skuli farið í fjölmiðlum og í samskiptum fjölmiðla og einstaklinga, samskiptum fjölmiðla og hinna ýmsu samtaka.
    Hér er ég ekki að leggja til að það verði sett lög eða reglur er hefti fjölmiðlafrelsi með einhverjum hætti. Þvert á móti er ég að leggja til að það verði með einhverjum ráðum hægt að koma á fót samráðsvettvangi sem geti mótað og byggt upp reglur sem menn virði. Fjölmiðlarnir viti að það gildi ákveðnar reglur sem öruggt er að treysta. Þetta tel ég að sé mjög brýnt.
    Mér er það vel ljóst að hér er um mikið vandamál að ræða. Eftir að þetta mál var flutt fyrst í fyrra hafa fjölmargir komið að máli við mig og lýst fyrir mér reynslu sinni af því hvernig einstakir fjölmiðlar hafi á stundum sagt þannig frá válegum tíðindum að það jók á sorg, það jók á sárin og það jók á erfiðleika sem fjölskyldur og einstaklingar áttu við að stríða vegna missis og vegna aðstæðna sem við blöstu. Íslenskt þjóðfélag er mjög sérstakt. Hér er nábýli mjög mikið. Íslendingar eru aldir upp við skilning og samúð og hluttekningu á lífinu. Ég er viss um að við viljum ekki að sá siður gildi hér eins og virðist vera algildur víða erlendis að fólk deyi í slysum í beinni útsendingu í fjölmiðlum. Ég tel mjög brýnt að við ræðum þá spurningu hvort við viljum að fjölmiðlunin komist á það stig í landinu. Og hvort við viljum að þróunin ráði því hvernig að þessari fjölmiðlun verði staðið í framtíðinni eða hvort við viljum reyna að beita öllum aðferðum til að hafa hér áhrif á.
    Það má líka um það deila hvort það sé dómsmrh. sem á að hafa forustu í þessu máli eða hvort

það ætti að vera forsrh., ríkisstjórnin eða menntmrh. Um það kemur viðkomandi þingnefnd til með að fjalla. Ég nefni hér sem tillögu dómsmrh. sem hefði frumkvæði um að skipa slíka nefnd enda heyra undir hann fjölmargar þær stofnanir sem hér eru nefndar í greinargerð með þáltill. En það kemur vel til greina að önnur ráðherraembætti en dómsmrh. hafi þarna frumkvæði.
    Það má nefna það hér að ég tók þátt í mjög fróðlegum fundi fjölmiðlafólks sl. vetur þar sem einmitt var verið að fjalla um þetta mál. Sá fundur, sem var afar fjölmennur, gagnlegur og virkilega fróðlegur, upplýsti mig enn betur um þá nauðsyn að hér þurfi að gera eitthvað, að hér þurfi að spyrna með einhverjum hætti við fótum til að einhvers konar samræmdar reglur eða einhvers konar vettvangur skapist svo að það megi koma á meiri festu sem hægt sé að treysta betur í samskiptum fjölmiðla og viðkomandi stofnana þegar váleg tíðindi eiga sér stað í landinu okkar.
    Virðulegur forseti. Ég legg til að þessu máli verði að lokinni fyrri umr. vísað til allshn.