Aukatekjur ríkissjóðs og gjaldtaka ríkisstofnana

45. fundur
Þriðjudaginn 03. nóvember 1992, kl. 16:54:22 (1808)

     Flm. (Jóhann Ársælsson) :
    Virðulegur forseti. Ég flyt hér till. til þál. um aukatekjur ríkissjóðs og gjaldtöku ríkisstofnana. Tillagan er svohljóðandi:
    ,,Alþingi ályktar að fela ríkisstjórninni að láta fara fram endurskoðun á aukatekjum ríkissjóðs og gjaldtöku ríkisstofnana.
    Markmið endurskoðunarinnar verði að gera skýran greinarmun á skattheimtu og gjaldtöku fyrir veitta þjónustu sem hið opinbera ákveður að innheimta. Skal við það miðað að þjónustugjöld, sem eru innheimt vegna tiltekinnar þjónustu, skuli vera metin sem hlutdeild í þeim kostnaði sem af þjónustunni hlýst eða hluti þess kostnaðar, en aldrei hærri.
    Ákveði hið opinbera að skattleggja tiltekna þjónustu skal koma skýrt fram við innheimtu hve hár skatturinn er, við hvaða stjórnvaldsákvarðanir er stuðst og hvernig útreikningi er háttað.``
    Tillögunni fylgir eftirfarandi greinargerð:
    ,,Tillaga þessi var flutt á 115. löggjafarþingi en hlaut ekki afgreiðslu úr nefnd og er því endurflutt.
    Margvísleg gjaldtaka er viðhöfð í stofnunum ríkisins, t.d. fyrir vottorð, leyfi, skírteini, þinglýsingar og stimpilgjöld, svo og þjónustugjöld stofnana af ýmsu tagi. Mjög mikilvægt er að opinberir aðilar innheimti aldrei óeðlilega há gjöld fyrir veitta þjónustu. Gjöld, sem innheimt eru vegna tiltekinnar þjónustu, skulu þess vegna vera metin sem hlutdeild í henni eða hluti þess kostnaðar, en aldrei hærri.
    Ýmis gjöld, sem hér er vísað til, eru það há að þau geta ekki verið eðlilegt endurgjald fyrir þjónustu og verður því að líta svo á að um skattlagningu sé að ræða. Full ástæða er til að meta að nýju hvort eðlilegt sé að ríkið noti sér ýmis þessara gjalda til sérstakrar tekjuöflunar. Það að taka háar fjárhæðir í ríkissjóð í stimpilgjöld eða fyrir skírteini, leyfi eða þjónustu án tillits til efnahags eða ástæðna þeirra er í hlut eiga er brot á þeim réttlætisviðhorfum sem ríkja skulu við ákvörðun skattstofns.
    Það kemur mörgum undarlega fyrir sjónir að hið opinbera skuli á tíðum innheimta gjöld af ýmsu tagi sem augljóslega eru óeðlilega há miðað við þá þjónustu sem veitt er. Þegar aftur á móti kemur að samningum um kaup og kjör eða önnur viðskipti milli almennra borgara landsins þykir sú regla sjálfsögð að full þjónusta sé veitt fyrir endurgjaldið og full rök séu færð fyrir þeim kröfum sem gerðar eru. Þá er einnig í ljósi þeirrar stefnu núverandi stjórnvalda að innheimta þjónustugjöld af ýmsu tagi í miklu meira mæli en áður ástæða til að gera aðgengilegar upplýsingar um hve stóran hlut menn greiða í þeirri þjónustu sem veitt er af hinu opinbera í hverju einstöku tilviki.
    Almenn viðhorf til viðskipta milli aðila og nauðsyn á rökstuddri réttlætingu á gerðum hins opinbera kallar á aðgerðir í þessu efni.``

