Flutningur á starfsemi Landhelgisgæslunnar

45. fundur
Þriðjudaginn 03. nóvember 1992, kl. 18:20:04 (1826)

     Jóhannes Geir Sigurgeirsson (andsvar) :
    Virðulegi forseti. Það kom í ljós hvers vegna þingmaðurinn var svona bjartsýnn. Það var vegna þess að Framsfl. tekur þátt í þessu starfi eins og hann sagði sjálfur áðan. Ég er alveg óhræddur að ræða við hv. þm. um störf Framsfl. síðustu 20 ár. Ég get nefnt að á þeim tíma hefur á landsbyggðinni verið byggð upp heilsugæslan frá grunni, framhaldsskólastigið frá grunni og vegakerfið nánast frá grunni og til viðbótar hafa verið byggðir upp atvinnuvegirnir til sjávarins og á þeim höfum við byggt okkar lífskjör á síðustu árum. Þessum grunni tók hæstv. núv. ríkisstjórn við en er að heykjast á að byggja á. Ég nefndi dæmi úr vinnu ríkisstjórnarinnar, úr vinnu við fjárlagagerðina og ég gæti nefnt þau miklu fleiri. Meðan ekkert af áþreifanlegum verkum ríkisstjórnarinnar bendir til þess að það eigi að hafa að einhverju þau fyrirheit sem eru gefin í stjórnarsáttmálanum þá er ég ekki bjartsýnn og þá gef ég ekki mikið fyrir þau orð sem standa í stjórnarsáttmálanum. Þá eru þau ekki meira virði en samþykktir Sjálfstfl. í þyrlumálunum sem hefur komið í ljós í dag að á að hafa að engu.