Flutningur á starfsemi Landhelgisgæslunnar

45. fundur
Þriðjudaginn 03. nóvember 1992, kl. 19:32:54 (1851)


     Stefán Guðmundsson (andsvar) :
    Virðulegi forseti. Út af fyrir sig var þetta á margan hátt ágæt ræða en margt hef ég við hana að athuga. Við getum geymt okkur það til betri tíma en aðeins langaði mig að stinga á nokkrum atriðum. Hv.

þm. vék að starfi Framsfl. í byggðamálum. Vegna þess að hann vildi tengja þessa tillögu sína sérstaklega byggðamálum langar mig til þess að minna hv. þm. á það og biðja hann að glöggva sig á því hvaða þýðingu það hafi fyrir viðkomandi byggðarlög að hafa byggt upp fjölbrautaskóla á Akranesi, menntaskóla á Ísafirði, fjölbrautaskóla á Sauðárkróki, verkmenntaskóla og háskóla á Akureyri, framhaldsdeild á Húsavík, menntaskóla á Egilsstöðum, fjölbrautaskóla á Selfossi fyrir utan Keflavík. Ég nefni enn þá til viðbótar uppbyggingu heilsugæslu og sjúkrahúsa vítt og breitt um landið. Þetta hefur gerst á þessum árum sem hv. þm. var að tala um og ýja að að væru glötuð ár.
    Nú veit ég að hv. þm. Árni R. Árnason þekkir vel til í Keflavík. Ég tel víst að hann segi örfá orð þegar ég hef yfirgefið þennan stól. Þá hefði ég gaman af að hann mundi segja okkur frá því, þessum fáu aðilum sem hér sitjum enn og hlýðum á og fylgjum eftir tillögu hans, hvað hann álíti vegna þess að hann var að tala um þjónustustörfin sem ég er honum sammála um að er gríðarlega mikið mál að flytja í auknum mæli út á land. Við framsóknarmenn höfum, án þess að ég ætli að fara ítarlega yfir það, flutt um það margítrekaðar og mjög glöggar tillögur á Alþingi hvernig við viljum að sé staðið að því. Hvað heldur hv. þm. að margir aðilar í Keflavík starfi við sjúkrahúsið og heilsugæsluna í Keflavík og fjölbrautaskóla? ( Forseti: Ræðutíma hv. þm. er lokið.)
    Hann minntist einnig á það, virðulegi forseti, og ég skal ljúka máli mínu. ( Forseti: Ég bið hv. þm. að ljúka máli sínu og hverfa úr stólnum.) Já, hann er að gera það. En hv. þm. vék í lokaorðum sínum að áhyggjum út af foreldrum okkar, öfum og ömmum, hvaða byrðar . . .   ( Forseti: Ég verð að biðja hv. þm. að yfirgefa ræðustólinn vegna þess að ræðutíminn er úti.) Ég held einmitt að hv. þm. ætti að glöggva sig á því og minna Alþfl. á hvernig Alþfl. er að rústa það kerfi sem Alþfl. hefur fram að þessu státað sig af að hafa byggt upp.