Flutningur á starfsemi Landhelgisgæslunnar

45. fundur
Þriðjudaginn 03. nóvember 1992, kl. 18:29:11 (1828)

     Ólafur Þ. Þórðarson :
    Herra forseti. Hv. 5. þm. Reykn. hefur flutt till. til þál. um flutning einnar ríkisstofnunar til Keflavíkur. Það kom fram hjá hv. stjórnarþm., 5. þm. Austurl., að þeir tveir hefðu unnið að því að marka þá stefnu ríkisstjórnarinnar að stór flutningur ríkisstofnana út á land mundi hefjast. Vissulega eru það stór tíðindi og ástæða til bjartsýni þegar slík stórtíðindi eru flutt hér úr ræðustól. Ég verð þess vegna að taka undir það að ég hygg að það sé hárrétt hjá hv. 5. þm. Austurl. að hann er bjartsýnn. Það kom í ljós að til þess að ná þessu fram hefði hluti forsrn. verið fluttur úr stað og færður að Bankastræti þar sem fjármálaveldi vors lands hefur löngum staðið föstum fótum. Og ekki skapar það minna traust á að nú séu bjartir tímar fyrir stafni.
    Það sem aftur á móti er umhugsunarefni í þessu er að á sama tíma og tveir ungir alþingismenn Íslendinga sem báðir vilja vel, tveir hv. þm. ríkisstjórnarinnar, hv. 4. þm. Reykv. og 16. þm. Reykv., formaður Sjómannafélags Reykjavíkur, marka sína stefnu og vekja báðir athygli á því með réttu hvílík auðæfi við eigum og það þurfi að gæta þeirra, sem eru ekki ný sannindi að auðæfa þurfi að gæta, liggur það fyrir að það er hægt að reikna það út með einföldum hlutfallareikningi að ekki þarf að fara til aldamóta þangað til Landhelgisgæslan verður lögð niður með sömu stefnu og verið hefur.
    Nú hefur það áður komið fyrir að þeim sem fékk það hlutverk að vera á ,,útkikk`` og segja fyrir um stefnuna og hvert leiddi af þeirri stefnu hefur ekki verið trúað. Eitt frægasta dæmi Íslandssögunnar í þessum efnum var þegar Halldór Snorrason var stafnbúi hjá Haraldi Sigurðssyni og kallaði að það bæri að breyta stefnunni og stýrimaður hlýddi fyrirmælum en konungur gaf fyrirmæli um það til baka að halda henni óbreyttri. Halldór gaf enn út fyrirmæli að breyta stefnunni og enn gaf konungur fyrirmæli um að halda henni óbreyttri. Þá strandaði skipið og konungur varð reiður og spurði hvers vegna ekki hefði verið látið vita. En Halldór svaraði því til að sér þýddi ekki að gefa leiðbeiningar því sér væri ekki trúað.
    Ég vænti þess að hv. 5. þm. Reykn. hafi ekki hugsað sér að flytja lík til Keflavíkur. Norðlendingar fluttu að vísu lík heim að Hólum en þeir gerðu það með fullri reisn og það var ekki hlegið að þeim flutningi norður heiðar. En ef menn eru að flytja til Keflavíkur starfsemi sem miðar að því að það eigi, eins og réttilega hefur komið fram, að halda úti einu varðskipi til þess að gæta landhelginnar ásamt einni Fokker-flugvél sem á að fara í eftirlitsflug, þá vita allir að hér er um skrípaleik að ræða. Þá er eins gott að skera starfsemina alla niður því þá er búið að lýsa því yfir að þessara auðæfa Íslands sem vissulega eru, eins og fram kom hjá hv. 4. þm. Reykv., þau mestu á mann sem nokkurt land á, eigi ekki að gæta.
    Það þýðir að flutningaskip sem í dag hafa tekið að sér það hlutverk að kasta úrgangi í sjóinn geta treyst því að ef þau sigla nógu langt frá meginlandi Evrópu sé allt í lagi að láta þetta fara innan landhelgi Íslands eða á þeim svæðum þar sem það mundi berast að þessari strönd. Eins og allir vita stunda alþjóðleg stórfyrirtæki það að bjóða út flutninga á úrgangi til þess að þurfa ekki sjálf að bera ábyrgð á því hvar þeim úrgangi er komið fyrir. Þetta er þó aðeins brot. Hér eru menn að tala um að hleypa veiðiskipum inn í landhelgina. Hér erum við með réttu að auka viðskipti okkar við aðila sem . . .   (Forseti hringir.) --- Hvað ber nú til, herra forseti? ( Forseti: Hv. þm. hefur talað sinn tíma sem er að hámarki átta mínútur samkvæmt þingsköpum og lýkur senn máli sínu.) Að sjálfsögðu mun ég virða tímamörk og ljúka máli mínu. Það er umhugsunarefni að umræðan nú er að mínu viti á þann veg að ég get verið bjartsýnn því feigðarmerki núv. ríkisstjórnar blasa við.