Kaup á björgunarþyrlu

45. fundur
Þriðjudaginn 03. nóvember 1992, kl. 15:08:00 (1780)

     Flm. (Ingi Björn Albertsson) (andsvar) :
    Virðulegi forseti. Hv. þm. Guðni Ágústsson beindi til mín þeirri fyrirspurn hvort ég hefði gert ráðherrum ríkisstjórnarinnar sérstaklega viðvart um málið. Það kom fram í frammíkalli einhvers hv. þm. að hann reiknaði með því að ráðherrar hefðu lesið dagskrána. Ég verð að viðurkenna að ég gerði líka ráð fyrir því og geri enn að þeir séu jafnlæsir og við hinir og lesi dagskrána eins og aðrir þingmenn. Þeir eru líka þingmenn þótt þeir séu ráðherrar. Svarið er því nei. Ég gerði það ekki en ég tel það skyldu þeirra, eins og okkar, að fara yfir þau mál sem eru á dagskrá og mæta ef þau mál heyra undir þá að einhverju eða öllu leyti.