Kaup á björgunarþyrlu

45. fundur
Þriðjudaginn 03. nóvember 1992, kl. 15:42:46 (1790)


     Guðmundur Hallvarðsson :
    Virðulegi forseti. Í þeim fjárhagslegu þrengingum sem þjóðin stendur frammi fyrir er eðlilegt að erfitt ástand verði til þess að ríkisstjórn hverra þeirra tíma leiti leiða til forsjálni í ríkisfjármálum. Hins vegar er það svo að ekki hefur staðið í íslenskum stjórnvöldum hingað til að treysta öryggi landsmanna. Á ég ekki von á öðru en hæstv. ríkisstjórn líti til þeirra átta sem raddir hafa heyrst frá, þ.e. nánast flestum landsmanna. Fjölmörg félagasamtök hafa sent frá sér ályktanir varðandi þetta mál, jafnt þeir sem standa næst sjávarsíðunni og líka þeir sem eru til sveita.
    Hins vegar er athyglisvert þegar skoðuð eru útköll þessa ágæta sjúkravagns, ef svo mætti kalla, sem þyrlan er að 1990 voru 40 sjúkraútköll en 33 björgunar- og leitarflug. Árið 1991 eru 54 sjúkraflug, þar af 22 björgunar- og leitarflug. Fyrstu níu mánuði þessa árs hafa verið 47 sjúkraflug --- og kemur þá kannski að því sem ég vildi sagt hafa --- af þessum 47 sjúkraflugum eru 11 vegna þeirra sem eru á sjó en 36 vegna leitar og aðstoðar við fólk í landi.
    Það segir kannski allt um það þegar menn eru að tala um, og einkum hefur það komið í umræðum margra manna, að þyrla væri fyrst og fremst vegna sjómanna. Eins og ég lýsti þessu hlutfalli áðan skulu menn hafa það í huga að það er ekki síður fyrir landsmenn alla en sjómenn sem þetta nauðsynlega björgunartæki verði keypt.
    Líf hvers Íslendings er verðmætt þótt ekki verði til fjár metið. Flugmenn Landhelgisgæslunnar hafa unnið kraftaverk og unnið ótrúlegt starf. Þessi þyrla sem þeir hafa unnið þarft og gott verk með er komin nokkuð til ára sinna og segja mér menn sem gott vit hafa á að svo hafi tækninni fleygt fram að sambærilegar flugvélar sem Danir og Norðmenn nota eru ekki notaðar til flugs þá er skyggja tekur til þess er birta tekur að nýju. Það er ljóst að þyrlan sem við höfum nú er að verða þess eðlis að ekki verður hægt að nota hana nema í björtu.
    Upptalning mín áðan er fyrir utan þær flugæfingar sem þeir hafa ástundað vegna æfinga með læknum, björgunarsveitum, Slysavarnaskóla sjómanna og öðrum þá vélin hefur verið til kölluð.
    Virðulegi forseti. Í lok máls míns vildi ég segja þetta: Það sem hefur komið mest við mig sem fyrrverandi sjómann er sú einurð og vilji landsmanna að safna fyrir þessu ágæta björgunartæki. Það á jafnt við til sjávar og sveita. Það hlýtur að slá hvern mann sem verður þess var þá skip hefur farist samfara dauðsföllum að ættingjar auglýsa í útvarpi að þeir sem vildu minnast hinna látnu er bent á að láta af hendi rakna eitthvað í þyrlusjóð, blóm og kransar eru afbeðin. Það segir hug manna í þessu máli og skýrir kannski best hve mikill hugur fylgir máli og nauðsyn er á þessu björgunartæki.
    Þó verður ekki farið frá þessu máli öðruvísi en víkja aðeins að fyrrv. ríkisstjórn. Hér hafa komið fram nokkrir ágætir félagar hennar og talað um hve seint gengi í þessu máli hjá núv. ríkisstjórn. Á síðustu dögum fyrrv. ríkisstjórnar vaknaði hún til lífsins en ekki fyrr en á allra síðustu lífdögum sinnar pólitísku veru í ráðuneytum hvar hún hafði þó tögl og hagldir til þess að koma þessu máli áfram. Hins vegar léttir það ekkert á ástandi eins og því sem hefur skapast hér en það segir manni samt að það er hálfgerð sorgarsaga í kringum þetta mál og að ekki eingöngu sjómenn hafi orðið bitbein í pólitískum deilum varðandi þetta mál heldur svo margir sem raun ber vitni. Ég vona að við berum gæfu til að leysa þetta mál svo fljótt sem verða má.