Flutningur á starfsemi Landhelgisgæslunnar

45. fundur
Þriðjudaginn 03. nóvember 1992, kl. 18:44:52 (1831)

     Björn Bjarnason (andsvar) :
    Herra forseti. Mér þykir leitt ef orð mín hafa vakið einhverjar slíkar hugmyndir. Ég sagði ekkert í þá veru að ég teldi að það ætti að fjármagna Landhelgisgæsluna með öðrum hætti en nú hefur verið gert með framlögum úr ríkissjóði. Ég hef ekki verið með neinar slíkar hugmyndir. Ég hef aldrei hugsað það mál öðruvísi en svo að starfsemi Landhelgisgæslunnar ætti að fjármagna af skattfé almennings. Ég vona að það hafi ekki verið fleira í máli mínu sem hafi verið jafnóskýrt og þetta. Það er mér fjarri að vera með slíkar hugmyndir.
    Ég veit ekki hvernig menn ímynda sér að það sé unnt að fjármagna Landhelgisgæsluna frekar en önnur löggæslustörf með öðrum hætti en af skattfé almennings. Ég hef engar hugmyndir. Ef hv. þm. hefur einhverjar slíkar hugmyndir væri mjög fróðlegt að vita hverjar þær gætu verið. ( StG: Þær komu úr munni þínum áðan, hv. þm.)