Greiðslufrestur á fasteignalánum vegna fjárhagserfiðleika

45. fundur
Þriðjudaginn 03. nóvember 1992, kl. 16:37:58 (1806)

     Flm. (Kristinn H. Gunnarsson) :
    Virðulegi forseti. Ég vil leyfa mér að mæla fyrir frv. sem ég flyt ásamt hv. þm. Svavari Gestssyni á þskj. 175 um greiðslufrest á fasteignalánum vegna fjárhagserfiðleika.
    Frv. lýtur að breytingu á tvennum lögum, annars vegar lögum um Húsnæðisstofnun ríkisins og hins vegar lögum um greiðslujöfnun fasteignaveðlána til einstaklinga, nr. 63/1985, með síðari breytingum.
    Ástæða fyrir því að þetta frv. er flutt er hið mikla atvinnuleysi sem hefur orðið á síðustu mánuðum og missirum sem breytir þeim forsendum sem menn höfðu til grundvallar þegar lögin um Húsnæðisstofnun ríkisins voru sett árið 1988 og þeim breytingum sem menn hafa á þeim gert frá þeim tíma.
    Þannig hefur t.d. atvinnuleysi á höfuðborgarsvæðinu tífaldast frá árinu 1988 og nær þrefaldast á landsbyggðinni á sama tíma.
    Atvinnuleysi er nú um 2,7% og í fjárlagafrv., sem lagt hefur verið fram, er því spáð að atvinnuleysi verði að meðaltali um 3% á þessu ári og muni aukast á næsta ári upp í 3,5% sem þýðir að að meðaltali verði um 4.000 manns atvinnulausir á næsta ári. Enn fremur kemur fram að búast megi við því á fyrstu mánuðum næsta árs að þá verði atvinnuleysi mun meira, eða hátt í 5.000 manns.
    Sem dæmi um tölur má nefna að 24. okt. sl., fyrir fáeinum dögum, voru 1.715 manns á atvinnuleysisskrá í Reykjavík, 260--270 manns í Kópavogi, 214 í Keflavík, 190 á Akureyri, svo hæstu tölur séu nefndar.
    Auðvitað er það ljóst að fjárhagur þeirra sem verða atvinnulausir breytist til hins verra, tekjur heimilisins minnka og möguleikar fólks til að standa undir fjárhagslegum skuldbindingum sínum dvína mjög á meðan þetta ástand varir. Okkur flm. þótti því nauðsynlegt að huga að lagabreytingum sem gæfi Húsnæðisstofnun ríkisins heimild til þess að fresta afborgunum af lánum sem hafa verið tekin hjá byggingarsjóðum ríkisins og verkamanna og húsbréfadeildar byggingarsjóðsins á meðan fjárhagsástæður eru með þeim hætti sem ég var að greina. Reyndar ákváðum við að hafa heimildina ekki aðeins bundna við atvinnuleysi, heldur einnig að ef langvarandi veikindi eða aðrar sambærilegar ástæður valda verulegum fjárhagsörðugleikum hjá lánþega eða fjölskyldu hans. Það er tilgangur frv. að bregðast við þeirri stöðu sem atvinnuleysið hefur í för með sér og að sumu leyti af eðlilegum ástæðum, menn hafa e.t.v. ekki hugsað fyrir í löggjöf á þeim tíma, fyrir 3--4 árum að menn kynnu að þurfa að standa frammi fyrir atvinnuleysi af þessari stærðargráðu.
    Frv. er í fjórum greinum. Fyrstu tvær greinarnar lúta að breytingu á lögum um Húsnæðisstofnun ríkisins, nr. 86/1988, með síðari breytingum og er lagt til að á eftir 127. gr. þeirra laga komi tvær nýjar greinar. Þær orðist svo, með leyfi forseta:
    ,,a. (128. gr.)
    Húsnæðismálastjórn er heimilt að veita lántakendum frest á greiðslu afborgana, vaxta og verðbóta, að hluta eða að öllu leyti, af lánum veittum til íbúðaöflunar úr Byggingarsjóði ríkisins og Byggingarsjóði verkamanna og fasteignaveðbréfum sem húsbréfadeild Byggingarsjóðs ríkisins hefur tekið við í skiptum fyrir húsbréf.
    Frest skv. 1. mgr. er heimilt að veita ef atvinnuleysi, langvarandi veikindi eða aðrar sambærilegar ástæður valda verulegum fjárhagsörðugleikum hjá lánþega eða fjölskyldu hans.
    Lánþegi, sem sækir um frest samkvæmt þessari grein, skal leggja fyrir húsnæðismálastjórn ítarlegar upplýsingar um tekjur, eignir, skuldir og önnur atriði er stjórnin telur máli skipta.
    Frestur á greiðslum afborgana, vaxta og verðbóta, sem veittur er, getur gilt um öll lán lánþega. Veittur frestur skal hafa afmarkaðan gildistíma, þó aldrei lengri en eitt ár í senn.
    Fjárhæðir afborgana, vaxta og verðbóta af lánum, sem greiðslum er frestað á samkvæmt þessari grein, skulu færðar á sérstakan jöfnunarreikning hvers láns og teljast til höfuðstóls lánsins og koma fjárhæðirnar til greiðslu eftir þeim ákvæðum sem eru í 5. gr. laga um greiðslujöfnun fasteignaveðlána til einstaklinga, nr. 63/1985.
    b. (129. gr.)
    Þrátt fyrir ákvæði 128. gr. skal fé til endurgreiðslu húsbréfa eftir hlutkesti, sbr. 25. gr. laga þessara, ekki skerðast og húsnæðismálastjórn gætir þess í fjárstreymi húsbréfadeildar.``
