Endurskoðun laga um síldarútvegsnefnd

46. fundur
Miðvikudaginn 04. nóvember 1992, kl. 14:25:41 (1864)

     Flm. (Gunnlaugur Stefánsson) :
    Virðulegi forseti. Ég flyt hér till. til þál. ásamt hv. 7. þm. Norðurl. e. um endurskoðun laga um síldarútvegsnefnd. Tillagan hljóðar svo:
    ,,Alþingi ályktar að fela ríkisstjórninni að skipa nefnd til að endurskoða lög nr. 62 21. apríl 1962, um síldarútvegsnefnd og útflutning saltaðrar síldar, og miði sú endurskoðun m.a. að því að gefa fleiri aðilum kost á því að vinna að markaðsöflun og útflutningi á saltsíld.``
    Í grg. með tillögunni segir svo:
    ,,Í lögum um síldarútvegsnefnd segir að hún skuli hafa eftirlit með verkun saltaðrar síldar, svo og með útflutningi hennar. Í 4. gr. laganna er kveðið á um að enginn megi ,,bjóða til sölu, selja eða flytja til útlanda saltaða síld sem íslensk skip veiða eða verkuð er hér á landi eða lögð á land verkuð, nema löggilding síldarútvegsnefndar komi til``. Enn fremur segir í 8. gr.: ,,Ráðherra er heimilt, að fengnum tillögum síldarútvegsnefndar, að veita heildarsamtökum síldarsaltenda eða síldarútvegsnefnd einkarétt til útflutnings á saltaðri síld eða einkarétt til útflutnings á saltaðri síld sem verkuð er með tilteknum verkunaraðferðum eða seld til ákveðinna landa.``
    Ljóst má vera að heimild er í lögum um að aðrir flytji út saltaða síld en síldarútvegsnefnd. Sú hefur hins vegar ekki orðið raunin, heldur hefur síldarútvegsnefnd alfarið séð um útflutning saltaðrar síldar í krafti einkaréttar er lögin kveða á um.
    Enginn efast um að síldarútvegsnefnd hefur unnið gott starf bæði við stjórnun síldarsöltunar og við útflutning á síldarafurðum. Þótt einkaréttur á útflutningi saltsíldar verði afnuminn mun síldarútvegsnefnd hafa mikilvægu hlutverki að gegna, en með því að gefa fleiri útflytjendum kost á að flytja út saltaða síld hlýtur það að efla markaðsleit, tryggja betur sölu og verð og nýtingu markaða. Lagaákvæðin eru hins vegar úrelt orðin og tímabært að endurskoða þau.
     Vaxandi erfiðleikar við útflutning og sölu saltsíldar á erlendum mörkuðum hljóta að kalla á endurskoðun laga er kveða á um þessi mál. Miklir hagsmunir eru í húfi. Síldarsöltun er stór þáttur í atvinnulífi landsbyggðarinnar og í þjóðartekjum. Brýnt er að leitað verði allra leiða til þess að tryggja hámarksafrakstur atvinnugreinarinnar. Efling útflutningsstarfseminnar er löngu brýn og gæfi fleiri útflytjendum kost á að spreyta sig. Að veita fullt frelsi í útflutningi saltsíldar er tímabær aðgerð sem nú verður að framkvæma eins fljótt og auðið er.``
    Ég vil taka það skýrt fram að hér liggur ekki fyrir tillaga um að leggja síldarútvegsnefnd niður. Ekkert í tillögunni kveður á um að leggja hömlur á starfsemi síldarútvegsnefndar heldur er verið að leggja áherslu á hvort endurskoða megi lög með þeim hætti að fleiri aðilar sem í útflutningi starfa geti komið að markaðsleit, markaðsrannsóknum og útflutningi saltsíldar. Það er tilgangurinn með þessum málflutningi. Alls ekki að leggja stein í götu síldarútvegsnefndar heldur að gefa fleiri aðilum kost á því að spreyta sig.
    Það eru allir sammála um að aðstæður eru orðnar mjög breyttar frá því að síldarútvegsnefnd tók til starfa vorið 1935. Einnig er rétt að vekja athygli á þeim erfiðleikum sem við er að etja í sambandi við samninga á saltaðri síld. Markaðurinn í Rússlandi er hrunin. Erfiðleikar fara vaxandi á hefðbundnum mörkuðum á Norðurlöndum og það má heita að útflutningur saltaðrar síldar sé í alvarlegum þrengingum um þessar mundir. Þegar slíkar þrengingar knýja á þá hljótum við að reyna að leita allra leiða til að bregðast við. Ég held að hér sé um eina leið að ræða, að breyta lögum eða réttara sagt að rýmka ákvæði laga svo að fleiri aðilar geti komist að og hafið markaðsrannsóknir, markaðsleit og útflutning síldar ef slíkt megi bera

