Kaup á björgunarþyrlu

45. fundur
Þriðjudaginn 03. nóvember 1992, kl. 14:48:49 (1778)

     Flm. (Ingi Björn Albertsson) :
    Hæstv. forseti. Ég mæli fyrir frv. á þskj. nr. 128, 110. mál sem er frv. til laga um kaup á björgunarþyrlu. Flm. ásamt mér eru hv. þm. Steingrímur Hermannsson, Ólafur Ragnar Grímsson, Kristín Ástgeirsdóttir, Guðmundur Hallvarðsson, Guðrún Helgadóttir og Anna Ólafsdóttir Björnsson.
    Eftir að hafa farið yfir meðflm. að frv. ber að geta þess að þar eru fulltrúar allra flokka nema Alþfl. Mál þetta var kynnt þar en að því er virðist fyrir daufum eyrum. Þó ber að geta þess að hv. þingflokksformaður Alþfl. var meðflm. á sama frv. á síðasta þingi en hann var því miður erlendis þegar málið var lagt fram þannig að ekki var unnt að ná sambandi við hv. þm. og koma honum á sem meðflm. Hann hefur hins vegar lýst því yfir að hann hefði óskað þess að vera meðflm. og muni styðja málið eins og hann gerði á síðasta þingi.
    Hæstv. forseti. Í raun er sorglegt að það þurfi að endurflytja frv., taka málið upp einu sinni enn á Alþingi, en því miður virðist engin önnur leið fær. Ef þetta mál á að ná fram að ganga virðist eina leiðin sú að setja lög um það og skylda ríkisstjórnina til þess að fara eftir þeim lögum, enda vil ég ógjarnan trúa því að hún geri það ekki.
    Frv. er stutt í sniðum og einfalt. 1. gr. hljóðar svo:
    ,,Ríkisstjórnin skal á árinu 1993 gera samning við framleiðendur eða seljendur um kaup á björgunarþyrlu fyrir Landhelgisgæsluna.
    2. gr. Fjármálaráðherra er heimilt fyrir hönd ríkissjóðs að taka lán á árinu 1993 að fjárhæð allt að 150 millj. kr. eða jafnvirði þeirrar upphæðar í erlendri mynt.
    3. gr. Lög þessi öðlast þegar gildi.``
    Í ljósi þess að málið hefur verið flutt hér margoft eða frá árinu 1987 og fluttar hafa verið um það þingsályktunartillögur, fyrirspurnir og nú endurflutt frv., þótti flm. óþarft að hafa við það langa greinargerð, enda þingheimi fullkunnugt um málið. Greinargerðin er mjög stutt, aðeins 4 línur og hljóðar svo, með leyfi forseta:
    ,,Eftirfarandi þingsályktun um björgunarþyrlu var samþykkt á Alþingi 12. mars 1991:
    Alþingi ályktar að fela ríkisstjórninni að sjá til þess að á árinu 1991 verði gerður samningur um kaup á fullkominni björgunarþyrlu fyrir Landhelgisgæsluna.
    Frumvarp þetta þarf ekki frekari skýringa við.``
    Þannig hljóðar greinargerðin. Hæstv. forseti. Það eru auðvitað ákveðin skilaboð í svona stuttri greinargerð sem ég hygg og vona að ríkisstjórnin skilji. Engu að síður hlýtur maður að velta því fyrir sér og e.t.v. á maður að spyrja hæstv. forseta um það, að vísu er það ekki aðalforseti sem situr í stóli forseta að þessu sinni þannig að það er ekki sanngjarnt að óska eftir svari, en ekki óeðlilegt að menn velti því fyrir sér hvert gildi þingsályktunartillagna yfirleitt sé. Til hvers er ætlast af þingmönnum? Er eðlilegt að það sé ætlast til þess að þingmenn leggi á sig mikla vinnu við að kynna sér mál, skoða þau og leggja í mikla vinnu til að koma þeim í búning og mæla fyrir þeim á þingi, fá jafnvel samþykkta þál. eftir mikla vinnu í nefnd eftir umsóknir og eftir að hafa fengið umsagnaraðila til nefndar? Eftir að slík ályktun er samþykkt virðir ríkisstjórn hana að engu. Í mínum huga er ríkisstjórnin að starfa í umboði Alþingis. Það er Alþingi sem setur leikreglurnar að miklu leyti fyrir ríkisstjórn og það er að mínu viti skylda ríkisstjórnar að virða vilja Alþingis. Vilji Alþingis í þessu tiltekna máli hefur ítrekað komið í ljós, bæði með samþykkt þáltill., með því að setja heimild í tvígang inn í 6. gr. fjárlaga til lántöku vegna kaupa á björgunarþyrlu og ítrekað með því að setja það inn í lánsfjárlög.
