Flutningur á starfsemi Landhelgisgæslunnar

45. fundur
Þriðjudaginn 03. nóvember 1992, kl. 19:36:21 (1852)

     Flm. (Árni R. Árnason) (andsvar) :
    Virðulegi forseti. Það er laukrétt. Það var ástæða til fyrir hv. framsóknarmenn á þingi að ganga til ræðustóls og reyna að gera eitthvað úr þessu. Það mætti kannski fram koma ef rétt væri að staðið hafi flokkspólitískar deilur um mannvirki þau sem nefnd voru til sögunnar, um byggingu fjölbrautaskóla, sjúkrahúsa, grunnskóla og annarra menntastofnana í ýmsum landshlutum. Það yrði mér nýmæli ef í ljós kæmi að flokkspólitískar deilur hefðu staðið um þessar byggingar eða uppbyggingu þeirrar þjónustu. (Gripið fram í.) Ég er sannfærður um að ef við rekjum þingmál munu menn komast að þeirri niðurstöðu að það var ekki fyrir einhliða málflutning Framsfl. í bága við aðra þingflokka.
    Við erum sammála, ég og hv. 4. þm. Norðurl. v., um að það er nauðsyn að auka fjölbreytni atvinnulífs í hinum dreifðu byggðum. Við vitum það báðir vel að stórar opinberar þjónustustofnanir hafa fjölda starfsmanna. En ég fer ekki frá því að ég hef enn áhyggjur af skuldabyrði barnanna minna.