Kaup á björgunarþyrlu

45. fundur
Þriðjudaginn 03. nóvember 1992, kl. 15:09:16 (1781)

     Anna Ólafsdóttir Björnsson :
    Virðulegi forseti. Þegar ég ákvað að gerast meðflutningsmaður þessa máls í fyrra gerði ég það þrátt fyrir að ég teldi að í raun ætti að vera óþarft að flytja frv. af þessu tagi þar sem Alþingi hafði samþykkt þáltill. Mér sýnist að reynslan sanni það að ekki er vanþörf á því að brýna málið með þessum hætti og reyna að fá niðurstöðu sem ríkisstjórnin verður að hlíta og að hægt verði að ná með einhverjum hætti til hennar ef hún gerir það ekki. Mér þykir það hart að við skulum vera farin að grípa til slíkra óyndisúrræða í svo veigamiklu máli og að það skuli virkilega ekki vera hægt að treysta því að svona einföld og skýr þál., eins og samþykkt var á Alþingi þann 12. mars 1991, skuli ekki virt og að það skuli virkilega þurfa að fjalla um þetta efni núna. Það finnst mér í raun forkastanlegt. Ég hlýt hér eins og aðrir að lýsa eftir hæstv. ríkisstjórn. Ég sá reyndar ekki sömu sýn og hv. 5. þm. Suðurl. hér í sal enda hefði það ekki dugað mér sem nærvera ríkisstjórnar. Mér finnst í rauninni að reynslan kenni okkur að það hefði verið þarft fyrir hana að vera hér og fylgjast með umræðunni og skilja að það fylgir fullur þungi þessu máli.
    Ég er á þeirri skoðun að það sé góðra gjalda vert að sýna fram á hvernig fjármagna má slíka björgunarþyrlu. Og ekki ætti það að draga úr hæstv. ríkisstjórn að ganga þegar til verks þar sem það er búið að sýna fram á að þetta er vel framkvæmanlegt, jafnvel í þeim efnahagsþrengingum sem við nú förum í gegnum og eru reyndar að hluta til að mínu mati vegna þeirrar sömu stjórnar. En ég ætla að láta það liggja milli hluta í þessari umræðu. Hins vegar er það mín skoðun jafnframt að við getum ekki metið mannslíf til fjár. Jafnvel þó þetta þýddi mikil útgjöld sé þörfin svo brýn að það verði að gera eitthvað og það strax. Ég tek heils hugar undir það að fram til þess að þessi þyrla kemur til landsins er nauðsynlegt að leigja

aðra.
    Ég ætla ekki að lengja þessa umræðu enda hef ég möguleika á því að fylgjast með henni innan allshn. og mun ekki láta mitt eftir liggja að sjá til þess að málið fái þar greiðan og góðan framgang eins og það verðskuldar.
    Við þekkjum öll raunasöguna um þær nefndir og þær mótbárur og þau rök sem hafa orðið til að drepa þessu máli á dreif. Og við getum einfaldlega ekki unað við að sá undarlegi dans verði stiginn á nýjan leik. Ég vona því að nú verði tekið til hendinni. Ég get ekki ímyndað mér annað en þingmeirihluti sé fyrir málinu og hann verður að sjálfsögðu að koma í ljós.
    Ég ítreka því stuðning minn við þetta mál og hvet alla þá þingmenn sem vilja tala í umræðunni til að beita öllum þeim þrýstingi sem þeim er unnt til að sjá til þess að þetta mál komist klakklaust í gegnum þingið og það sem allra fyrst.