Flutningur á starfsemi Landhelgisgæslunnar

45. fundur
Þriðjudaginn 03. nóvember 1992, kl. 19:02:16 (1837)

     Gunnlaugur Stefánsson (andsvar) :
    Virðulegi forseti. Hér hafa farið fram mjög athyglisverðar umræður um Landhelgisgæsluna. Þær hafa fjallað um það hvort verið sé að leggja gæsluna niður. Ég held, ef menn líta á þetta mál sanngjörnum augum, þá er ekki svo. Ég minnist þess að menn ræddu það hér í þinginu sl. haust að leggja ætti Landhelgisgæsluna niður með fjárlagagerðinni fyrir yfirstandandi ár. Mér virðist sem Landhelgisgæslan hafi staðið sig mjög vel í sínu stykki þrátt fyrir það að hún hafi orðið að lúta mjög miklum niðurskurði í yfirstandandi fjárlagagerð. Það veit hv. þm. Jón Kristjánsson að Landhelgisgæslan er einmitt núna þessa dagana til sérstakrar skoðunar í fjárln. Síðast í morgum vorum við að ræða við fulltrúa Landhelgisgæslunnar um hennar málefni. Þar kom ekki annað fram en að hún hafi staðið sig mjög vel í því að veita þá þjónustu sem henni ber. En það er vissulega ástæða til að hafa áhyggjur af því hvernig á að takast á við frekari niðurskurð til viðbótar þeim sem hún hefur þegar orðið að þola. Við skulum minnast þess að Landhelgisgæslunni er vel stjórnað. Þar starfar dugandi og fórnfúst fólk og það hefur brugðist við niðurskurði með því að reyna að koma á ýtrustu hagræðingu sem hægt er þar. Þess vegna á ég mjög erfitt með að skilja það þegar hv. þm. Jón Kristjánsson kemur í þennan ræðustól og lætur í veðri vaka að það sé nánast verið að leggja þessa stofnun niður, að það sé nánast verið að opna landhelgina upp á gátt og engin gæsla verði lengur á miðunum. Það er bara alls ekki svo. Það veit hv. þm. Jón Kristjánsson betur en flestir aðrir hér inni að það er verið að skoða þessi mál mjög gaumgæfilega um þessar mundir og hann tekur þátt í þeirri vinnu.