    Ég tel að ríkisstjórnin verði að gera sér grein fyrir því að hún starfar í umboði þessarar stofnunar. Hún er ekki sjálfstætt ,,apparat``. Ég tel því að full ástæða sé til að inna eftir því hvert gildi þáltill. sé. Það er ekki bara sú þáltill. sem var samþykkt vegna kaupa á björgunarþyrlu sem ég hef í huga heldur margar aðrar sem virðast fara beint í salthauginn. Þá er ég ekki frekar að tala um þá ríkisstjórn sem nú situr heldur ríkisstjórnir yfirleitt. Ég held að það sé mjög hollt fyrir þingmenn að fá það upplýst og tekið út hvert

gildið er og hvort menn eiga ekki hreinlega að hætta við það form að hafa þingsályktanir. Það er auðvitað nöturlegt að leggja í mikla vinnu og kalla til fjölda manns út um allt þjóðfélag og láta þá vinna að umsögnum eða gefa munnlegar umsagnir og síðan er ekkert gert með það. Þetta tel ég að þurfi að skoða.
    Ég hef farið hér aðeins yfir ferli málsins. Það er auðvitað hægt að setja á mjög langa ræðu um það. Ég tel að það sé ekki nauðsynlegt. Það hafa verið skipaðar undanfarin ár margar nefndir í málið, fyrst af fyrrv. fjmrh., Ólafi Ragnari Grímssyni, og síðan hafa nokkrar verið skipaðar af hæstv. dómsmrh., Þorsteini Pálssyni. Allt kemur fyrir ekki. Niðurstaðan er sú að nú er endanlega hætt við kaup á þyrlunni þrátt fyrir ítrekaðar viljayfirlýsingar Alþingis, þrátt fyrir greinilegan vilja allrar þjóðarinnar fyrir málinu, þrátt fyrir áskoranir, fundahöld, ályktanir og safnanir. Málið nýtur almenns stuðnings alls staðar í þjóðfélaginu nema við Lækjargötu, nema hjá ríkisstjórninni. Það er eini staðurinn, eini þröskuldurinn á allri leiðinni, það er sjálf ríkisstjórnin. Samt hafa nokkrir sem þar hafa setið stutt þetta mál í gegnum tíðina. Maður hlýtur að spyrja sjálfan sig að því hvað veldur. Ýmis tilboð hafa borist, bæði í nýjar þyrlur og gamlar. Menn skýla sér nú á bak við erfitt ástand í þjóðfélaginu. En gera menn sér grein fyrir því að útgjöld leggjast ekki á ríkissjóð fyrr en hugsanlega eftir tæp þrjú ár?
    Það liggur fyrir tilboð núna í þá tegund þyrlu sem sérstök nefnd á vegum ráðherra komst að niðurstöðu um að væri heppilegasti kosturinn. Tilboð liggur fyrir frá framleiðanda þeirrar þyrlu sem er á þann veg að ekki þarf að greiða af henni fyrstu afborgun fyrr en 14 mánuðum eftir að þyrlan hefur verið afhent. Það er tilboðið.
    Það liggur líka fyrir að það tekur u.þ.b. 18--20 mánuði að framleiða þyrlu. Við erum því að tala um 34 mánuði frá því að ákvörðun er tekin. Það gæti því komið inn á fjárlög fyrir árið 1996. Ég tel mig hafa heyrt það á ráðamönnum þjóðarinnar að þá verði allt komið í himnalag.
    Sú ráðgjafarnefnd sem dómsmrh. skipaði á sínum tíma til þess að taka út þyrlukaup lagði til að leitað yrði eftir tilboðum í notaða þyrlu af þessari tilteknu gerð. Ég er með niðurstöður þeirrar nefndar og skilaboð hennar til ríkisstjórnar. Þetta eru fulltrúar frá forsrn., fjmrn. og utanrrn. ásamt dómsmrn. Þar segir, með leyfi forseta:
    ,,Fulltrúar ráðuneytanna leggja til að kannað verði hvort unnt er að fá keypta notaða AS 332 LI þyrlu (Super Puma) í fullnægjandi ástandi, búna nauðsynlegum tækjabúnaði björgunarþyrlu og á viðunandi kjörum. Jafnhliða verði kannaðir aðrir kostir enda ekki ljóst hvort unnt er að finna fullnægjandi notaða AS 332 LI þyrlu á viðunandi kjörum.``
    Ég hef í höndunum tvö tilboð í þessar þyrlur, notaðar þyrlur. Annars vegar þyrlu sem átti að kosta um 11 millj. dollara og má segja að sé ný vegna þess að henni hefur aðeins verið flogið í 22 klukkustundir. Hins vegar þyrlu sem er tilboðsverð á upp á u.þ.b. 7 millj. dollara og er búið að fljúga í 6 þús. stundir. Hún er að fara í skoðun sem skilar henni eins og nýrri. Þessi tvö tilboð liggja fyrir ásamt þessu glæsilega tilboði sem ég fór yfir áðan. Það eru því ekki rök í málinu að við ráðum ekki við þetta í dag. Auk þess sem fyrsta afborgun af nýrri þyrlu, sem yrði ekki fyrr en 14 mánuðum eftir afhendingu, bjóða framleiðendur að þyrlan sé greidd á 8--10 árum. Hvað geta menn beðið um betra? Komi menn með betra boð. Það betra boð sem berst frá ríkisstjórninni er að hætta við þetta. En þá verður ríkisstjórnin líka að vera ábyrg fyrir gerðum sínum.
