Eignarhald á Brunabótafélagi Íslands

47. fundur
Fimmtudaginn 05. nóvember 1992, kl. 10:50:54 (1885)

     Heilbrigðisráðherra (Sighvatur Björgvinsson) :
    Virðulegi forseti. Eins og fram kom í máli mínu þá getur verið álitamál hvort eðli Brunabótafélags Íslands sé að vera gagnkvæmt tryggingafélag sem sé í eigu tryggingataka eða hvort umrætt félag sé í eigu eða geti talist vera í eigu sveitarfélaganna sem að því standa. Það er álitamál vegna þess að í báðum tilvikum gera lögin ráð fyrir að hægt sé að meðhöndla viðkomandi aðila, annars vegar tryggjanda og hins vegar sveitarfélag eins og um eiganda sé að ræða. Þetta mun hins vegar verða fyrir tekið í þeirri nefnd sem mun fjalla um endurskoðun á lögum um Brunabótafélag Íslands á næstunni og væntalega mun Alþingi síðan segja síðasta orðið um þetta mál eins og eðlilegt er því Alþingi er að sjálfsögðu löggjafarvaldið og það er ákvörðun löggjafarvaldsins hvernig með skuli fara.