Flutningur á starfsemi Landhelgisgæslunnar

45. fundur
Þriðjudaginn 03. nóvember 1992, kl. 19:19:07 (1846)

     Björn Bjarnason (andsvar) :
    Herra forseti. Nú fer að skýrast hvað menn áttu við áðan þegar þeir voru að vekja máls á því hvort ég ætlaði að fjármagna Landhelgisgæsluna með öðrum hætti en gert hefur verið. ( StG: Ræðumaður sagði það áðan.) Ég hef ekki verið að tala um það. Ég hef verið að tala um að það þurfi að móta Landhelgisgæslunni stefnu á öðrum vettvangi en við gerð fjárlaga. Það hafa verið settar niður nefndir sem hafa starfað að þessu máli án þess að fyrir liggi skýr stefnumörkun af hálfu íslenskra ríkisstjórna og íslenskra stjórnvalda um það hvert er markmið og hvert er hlutverk Landhelgisgæslunnar við nýjar aðstæður.
    Síðan hef ég sagt að ég telji að Landhelgisgæslan ætti hugsanlega að taka að sér hlutverk varðandi gæslu öryggis og varna þjóðarinnar. Þar er ég ekki endilega að tala um samvinnu við varnarliðið eða að varnarliðið taki að sér rekstur Landhelgisgæslunnar heldur kann Landhelgisgæslan að hafa alveg sjálfstæðu hlutverki að gegna á þessu sviði og menn mega ekki vera svo blindir á hlutverk varnarliðsins að þeir geti ekki hugsað um öryggi og varnir Íslands án þess að það komi fyrst upp í hugann. Það er þessu sem ég er að velta upp, þetta hefur verið rætt á öðrum vettvangi og er sjálfsagt að ræða innan veggja Alþingis. Það þarf einmitt að ræða þetta og velta fyrir sér en mér finnst að það eigi ekki að gera það í sambandi við afgreiðslu fjárlaganna.