    Ég vissi ekki betur en að í maí í sumar hefðu dómsmrh. og fjmrh. fengið leyfi til að ganga til samninga um kaup á hentugri björgunarþyrlu. Hér er einn ágætur ráðherra að sniglast í kringum salinn. Hæstv. heilbrrh. er hér á vappi. Það væri ágætt að hann staðfesti hvort það er ekki rétt að fjmrh. og dómsmrh. hafi verið veitt þessi heimild og hann, eini ráðherrann sem ég sé í húsinu, getur þá líka upplýst þingheim um hvað gerðist. Af hverju var þessi heimild ekki nýtt?
    Ég tel að ráðherra hafi lofað þjóðinni því að keypt yrði þyrla. Ég hef hér viðtal við hæstv. forsrh. á rás 2 þar sem hann lýsir því yfir. Ég ætla að fá að vitna örlítið í það, með leyfi forseta. Þar spyr Stefán Jón Hafstein:
    ,,En svo að ég ítreki þetta og fái það staðfest hjá þér: Þú telur sem sagt þörf á því að fá björgunarþyrlu til Íslands til Gæslunnar.`` Forsrh. svarar: ,,Af þeim ástæðum settum við inn í dag og samþykktum á ríkisstjórnarfundi að leita eftir heimild, að það væri heimild á fjárlögum nú, 6. gr. fjárlaga eins og það var reyndar í fyrra, að menn geti notað tækifærið og keypt slíka þyrlu en jafnframt að ljúka þeim samningum við Bandaríkjamenn sem nú standa yfir. Það sé það skynsamlegasta.``
    Þarna er staðfest af hæstv. forsrh. að kaupa eigi þyrlu fyrir Landhelgisgæsluna. Þetta var í orrahríðinni á síðasta þingi og í framhaldi af því. Síðan er framhald á þessu viðtali þar sem hnykkt er enn betur á þessu. Það er því von að menn spyrji: Hvað skeði? Hvað skeði þarna í millitíðinni? Af hverju er þjóðin svikin um þetta? Þjóðin er svikin um þyrlu. Það er hinn kaldi veruleiki í dag. Ítrekað hef ég hlustað á ráðherrana bæði svara fyrirspurnum og öðru og segja að efni og samþykkt þáltill. yrði virt. Þá hlýtur maður að spyrja enn á ný um gildi þingsályktana. Er það bara opið svið? Er það nóg að þeir virði ályktunina eftir 50 ár? Er það nóg? Hún hefur verið gersamlega vanvirt og um leið hefur Alþingi verið vanvirt.
    Hér þarf ekki að færa rök fyrir þeirri þörf að eignast nýja þyrlu. Það hefur verið gert svo oft. Það hefur gjarnan verið tengt eingöngu við sjómenn en það er ekki rétt. Sú þyrla, sem við eigum í dag, er notuð að hálfu leyti fyrir sjómenn. Að öðru leyti er hún notuð til sjúkraflutninga og annars slíks á landi. Það sem þarf í dag er ekkert annað en vilji og við erum komin að því marki í dag að setja verður lög. Eina

leiðin til þess að þjóðin eignist þyrlu er að setja lög. Ég neita að trúa því að ríkisstjórnin brjóti lög. Hún getur vanvirt þingsályktanir en ég neita að trúa því að lög yrðu brotin.
    Þá kemur alltaf spurningin: Hvar á að taka fjármunina? Ég hef þegar lýst því að þetta lendir ekki á ríkissjóði fyrr en eftir hugsanlega þrjú ár og sennilega í fyrsta lagi þá því einhvern tíma tekur sennilega að ná málinu út úr nefndinni. Hvar á þá að taka fjármagnið? Ég get bent á það ósköp einfaldlega að við skulum taka risnukostnað íslenska ríkisins og skera hann niður um helming. Hann er á annan milljarð kr. Inni í honum er geysilegt sukk sem má vel taka og skera niður. Og svo er annað: Við skulum taka dagpeningana og afnema þá með öllu. Við borgum að sjálfsögðu útlagðan kostnað en dagpeningakerfið á að afnema og við skulum setja það inn í reksturinn á þyrlunni. Fjármunirnir eru til. Það sem vantar er viljinn.
    Á meðan við bíðum eftir nýju vélinni eigum við að sjálfsögðu að leigja aðra vél. Við eigum að brúa bilið. Það er nauðsynlegt. Við eigum að byrgja brunninn. Þegar tvær þyrlur eru komnar eigum við ekki að staðsetja þær báðar hér heldur að hafa staðsetninguna breytilega.
    Virðulegi forseti. Ég sagði í upphafi að ég ætlaði ekki að hafa um þetta langt mál enda tel ég að málið sé þrautrætt í þingsölum. Ég vil að lokum brýna menn til að styðja þetta mál. Ég fann það á síðasta þingi að mikill meiri hluti þingmanna er fyrir málinu. Okkar barátta núna mun snúast um að fá allshn. til að vinna hratt og vel að málinu og þá tel ég að það sé von.
    Að lokinni 1. umr. óska ég eftir að málið verði sent til hv. allshn.