Eignarhald á Brunabótafélagi Íslands

47. fundur
Fimmtudaginn 05. nóvember 1992, kl. 10:41:50 (1882)

     Fyrirspyrjandi (Sturla Böðvarsson) :
    Virðulegi forseti. Á þskj. 125 beini ég fsp. til hæstv. heilbr.- og trmrh. um eignarhald á Brunabótafélagi Íslands. Brunabótafélag Íslands hefur gegnt mjög merkilegu hlutverki við brunatryggingar fyrir húseigendur utan Reykjavíkur. Félagið hefur byggt upp mikilvægt traust milli félagsins og húseigenda og einnig sveitarstjórna gagnvart tryggingarstarfsemi og allri þeirri þjónustu sem félagið hefur veitt. Það þarf ekki að fjölyrða um það hversu mikilvægt það er að öryggi sé ríkjandi gagnvart brunatryggingum, ekki síst tryggingum á húseignum.
    Fulltrúar þeirra sveitarfélaga sem tryggja og tryggt hafa hjá Brunabótafélagi Íslands hafa verið mjög virkir þátttakendur í rekstri félagsins, bæði í gegnum fulltrúaráð félagsins og stjórn þess og litið á félagið sem eign sveitarfélaganna sem tryggt hafa hverju sinni hjá félaginu.
    Brunabótafélag Íslands hefur jafnan veitt mikla og ágæta ráðgjöf um eldvarnir, um brunatryggingar húseigna og auk þess veitt sveitarfélögum fyrirgreiðslu í formi lána, sérstaklega til þess að byggja upp slökkviliðin í þeim sveitarfélögum sem hafa átt í viðskiptum við Brunabótafélagið. Einnig hefur það veitt lán til vatnsveituframkvæmda, bæði stofnæða og dreifikerfa, sem auðvitað tengist brunavörunum í hverju sveitarfélagi.
    Með stofnun Vátryggingafélagi Íslands var á vissan hátt brotið blað þar sem Brunabótafélagið varð í raun eignarhaldsfélag án þess að skýrt væri kveðið á um það hver í raun væri eigandi félagsins. Ég tel því afar mikilvægt vegna framtíðar Brunabótafélagsins að eignarhald þess verði fært í fastar skorður. Því spyr ég hæstv. heilbr.- og trmrh.:
  ,,1. Liggur fyrir lögformleg hlið eignarhalds á Brunabótafélagi Íslands?
    2. Hve mörg sveitarfélög eiga aðild að fulltrúaráði Brunabótafélagsins?
    3. Hvaða réttindi og skyldur fylgja aðild að fulltrúaráði félagsins?
    4. Telur ráðherra koma til greina að Brunabótafélagið verði gert að hlutafélagi með eignaraðild þeirra sveitarfélaga sem eiga aðild að fulltrúaráði félagsins? Yrði eignarhlutur hvers þeirra þá metinn í samræmi við iðgjaldagreiðslur húseigenda fyrir brunatryggingar sl. fimm ár?``