Kaup á björgunarþyrlu

45. fundur
Þriðjudaginn 03. nóvember 1992, kl. 15:31:51 (1786)

     Kristinn H. Gunnarsson :
    Virðulegi forseti. Það er gleðilegt að forseti upplýsi okkur um að það sé hátalarakerfi í húsum svo ráðherrar megi heyra. Hitt fannst mér á skorta að forseti gæti veitt okkur fullvissu fyrir því að ráðherrar legðu við hlustir. Eins og mönnum á að vera kunnugt er óþarfi að tíunda aðalatriði málsins sem er hvort ráðherrar leggi eyrun við málflutning þingmanna og skiptir meira máli en hitt hvort þeir sjáist á göngum eða eru staddir í öðrum vistarverum hússins en þingsal.
    Um þetta mál er í sjálfu sér ekki ástæða til að hafa mörg orð. Því hefur verið lýst yfir að við þessi kaup verði staðið og ályktun Alþingis framkvæmd. Það er ekki hægt að álykta annað en að valinkunnir heiðursmenn sem eru þekktir af því að standa við orð sín, a.m.k. að eigin sögn, eins og hæstv. forsrh., muni fyrr en síðar láta hendur standa fram úr ermum og efna sín fyrirheit og loforð sem skjalfest eru. Því eins og menn muna þegar sá ágæti maður, hæstv. forsrh., kom fram á sjónarsviðið snemma á sl. ári taldi hann eitt hið þarfasta verk sitt í íslenskri pólitík að breyta áherslum og ýta frá mönnum sem rekið hefðu pólitík sem að hans mati væri að nokkru leyti siðspillt. Hér var um að ræða siðvæðingarpólitík. Nú átti að taka upp nýja siði og efna fyrirheit í stað þess að svíkja það sem menn hefðu lofað. Það var kjarni í boðskap hæstv. núverandi forsrh. þegar hann var frambjóðandi fyrir Sjálfstfl. í Reykjavík að taka upp nýja og betri siði í stjórnmálum landsins. Slíkur maður getur ekki verið þekktur að því að svíkja gefin orð eða fyrirheit, hvað þá hann geti verið þekktur af því að standa ekki við það sem hans flokkur hefur samþykkt. Hvað skyldi hans flokkur hafa samþykkt fáum dögum fyrir síðustu kosningar, til að gefa kjósendum landsins skýr fyrirheit um hver stefna Sjálfstfl. væri í þessum málum? Auðvitað dettur ekki nokkrum manni í hug að formaður Sjálfstfl. muni ekki efna það sem skjalfest er sem samþykkt flokksins, sérstaklega þegar aðstaðan til þess að koma samþykktinni í framkvæmd er öll fyrir hendi. Formaður flokksins er forsrh. ( ÓÞÞ: Þetta er samsteypustjórn.) Varaformaður er fjmrh. Og fyrrv. formaður er dómsmrh. Það eru því öll tök á málinu sem þarf til að koma því í framkvæmd.
    Hér er bent á að um samsteypustjórn sé að ræða og ég velti því fyrir mér hvort það geti verið ástæðan fyrir töfum á efndum að það eru heybrækur í stjórnarliðinu. Eru það heybrækur úr Alþfl.? ( ÓÞÞ:

Þetta er allt krötunum að kenna.) Ég hygg, virðulegi forseti, að það sé orðin knýjandi nauðsyn á því að fá þessa ráðherra sem sjást í húsinu til að koma í þingsalinn til að veita okkur upplýsingar um hvort það er formaður Alþfl., utanrrh., sem er heybrók í þessu máli og hefur ekki dug í sér til að efna fyrirheitin. Það er nauðsynlegt fyrir okkur að vita hvar veikleikinn liggur svo við getum tekið á því. Einangrað þá meinsemd og veitt þá úrbót sem þarf til þess að Sjálfstfl. geti knúið sitt fram.
    Hver skyldi samþykktin vera sem ég vitnaði til og flokkurinn gerði á landsfundi sínum fáum dögum fyrir kosningar, 10. mars? Fyrri hlutinn í þeirri setningu sem ég ætla að lesa ber vitni um annað en ég hygg að ætla mætti, en setningin er svona, með leyfi forseta:
    ,,Sjálfstæðisflokkurinn telur að landhelgisgæsla og öryggismál sjómanna hafi setið um of á hakanum hjá núverandi ríkisstjórn og að áformum um kaup á nýrri og stærri björgunarþyrlu með afísingarbúnaði beri að hrinda undanbragðalaust í framkvæmd.``
    Hér er engin hálfvelgja á ferðinni eins og vænta má þegar hæstv. forsrh. er annars vegar. Þá er tekið ákveðið á málum og kveðið skýrt að. Það á að hrinda þessum áformum undanbragðalaust í framkvæmd og það er nauðsynlegt að stjórnarliðar þeir sem hafa dug í sér til að sitja í þingsölum svari því hver það er sem tefur framgang málsins. Hvar eru heybrækurnar í þessu máli, virðulegi forseti?