    Eins og mönnum er kunnugt eru í núv. ríkisstjórn miklir áhugamenn um þjónustugjöld og þess vegna er ekki síst ástæða til að huga að þessum málum. Nú held ég því ekki fram að ekki sé hægt að rökstyðja að kostnaður sé á bak við þau þjónustugjöld sem ríkisstjórnin hefur verið að ákveða í flestum tilvikum þó að maður geti út af fyrir sig verið ósammála um að það eigi að innheimta þau. Ég vil þó benda á að í frv. til laga um aukatekjur ríkissjóðs frá því í fyrrahaust kemur eftirfarandi fram í greinargerð, með leyfi forseta:
    ,,Varðandi hækkanir á ýmsum öðrum gjöldum, þ.e. hinum eiginlegu aukatekjum, má almennt segja að þjónustustofnunum sé ætlað að verðleggja og selja þjónustu sína í auknum mæli í samræmi við tilkostnað.`` Verð ég að segja að þarna muni maður eiga að vera sammála ríkisstjórninni. Ef gjöld eru innheimt eiga þau að vera í samræmi við tilkostnað, alla vega ekki hærri en það sem til er lagt.
    Mig langar að benda á örfá dæmi um gjöld sem ég tel mjög vafasamt að endurspegli þann kostnað sem ríkið hefur af viðkomandi þjónustu. T.d. er í lögunum um aukatekjur ríkissjóðs sem voru samþykkt á síðasta vetri gert ráð fyrir eftirfarandi gjöldum:
    Leyfi til málflutnings fyrir Hæstarétti kostar 75 þús. kr. Leyfi til málflutnings fyrir héraðsdómi kostar 50 þús. kr. Hver munurinn er á þjónustu ríkisins í þessum tveimur tilfellum veit ég ekki. T.d. er talað um löggilding manns um ævitíð, þ.e. dómtúlkar, skjalaþýðendur og endurskoðendur, sem kostar 25 þús. kr. en löggilding manns um óákveðinn tíma kostar 5 þús. kr. Ég veit ekki hver munurinn er á þjónustu ríkisins í þessum tveimur tilfellum.
    Svona mætti lengi telja og í sjálfu sér snýst þessi þáltill. um afmarkað málefni. Ég er hér að ræða um önnur atriði líka sem snúa að ríkinu og hef haft það í huga að ástæða væri til þess líka að leggja fram frv. um breytingu á lögunum um stimpilgjöld t.d. sem eru eitt af því hróplegasta sem maður sér í innheimtu ríkisins. Þar eru innheimtar stórar upphæðir af fólki fyrir það eitt að það skuli þurfa að fá stimpil á viðkomandi fógetaskrifstofu á lánum sínum. Annað er ekki af hendi reitt á fógetaskrifstofunum vegna þessarar þjónustu. Ég dreg það inn í umræðuna vegna þess að ég tel að það eigi að stuðla að því að ríkið sé til fyrirmyndar í viðskiptum. Ríkið sé ævinlega til fyrirmyndar í viðskiptum þegar um er að ræða innheimtu á gjöldum eða selda þjónustu.
    Það eru áreiðanlega fáir í þessu þjóðfélagi sem hafa ekki einhvern tíma hrokkið við vegna innheimtu ríkisins, vegna þess að ríkið hefur í mörgum tilfellum ákveðið að taka ríflega til sín í einhverjum sérstökum tilfellum. Við skulum segja þegar einhver þarf á því að halda að fá einhvers konar leyfi eða láta þinglýsa skjölum. Alls konar gjaldskrár sem ákveðnar eru af stofnunum ríkisins eru ekki í samræmi við þann tilkostnað sem á bak við stendur. Ég vil t.d minna á umræðu sem varð í fyrra þegar Löggildingarstofan hækkaði verulega sína þjónustu þannig að dæmi voru kostnaður fyrir þjónusta hækkaði milli ára á einu viðkomandi fyrirtæki um 257%.
    Síðasta vetur þegar ég lagði fram þetta mál nefndi ég dæmi um hvað það kostar t.d. að láta fylla út fyrir sig á fógetaskrifstofu einfalda tollskýrslu sem tekur 2--3 mínútur að útfylla. Það kostar samkvæmt gjaldskrá 1.020 kr. og eyðublaðið 50. Þetta viðvik að útfylla litla tollskýrslu vegna smápakkasendingar frá útlöndum kostar 1.070 kr. Hér er ekki um að ræða stórt atriði en það sýnir að ýmislegt mætti hugsa betur í þessari innheimtu.
    Ég vil minna á umræðu sem varð hér um Bifreiðaskoðun Íslands og hennar gjaldskrá. Þar var sérstaklega til umræðu hvað númeraspjöld á bifreiðar kosta. Þau eru framleidd fyrir nokkur hundruð kr. hvert stykki en seld á eitthvað milli 4 og 5 þús. kr. Þar er hreint út sagt á ferðinni okur á viðkomandi viðskiptavinum.
    Það mætti eins og ég sagði áðan mjög lengi telja. Þetta mál snýst fyrst og fremst um viðskiptasiðferði og um það að ríkið taki til endurskoðunar gamlar ákvarðanir sem byggðust á allt öðrum forsendum en eru í dag. Svo ég snúi aftur að lögunum um stimpilgjöld t.d. voru þau sett áður en verðbólgan fór niður, áður en menn fóru að verðtryggja fjárskuldbindingar. Þau voru sett á meðan menn trúðu því að það væri sérstakt lán að fá lán í bönkum og að menn ættu að gjalda fyrir það skatt. Í dag er það ekki lengur þannig að menn borgi ekki til baka sínar skuldir ef þeir hafa efni á því og þess vegna er það auðvitað fáránlegt að skattleggja þá einstaklinga sem af einhverjum ástæðum þurfa á fjármunum að halda að láni.
    Því er ekki að neita að ég tel mjög ríka ástæða til að skoða þessi mál núna vegna þess að núv. ríkisstjórn ætlar sér að auka innheimtu þjónustugjalda sem svo eru kölluð. Þá held ég að mjög mikilvægt sé að það verði gert með eðlilegum hætti og menn fái reikning eins og þeir ætlast til að fá hjá öðrum aðilum í þjóðfélaginu og það sé sundurliðað hver þessi þjónusta er og hve stóran hluta viðkomandi einstaklingur er að borga. Þetta finnst mér að þurfi allt saman að vera á hreinu og ég endurtek að lokum að ríkið á að vera til fyrirmyndar í viðskiptum og það á ævinlega að sýna skýrt og greinilega hvað stendur á bak við þá innheimtu sem um er að ræða.