Fréttaflutningur af slysförum

45. fundur
Þriðjudaginn 03. nóvember 1992, kl. 14:33:17 (1774)

     Ingibjörg Sólrún Gísladóttir :
    Virðulegi forseti. Ég ætla, eins og sá sem talaði á undan mér, að fagna þessari þáltill. og tel mjög brýnt að það verði tekið á málunum, þ.e. að móta einhverjar starfsreglur um fréttaflutning og ekki þá síður upplýsingaskyldu stofnana um það sem hér er kallað slysfarir og harmraunir fólks. Þarna kemur auðvitað ýmislegt inn í myndina og af því að hér er talað um upplýsingaskyldu stofnana um slysfarir, vil ég minna á að skoða þarf upplýsingaskyldu dómsyfirvalda og annarra slíkra því þess eru þó nokkur dæmi í samfélagi okkar að menn hafi í fyrsta sinn heyrt um dóma, sem yfir þeim hafa verið felldir, í útvarpi. Það er því hlutur sem þyrfti líka að koma inn, að menn hafi tækifæri til þess að gera sér grein fyrir dómum sem yfir þeim eru felldir og tilkynna sínum nánustu um slíkt áður en þeir heyra um það í fjölmiðlum. Það eru því miður dæmi að slíkt gerist þannig að það er ekki síður mikilvægt að skoða þá hluti.
    Ég gerði mál svipaðs eðlis að umtalsefni á þinginu í fyrra þegar ég bar fram fsp. til menntmrh. um myndbirtingar af börnum í dagblöðum. Eins og fólk kannski man þá birtist mynd í DV af níu ára gömlum dreng sem hafði orðið fyrir þeirri ógæfu að stinga jafnaldra sinn með hnífi. Sama dag eða daginn eftir birtist myndin í DV. Þá kom ég inn á það að í lögum um vernd barna og ungmenna væri hvergi minnst á vernd barna gagnvart fjölmiðlum. En ég held að fjölmiðlar misbjóði börnum oft og tíðum, bæði í málum eins og þessu, stundum í barnaverndarmálum og eins með ýmsum öðrum hætti. Þegar við komum að fjölmiðlum verðum við alltaf að stíga mjög varlega til jarðar vegna þess að prentfrelsið og málfrelsið er okkur mjög mikilvægt. Við þurfum að gæta þess að takmarka það ekki með lagasetningu og þess vegna held ég að sú leið sem stungið er upp á hér, þ.e. að menn móti sér einhverjar samræmdar starfsreglur, sé mjög góð. Það þarf að tryggja að fjölmiðlar hafi sjálfir eitthvert innra eftirlit með því hvernig þeir starfa.
    Við vitum að hjá Blaðamannafélaginu er starfandi siðanefnd en eftir því sem mér er best kunnugt þá þarf einstaklingur að vera aðili að máli til þess að geta kært það til siðanefndar Blaðamannafélagsins. Þegar ég horfi á mynd í blaði eins og þá af drengnum í fyrra, þá meiðir hún mig. Ég er hins vegar ekki aðili að slíku máli þannig að ég reikna með að sem einstaklingur gæti ég ekki kært slíkt mál heldur þyrfti kæran að koma frá einhverjum sem tengdur væri málinu með beinum hætti, þ.e. forráðamanni barns eða einhverjum slíkum aðila. Ég held að þetta sé þannig en hugsanlegt væri þó að barnaverndaryfirvöld eða einhver slík samtök gætu kært dæmi eins og þetta.
    Ég held að þetta sé ágætt mál sem við verðum að skoða á Alþingi og að það þurfi að skoða í nokkuð víðu samhengi. Ég fagna þessari tillögu og vona að hún fái góða umfjöllun á þinginu.