Endurskoðun laga um síldarútvegsnefnd

46. fundur
Miðvikudaginn 04. nóvember 1992, kl. 15:18:04 (1875)

     Flm. (Gunnlaugur Stefánsson) (andsvar) :
    Virðulegi forseti. Mér þykir það ekki gott að hv. þm. Ingibjörg Pálmadóttir skuli ekki heyra það sem verið er að reyna að segja úr þessum stól. Við erum ekki að leggja til að brjóta eitt eða neitt niður. Það kemur hvergi fram í þessari tillögu. Það hefur hvergi komið fram í málflutningi okkar. Þvert á móti miðar öll orðræða að því að reyna að efla það sem fyrir er.
    Það er ekkert heilagt lögmál í sjálfu sér hverjir flytja út. Það sem verið er að leita eftir er að ná hámarksarðsemi á því sem gert er til eflingar atvinnulífinu. Það er markmiðið með þessum tillöguflutningi og ekkert annað. Ef hv. þm. les lögin um síldarútvegsnefnd hlýtur hún að komast að raun um að það er engin tilviljun að enginn annar en síldarútvegsnefnd hafi flutt út saltaða síld undanfarna áratugi. Það er engin tilviljun. Ástæðan er einfaldlega sú að lögin eru svo skýr um það að engum dettur í hug að reyna það. (Gripið fram í.) Það dettur engum í hug að reyna það, hv. þm. Stefán Guðmundsson --- velkominn í salinn. ( StG: Ekki einu sinni utanrrn.?) Utanrrn.? Þetta er ekki á vegum utanrrn. Síldarútvegsnefnd starfar á vegum sjútvrn. og utanrrn. hefur ekki einu sinni leyfi til að gefa út leyfi á útflutningi saltaðrar síldar, hv. þm. Stefán Guðmundsson. Það er rétt og góð ábending hjá flokksbróður hv. þm. Ingibjargar Pálmadóttur að undrast yfir því hvers konar sérákvæði gilda sérstaklega um útflutningsstarfsemi á síld. Kemur honum á óvart og mörgum fleiri framsóknarmönnum og mér líka ef þeir lesa lögin.