Endurskoðun laga um síldarútvegsnefnd

46. fundur
Miðvikudaginn 04. nóvember 1992, kl. 15:16:30 (1874)

     Ingibjörg Pálmadóttir (andsvar) :
    Virðulegi forseti. Ég er alveg sammála fyrri parti ræðu hv. 5. þm. Austurl. Við eigum auðvitað að nýta það sem best reynist hverju sinni. Það er alveg hárrétt hjá hv. þm. og það höfum við einmitt verið að gera. En hann fór á flug í lokin og fór að tala um einokun og einokunarstefnu Framsfl.
    Það er engin einokunarstefna hjá Framsfl. Það veit hv. þm. Það er mjög langt frá því. Það er engin einokun hjá síldarútvegsnefnd heldur í sambandi við útflutning á síld. Það getur hver sem er selt síld. Hann þarf bara að fullnægja vissum skilyrðum sem eðlilegt er þannig að markaðurinn hrynji ekki hjá öllum sem eru að framleiða. Þetta vildi ég bara að fram kæmi. Það er engum bannað að selja síld. Það er málið. Við eigum ekki að brjóta niður sölusamtök sem hafa um áratuga skeið reynst okkur vel. Það er allt í lagi að endurskoða lögin en ekki með þeim formerkjum að það eigi að brjóta niður það sem hefur reynst okkur ágætlega.