Kaup á björgunarþyrlu

45. fundur
Þriðjudaginn 03. nóvember 1992, kl. 15:13:34 (1782)

     Steingrímur Hermannsson :
    Virðulegi forseti. Ég kveð mér hljóðs til að vekja athygli á því sama og hv. þm. Guðni Ágústsson gerði áðan. Þetta mál var mjög rætt á síðasta þingi og ég taldi þá samkomulag um samþykkt þeirrar þáltill. sem þá var afgreidd. Ég hefði kosið að hæstv. ráðherrar yrðu hér --- dómsmrh. er að vísu erlendis en þá staðgengill hans. Ég tek undir það sem hv. þm. sagði áðan um aðra ráðherra. Ég vil eindregið óska eftir að þessari umræðu verði ekki lokið áður en hæstv. ráðherrar hafa mætt og tekið þátt í henni.
    Vitanlega er það staðreynd að margar þáltill. hafa lagst niður í skúffu. Mér er kunnugt um að á það hefur verið lögð afar rík áhersla á hinu háa Alþingi að það gerist ekki. Iðulega hafa komið fram harðorðar áminningar til ríkisstjórna að draga þær upp úr skúffunum og afgreiða þær og gera Alþingi grein fyrir þeim.
    Staðreyndin er jafnframt sú að þáltill. eru afar misjafnar. Þar getur verið allt á milli himins og jarðar sem á milli ber. Sumar eru einfaldlega ábendingar, beiðnir um athuganir o.s.frv. En þessi þáltill. er mjög ákveðin og fer þar ekkert á milli mála. ,,Alþingi ályktar að fela ríkisstjórninni að sjá til þess að á árinu 1991`` o.s.frv. Ég held að við alþingismenn hljótum að vera sammála um að þetta er ekki virt. Alþingi er vanvirt með því að hlýða ekki þessum fyrirmælum Alþingis. Þetta eru fyrirmæli Alþingis. Tillagan er nefnilega mjög óvenjulega ákveðin að orðalagi. Ég tel að hæstv. ráðherrar skuldi Alþingi skýringu á því hvers vegna slík fyrirmæli sem hér koma fram eru ekki virt.
    Ljóst er af frv. til fjárlaga að ekki er ætlunin að gera það. Reyndar hefur það komið fram í orðum ráðherra. Það er slík vanvirðing við þingið að ég legg á það mikla áherslu að hæstv. fjmrh. ekki síst og forsrh. geri Alþingi grein fyrir því hvers vegna það er ekki gert.
    Ég ætla svo ekki að hafa rökstuðning fyrir málinu. Hann hefur komið fram hér svo ítarlegur að það er óþarfi að endurtaka það. Það kom fram í orðum hv. frsm. sérstaklega. Ég ætla aðeins undirstrika það sem hann sagði að það virðast vera langtum fleiri kostir í kaupum á góðri þyrlu en menn töldu á síðasta þingi. Það hafa komið mjög góð tilboð og má dreifa greiðslu yfir langan tíma.
    Að sjálfsögðu dettur mér ekki í hug að nokkur, hvorki hæstv. ráðherra né þingmaður, vilji taka áhættu á því að mannslífum verði fórnað. Það liggur einhver óskhyggja á bak við þegar svona máli er frestað. Einhver óskhyggja að það verði engin slys. En slysin verða því miður og þá er illt í efni.
    Ég ákvað þess vegna að flytja þetta frv. nú með hv. þm. Inga Birni Albertssyni. Það er út af fyrir sig alveg rétt hjá honum að það er víða hægt að spara en ég tek undir með síðasta hv. ræðumanni að í raun er mannslífið þannig að það má ekki meta til einhvers verðs í krónum.