Endurskoðun laga um síldarútvegsnefnd

46. fundur
Miðvikudaginn 04. nóvember 1992, kl. 15:20:09 (1876)

     Einar K. Guðfinnsson (andsvar) :
    Virðulegi forseti. Ég vil leyfa mér að gera aðeins athugasemd við þann hluta ræðu hv. 5. þm. Austurl. þar sem hann lagði með þeim hætti út af texta í grein formanns síldarútvegsnefndar að e.t.v. mætti draga þá ályktun, a.m.k. velta því fyrir sér, hvort síldarútvegsnefnd stæði undir þeim væntingum og stæði undir því sem menn hafa haldið fram að þar væri sérstaklega vel haldið á málum og betur en almennt tíðkast í síldarsöluviðskiptum í heiminum. Ég vil leyfa mér að halda því fram að þannig sé þessum málum einmitt farið vegna þess --- og það er kjarni þess máls og undirstrikar hversu vel síldarútvegsnefnd hefur haldið á spöðunum --- að stærri hluti af síldarafurðum okkar hefur farið til manneldis en gerst hefur hjá nokkurri annarri þjóð, þrátt fyrir brestinn á Rússlandsmarkaði.
    Það getur vel verið að Kanadamenn séu að sækja í sig veðrið og það er enginn vafi á því að það verður mjög hörð samkeppni á erlendum mörkuðum um síldarsölumálin. Það finnst mér einmitt vera sérstakt innlegg í þá umræðu og undirstrika nauðsyn þess að við höfum áfram það fyrirkomulag sem allir íslenskir síldarframleiðendur hafa viljað viðhalda, þ.e. þetta fyrirkomulag síldarútvegsnefndar.
    Ég vil vekja athygli á því, sem er mjög athyglisvert, að þó að menn hafi tekist á um hvernig ætti að skipa málum í útflutningi á söltuðum fiski eða frystum fiski hefur ríkt nánast algjör friður um fyrirkomulag á útflutningi á saltsíld. Þetta segir okkur auðvitað að það er ríkjandi ánægja og fullvissa um það af þeim sem gleggst þekkja að þarna hafi verið vel haldið á spöðunum og líka hitt að síldarútvegsnefnd hefur aldrei nokkurn tímann lagt stein í götu þeirra manna sem hafa viljað flytja út saltaða síld. Það eru einmitt dæmi um menn sem hafa verið að reyna að fást við þetta og hafa notið mjög góðs atbeina síldarútvegsnefndar. Mér er ekki kunnugt um annað en að þeir hafi lýst yfir sérstakri ánægju sinni með það ágæta samstarf.