árangur.
    Nú segja þeir sem telja að ekki sé þörf á svona tillöguflutningi að allar þessar heimildir séu nú þegar til staðar í lögum. En svo er alls ekki. Ef við lítum yfir lög um síldarútvegsnefnd og útflutning saltaðrar síldar frá árinu 1962 þá eru ákvæði laganna, er verja einkarétt eða einkaleyfi síldarútvegsnefndar til útflutningsstarfseminnar, svo ákveðin að það eru nánast engar forsendur fyrir aðra að komast þar að. Þrátt fyrir að ekki sé gripið til ákvæðis 8. gr. um að ráðherra sé heimilt að veita síldarútvegsnefnd einkarétt. Girðingarnar eða hindranirnar í öðrum greinum laganna eru svo öflugar og sterkar að það kemur tæpast í hug nokkurs útflytjanda að reyna markaðsrannsókn eða markaðsleit fyrir síldarafurðir. Þar segir t.d. eins og ég hef áður getið í 4. gr. að ,,Enginn má bjóða til sölu, selja eða flytja til útlanda saltaða síld . . .   nema löggilding síldarútvegsnefndar komi til``. Í 5. gr. segir:
    ,,Síldarútvegsnefnd löggildir útflytjendur saltaðrar síldar með þeim skilmálum, sem nefndin telur nauðsynlega um löggildingartíma, framboð og lágmarksverð, um skiptingu markaðsstaða, útflutningstíma og annað það, sem tryggir sem öruggasta sölu saltsíldarframleiðslu landsmanna. Nefndin gerir þær ráðstafanir, sem hún telur við þurfa til að tryggja, að löggildingarskilmálum sé fullnægt.
    Til þess að geta fengið löggildingu sem útflytjandi samkvæmt þessari grein, skal hlutaðeigandi fullnægja ákvæðum laga nr. 52 27. júní 1925, um verslunaratvinnu, og ráða yfir því lágmarksmagni saltsíldar, sem nefndin ákveður.``
    Síðan segir í 6. gr., og kannski er það það ákvæði laganna sem helst þarf að líta á við þessa endurskoðun og e.t.v. er helstu hindrunina að finna í þeirri grein. Hún er sú grein sem veitir í raun síldarútvegsnefnd einkarétt í framkvæmd þannig að ekki þurfi að grípa til ákvæða í 8. gr. um heimild ráðherra til útgáfu einkaréttar. En í 6. gr. segir:
    ,,Útflytjendur og síldarsaltendur eru skyldir að gefa nefndinni allar upplýsingar, sem hún óskar, um hvað eina, sem snertir söltun, sölu og útflutning síldar, og hefur nefndin frjálsan aðgang að verslunarbókum og skjölum þeirra hér að lútandi.``
    Það sér hver maður að miðstýrt eftirlitshlutverk síldarútvegsnefndar er svo algjört að ekkert útflutningsfyrirtæki reynir að fara út í útflutning saltsíldar á meðan ákvæði laga eru með þeim hætti sem raun ber vitni. 6. gr. laganna veitir þess vegna síldarútvegsnefnd í raun og réttu einkarétt og einkaleyfi af því að ákvæðin eru svo afgerandi að þau fæla alla aðra frá því að reyna fyrir sér með útflutning á saltaðri síld.
    Frá því að síldarútvegsnefnd tók til starfa hafa allar aðstæður breyst. Útflutningsstarfsemin er orðin opnari og frjálsari og flestir eru sammála um að sú opnun hafi skilað íslenskum sjávarútvegi og þjóðarbúinu auknum arði og enginn vill snúa til baka til þeirra hafta, einokunar og einkaréttar er gilti hér á árum áður. Sú stefna hefur verið við lýði allt fram að þessu að frjálsari starfshættir eru að koma til hvað varðar útflutningsstarfsemina á sjávarafurðum. Og ég held að við getum líka verið sammála um að það hafi frekar hækkað verð og skilað okkur nýjum og sterkari mörkuðum og aukið samkeppni. Spurningin er sú hvort ekki þurfi að fara að huga að þessu núna í sambandi við útflutning á saltaðri síld. Hvort ekki sé ástæða núna í ljósi breyttra aðstæðna að skoða það gaumgæfilega hvort ekki sé rétt að setja frekar hvetjandi ákvæði í lög um að fleiri aðilar komi að þessu starfi.
    Virðulegi forseti. Ég legg til að málinu verði vísað tli sjútvn. að lokinni þessari umræðu.