Meðferð og eftirlit sjávarafurða

46. fundur
Miðvikudaginn 04. nóvember 1992, kl. 13:52:51 (1859)

     Jóhann Ársælsson :
    Virðulegi forseti. Það er nokkuð stórt mál sem hér er til umræðu og hefur verið fjallað töluvert um það í sjútvn. Það er margt þarna sem orkar tvímælis. Það er verið að gera verulega miklar breytingar á því hvernig staðið er að eftirliti með sjávarafurðum og framleiðslu þeirra og hafa komið fram mjög mismunandi sjónarmið hjá þeim sem eiga hlut að máli. Sérstaklega hefur Gísli Jón Kristjánsson fiskmatsstjóri sett fram gagnrýni á þetta fyrirkomulag. Margt af því sem hann hefur sagt um þessi mál er þannig vaxið að ég get undir það tekið. Ég hef áður lýst efasemdum í þinginu um hvernig að þessu er staðið með þessu frv. núna, en vegna þeirrar umræðu sem fór fram í nefndinni og þeirra breytinga sem voru gerðar á frv. hafa einstakir nefndarmenn skrifað undir það með fyrirvara og eru ekki með sérstakt nál.
    Ég tel líklegast að menn muni samþykkja frv. en ég vil taka það fram sérstaklega vegna míns fyrirvara að ég tel að taka eigi þetta mál til endurskoðunar sem allra fyrst, einfaldlega vegna þess að þessi breyting er mjög mikil og fram hafa komið, eins og ég sagði áðan, verulegar athugasemdir. Það ætti að mínu viti að taka málið til endurskoðunar strax eftir fyrsta árið til þess að fara yfir hvort hér hefur tekist vel til eða ekki. Ég ætla ekki að vera á móti málinu vegna þess að inni í brtt. er m.a. kominn möguleiki fyrir sjútvrh. til að ganga fram hjá skoðunarstofunum, í trausti þess að hann geri það ef á þarf að halda. Ef þessi mál þróast öðruvísi en þeir sem hér hafa mest ráðið ferð vonast til að verði hefur sjútvrh. möguleika á því að hafa áhrif á gang mála. Það er kannski aðallega þess vegna sem ég mun ekki setja mig upp á móti málinu. Þó ég hafi, eins og ég segi, skrifað undir með fyrirvara er ekki þar með sagt að það komi fram brtt.
    Það er mjög slæmt að á þessum fundi núna eru einungis fáir af sjávarútvegsnefndarmönnum mættir. Það vantar a.m.k. þrjá eða fjóra af sjávarútvegsnefndarmönnum við umræðuna. Það hefði verið heppilegt að þeir hefðu getað tekið þátt í umræðunni. Ég var því miður ekki á þeim fundi þar sem endanlega var gengið frá málinu og hef þess vegna ekki nákvæmlega vitneskju um þær umræður sem þar urðu. En ég geri ráð fyrir því að sjávarútvegsnefndarmenn muni tala saman fyrir 3. umr. málsins og gera það upp við sig hvort fram muni koma brtt. eða ekki.