    Í 2. gr. frv. er lagt til að setja ákvæði til bráðabirgða sem heimili húsnæðismálastjórn að veita greiðslufrest til einstaklinga sem eru í vanskilum sem safnast hafa upp fyrir gildistöku frv. ef að lögum verður, ef ástæður eiga við að öðru leyti, eins og tilgreint var á undan.
    Í II. kafla frv. er lögð til breyting á lögum um greiðslujöfnun fasteignaveðlána til einstaklinga til þess að árétta að sá jöfnunarreikningur, sem frestunarfjárhæð á að færast á, sé sá sami og tilgreindur er í lögunum um greiðslujöfnun fasteignaveðlána þannig að ekki sé ástæða til að hafa tvo jöfnunarreikninga í gangi, annan vegna laga um greiðslujöfnun fasteignaveðlána og hinn vegna áhrifa af þessu frv., heldur er lagt til í 3. gr. frv. að hér verði um sama jöfnunarreikninginn að ræða og með greiðslum út af þeim jöfnunarreikningi fari eftir sömu ákvæðum og gilda um í lögum um greiðslujöfnun fasteignaveðlána.
    Í III. kafla frv. er gildistökuákvæði, en lagt er til að lög þessi öðlist þegar gildi.
    Það er að mínu viti ekki mögulegt að leggja til í lagafrv. skuldbindingar á herðar annarra lánastofnana en þeirra sem ríkið á eða hefur yfirráð yfir eins og Húsnæðisstofnun ríkisins, en gert er ráð fyrir því að verði þetta frv. að lögum þá mundu stjórnvöld beina þeim tilmælum til lífeyrissjóða, banka og annarra lánasjóða að taka með svipuðum hætti tillit til þessara aðstæðna fólks og þannig verði leitast við að tryggja að atvinnulausir geti búið við sæmilegt öryggi hvað varðar íbúðarhúsnæði.
    Í núgildandi lögum um Húsnæðisstofnun ríkisins eru afar fátækleg ákvæði sem heimila frestun á greiðslu afborgana lána. Í 82. gr. er heimild til að fresta greiðslum á lánum í Byggingarsjóði verkamanna ef greiðslubyrði afborgana, vaxta og verðbóta fer yfir tiltekið hlutfall af heildartekjum greiðenda. En þessi heimild gefur aðeins rétt til að draga greiðslu og á meðan sá frestur er fyrir hendi eru reiknaðir dráttarvextir á skuldina þar til greiðsla berst.
    Önnur heimild er varðandi svokölluð sérþarfalán sem gildir fyrir 70 ára eða eldri og fatlaða og veitir heimild til að fresta afborgunum um óákveðinn tíma ef fjárhag lánþega er þannig varið að sýnt þykir að hann fái ekki staðið undir afborgunum. En þetta á aðeins við um þau lán sem veitt voru skv. 5. tölul. 11. gr., svonefnd sérþarfalán. Frekari heimildir eru ekki fyrir hendi í núgildandi lögum og t.d. eru engar heimildir til þess að heimila frest á greiðslum af fasteignaveðlánum vegna húsnæðiskaupa sem menn hafa fengið í húsbréfadeild. Þar ber stofnuninni að innheimta greiðslur án tillits til aðstæðna greiðenda. Með þessu frv. yrði opnuð heimild til þess að veita frest á afborgunum af þessum lánum einnig. Gert er ráð fyrir því, eins og fram hefur komið, að fyrirkomulagið verði þannig að umsækjendur eða fólk, sem telur sig eiga rétt á frestun á greiðslum, sæki um þann frest til húsnæðismálastjórnar sem tekur afstöðu til hverrar umsóknar í ljósi aðstæðna hvers og eins. Með umsókninni verða að fylgja mjög ítarlegar upplýsingar um fjárhagslega stöðu, tekjur, eignir, skuldir og annað sem máli skiptir þannig að tryggt verði að ekki sé verið að veita heimildir til frestunar að ástæðulausu.
    Þetta er almenn lýsing á tilgangi frv. og að öðru leyti tel ég ekki þörf á að rekja efnisatriði þess frekar. Þau eru þegar fram komin í meginatriðum en ég vísa til athugasemda við einstakar greinar frv. sem fylgir með frv.
    Mönnum til glöggvunar má geta þess að úr húsbréfadeild var fyrir skömmu búið að afgreiða tæplega 9.300 lán og úr Byggingarsjóði ríkisins var búið að veita um 110.000 lán og Byggingarsjóði verkamanna um 7.250 lán, þannig að það eru býsna mörg lán sem hafa verið veitt í gegnum tíðina og frv. mundi

ná til. En á hinn bóginn eru vanskil miðað við 30. apríl sl. mjög lítil þannig að ég tel í sjálfu sér ekki ástæðu til að ætla að hlutfall þeirra sem mundu sækja um frestun verði hærra en nemur atvinnuleysishlutfalli í þjóðfélaginu. Ég tel að frv. sé þannig úr garði gert að hér verði ekki um stórkostlegar fjárhæðir að ræða þó auðvitað sé það háð atvinnuleysi en þær verði í réttu hlutfalli við það á hverjum tíma.
    Ég legg til, virðulegi forseti, að lokinni þessari umræðu verði frv. verði vísað til 2. umr. og hv. félmn.