Tengsl ferðaþjónustu við íslenska sögu

45. fundur
Þriðjudaginn 03. nóvember 1992, kl. 17:22:04 (1813)

     Ólafur Þ. Þórðarson :
    Herra forseti. Hér er verið að hreyfa við góðu máli. Með samþykkt þessarar þáltill. værum við Íslendingar vissulega að feta í fótspor þjóða sem hafa hagnýtt sér sögu sína til þess að ná fleiri ferðamönnum inn á sitt markaðssvæði og ég er sannfærður um að það er rétt hjá hv. 1. flm. að þetta er atvinnuskapandi tillaga. Ég tel að reynsla Breta í Yorkshire í Bretlandi þar sem þeir hafa sett á svið lifnaðarhætti norrænna manna, þ.e. víkinga, sé ólygið dæmi um það hvílíkt aðdráttarafl svona starfsemi getur haft ef rétt er að málum staðið.
    Ég hallast að því að það sé einnig eðlilegt að leikarar komi að þessu verki því að sums staðar háttar svo til að fyrst og fremst má gera ráð fyrir því að það verði leikarar sem skipuleggi sögusýningar, t.d. á Þingvöllum sem er nú ein af þeim perlum sem við eigum og sú sem mest aðdráttaraflið hefur.
    Ég get vissulega tekið undir það að Skálholt og Hólar eiga sína merku sögu en ég ætla að varpa því fram hér sem ég hef áður sagt að ekkert mundi vekja meiri athygli varðandi trúarbrögð heldur en það ef Íslendingar byggðu nú upp eitt hof að fornum sið. Ég held að það sé ástæðulaust að líta svo á að menn séu að ganga af kristinni trú þó að það yrði gert. Það yrði hluti af okkar menningararfi sem verið væri að kynna með þeim hætti og að mínu viti tengist það á margan hátt þeim atburði íslenskum sem ég er sannfærður um að á eftir að verða meira og meira í umræðunni og það er þegar Eiríkur rauði safnaði liði og hélt til Grænlands. Það er nefnilega svo að heiðið hof --- þar sem menn gætu áttað sig á einhvern hátt á því hvað það var sem menn vildu verja og halda í og hvað það var m.a. sem e.t.v. hefur ýtt á þann höfðingja Vesturlands að halda til Grænlands, hann trúði því m.a. að þar yrði frekar friður til að halda trú sinni.
    En hugmyndin sem hér er hreyft er sett fram í því skyni að öðrum en þingmönnum verði falið að útfæra hana þannig að ég ætla ekki að hætta mér of langt út á þann hála ís. En ég vil þakka flutningsmönnum fyrir að varpa þessari hugmynd hér inn í þingið og vona að þetta mál hljóti jákvæða afgreiðslu á Alþingi í vetur.