Flutningur á starfsemi Landhelgisgæslunnar

45. fundur
Þriðjudaginn 03. nóvember 1992, kl. 17:44:13 (1818)

     Jón Kristjánsson :
    Herra forseti. Ég ætla ekki að mæla gegn því að þessi tillaga sem hv. 5. þm. Reykn. flytur sé samþykkt á Alþingi. Ég tel eðlilegt að athugun fari fram á staðsetningu Landhelgisgæslunnar. En ástæðan fyrir því að ég blanda mér í umræðuna er sú að það veitti ekki af því að um leið færi fram athugun á því hvert málefni Landhelgisgæslunnar stefna. Það er satt að segja alveg ótrúlegt stefnuleysi í málefnum þessarar stofnunar. Við sem sitjum í fjárln. Alþingis höfum orðið rækilega varir við það að við fjárlagagerð árið 1992 er stórfelldur niðurskurður fyrirhugaður á fjárframlögum til Landhelgisgæslunnar og sá niðurskurður heldur áfram 1993. Nú er ætlunin að taka eitt skip úr rekstri og fylgir því athugasemd þess efnis í fjárlagafrv.
    Það vill svo til að fulltrúar Landhelgisgæslunnar komu á fund fjárln. í morgun og fengu þá spurningu hvernig þeir mundu mæta þessu. Það er ljóst að ef þetta skip verður tekið úr rekstri, þá verður langtímum saman aðeins eitt gæsluskip á sjó og stundum ekkert. Spurningin er: Hvernig á að mæta þessu? Hvernig ætla þeir sem stjórna þessum málum --- hæstv. dómsrh. í þessu tilfelli sem er reyndar ekki staddur í landinu en einhver hlýtur að vera staðgengill hans en hæstv. ráðherrar hafa ekki séð ástæðu til að mæta við umræður um Landhelgisgæsluna og hennar mál í dag --- að mæta þessu?
    Ef slík athugun sem tillagan gerði ráð fyrir gæti hreyft við málefnum Landhelgisgæslunnar er ekki nema gott um það að segja. Það er svo sannarlega þörf á því að ýta við hæstv. ríkisstjórn í þessum efnum. Þó að málefni Landhelgisgæslunnar heyri undir hæstv. dómsmrh. hlýtur stefnumótun að koma til kasta ríkisstjórnarinnar sem heildar.
    Fulltrúar gæslunnar fóru þess á leit að það yrði reynt að hliðra þannig til málum að hægt væri að gera út þrjú skip. Þeir lýstu sig tilbúna til þess að reyna að skera niður í öðrum þáttum til þess að það væri hægt vegna þess að þetta er mikið öryggisatriði og gæti m.a. komið niður á gæslufluginu.
    Ég vildi koma þessu að í umræðunni. Ég styð það að sú athugun fari fram sem hv. flm. gerir ráð fyrir. Mér þykir undarlegt að um leið og talað er um að samþykkja samning um Evrópskt efnahagssvæði um áramótin og samþykkja þar með um leið, ef hann verður einhvern tíma tilbúinn, tvíhliða samning um sjávarútvegsmál sem gerir ráð fyrir því að erlend skip fari að veiða í íslenskri landhelgi, þá sé farið svona með málefni Landhelgisgæslunnar. Er þýðing hennar að minnka? Ég reikna ekki með að fá svar við því við þessa umræðu frá hæstv. ráðherrum. Er henni ekki ætlað neitt hlutverk í framkvæmd tvíhliða samnings um sjávarútvegsmál varðandi Evrópskt efnahagssvæði? Ég tala ekki um það sem ætti að vera okkur hvað efst í huga, öryggishlutverkið.
    Ef slík athugun á staðsetningu gæslunnar sem hér um ræðir gæti orðið til þess að það yrði stefnumótun í málefnum hennar og hún efld, þá er þetta af hinu góða og ég styð að þessi athugun fari fram.