Samskipti Íslands og Bandaríkjanna

47. fundur
Fimmtudaginn 05. nóvember 1992, kl. 10:38:25 (1880)

     Fyrirspyrjandi (Árni R. Árnason) :
    Virðulegi forseti. Ég kann hæstv. utanrrh. þökk fyrir þau svör sem hann kom að og vænti þess, sem hann nefndi sjálfur, að honum gefist færi þegar umræðum verður fram haldið til að veita svör við þeim atriðum sem eftir er að nefna. En það sem komið er hefur brugðið ljósi á að við eigum mjög víðtæk samskipti við Bandaríkjamenn og að aðgangur okkar að mörkuðum þeirra er greiður. Þó skiptir máli í þeirri umræðu, sem fram hefur farið, hver hugsanleg áhrif geta orðið vegna staðfestingar okkar á samningi og aðildar að samningi um Evrópskt efnahagssvæði. Þar er sérstaklega að nefna að í umræðunni hefur komið fram sú skoðun, sem ég tel að muni vera röng, að við munum missa af viðskiptum og samskiptum og við munum ekki einu sinni hafa eigin völd til þess að gera samninga við ríki utan þess svæðis á okkar eigin kjörum eða þeim kjörum sem við og þau verðum sátt um.