Samskipti Íslands og Bandaríkjanna

47. fundur
Fimmtudaginn 05. nóvember 1992, kl. 10:30:27 (1878)

     Fyrirspyrjandi (Árni R. Árnason) :
    Virðulegi forseti. Ég hef á þskj. 119 borið fram fsp. til utanrrh. um samskipti Íslands og Bandaríkjanna. Meðal þeirra ástæðna sem kalla fram þessa fsp. eru umræður um væntanlega aðild okkar að hinu Evrópska efnahagssvæði en í þeim umræðum, bæði hér á hv. Alþingi og í fjölmiðlum, hafa talsmenn andstæðinga þess borið fram þá skoðun að aðild okkar að því muni skerða kjör okkar í viðskiptum og samskiptum við önnur ríki. Sérstaklega hafa þeir nefnt til sögunnar Bandaríkin en við þau eigum við einna mest og flóknust samskipti utan Evrópuríkja. Til að bregða ljósi á þau áhrif sem verða hugsanlega þarna eða verða ekki hef ég borið fram fsp. sem er þannig, með leyfi forseta:
    ,,Hvaða samningar gilda á eftirfarandi sviðum um samskipti Íslands og Bandaríkjanna og hver eru kjör okkar Íslendinga:
    í útflutnings- og innflutningsverslun,
    í viðskiptum með sjávarafurðir á öllum vinnslustigum,
    í viðskiptum með önnur matvæli, svo sem landbúnaðarafurðir, einnig eftirvinnslustigum,
    í flutningum og þjónustu,
    í samstarfi um tækniþróun og flutning tækniþekkingar,
    í aðgangi að bandarískum menntastofnunum og vísindastarfsemi?
    Telur ráðherra þessi kjör okkar svara þörfum okkar eða telur hann að þau þurfi að bæta?
    Telur ráðherra að staðfesting samningsins um Evrópskt efnahagssvæði og aðild Íslands að honum muni hafa áhrif á framangreind samskipti og viðskipti Íslands við Bandaríkin og þá hvernig?``