Þjóðaratkvæðagreiðsla um aðild Íslands að Evrópska efnahagssvæðinu

48. fundur
Fimmtudaginn 05. nóvember 1992, kl. 13:42:35 (1918)


     Frsm. 3. minni hluta allshn. (Eyjólfur Konráð Jónsson) :
    Hæstv. forseti. Þar sem samkomulag er um að leitast við að afgreiða málið á þessum degi mun ég stytta mál mitt sem mest í þessari framsögu minni. Til að svo megi verða kýs ég að vitna til nál. og víkja sem minnst út frá textanum en ég get ekki alveg komist hjá því. Þótt Evrópumálin séu hin flóknustu má segja að þessi þáttur þeirra, þ.e. þjóðaratkvæðagreiðslan, sé einfaldur. Spurningin er í rauninni: Er það rétt og skynsamlegt að þjóðin fái að meta hvort hún sé samþykk efni þessarar tillögu? Um það er spurt, annað ekki. Þess vegna er þessi þáttur í sjálfu sér mjög einfaldur og þarf ekki að fara um það fleiri orðum. Almenningur þarf ekki t.d. að leggjast í lestur þúsunda blaðsíðna til þess að svara þeirri einföldu spurningu. Ég vil því helst losna við að svara málalengingum og útúrsnúningum um þau efni. Ljóst er að Alþingi getur, ef það vill, ákveðið atkvæðagreiðsluna en það getur líka hundsað vilja meiri hlutans. Verði það gert er ekki við góðu að búast við afgreiðslu EES-málsins í heild sinni eða öllu heldur draganna sem fyrir liggja um Evrópskt efnahagssvæði, því að enn eru það ekki nema drög. Það hefur enginn samþykkt neinn EES-samning mér vitanlega og verður kannski aldrei. Af þessum sökum vonast ég til að menn spari hér stóru orðin og skal reyna að gera það. Ég vil þó gera um það athugasemd að áður en nál. okkar Inga Björns Albertssonar barst, þ.e. þriðja nefndarálitið, var búið að geta þess í nál. annarra manna, þeirra sem flytja nál. 2. minni hluta nefndarinnar. Það taldi ég ósmekklegt og ekki við hæfi. Það er ástæðulaust að hafa um það fleiri orð.
    Enda þótt ágreiningur sé mikill um aðild að EES er það almenn skoðun að það mál sé hið mikilvægasta frá stofnun lýðveldisins. Enginn getur dæmt um hvort EES sé nú komið í endanlegt horf. Það hefur mótast á undangengnum missirum og er að mótast enn þann dag í dag. Til þess að fá úr því skorið hver sé vilji þjóðarinnar er bara ein leið og má raunar segja að aldrei hafi verið meiri ástæða til að láta fara fram allsherjaratkvæðagreiðslu en einmitt við þessar aðstæður.
    Það hefur komið fram í skoðanakönnunum að mikill meiri hluti virðist vera meðal þjóðarinnar um að efna til allsherjaratkvæðagreiðslu. Það er athyglisvert að þjóðin vill fá að segja sitt álit á málinu án tilits til þess hvort menn styðja aðildina að EES eða ekki.
    Það er skoðun 3. minni hluta að samþykkt tillögunnar mundi leiða til markvissari kynningu á innihaldi samningsins, bæði kostum og göllum, sem gerði fólki fært að mynda sér skoðun og greiða atkvæði í samræmi við það. Svar þjóðarinnar er hins vegar ekki bindandi fyrir þingheim, eins og hér hefur komið fram, sem eftir sem áður getur og er raunar skyldur til að greiða atkvæði samkvæmt samvisku sinni. Hver þingmaður er skyldur til þess.
    Þriðji minni hluti bendir á að víða um Evrópu fara fram þjóðaratkvæðagreiðslur í mjög auknum mæli. Þá er einnig vert að benda á að fimm þjóðaratkvæðagreiðslur hafa farið fram á Íslandi á undangengnum áratugum eins og einnig hefur komið fram og skal ég ekki endurtaka það sem aðrir hafa sagt.
    Það er rétt að fjölmenn félagasamtök lýsa yfir kröfu um þjóðaratkvæðagreiðslu. Hér hafa verið nefnd samtök eins og BSRB, ASÍ, Stéttarsamband bænda, Neytendasamtökin o.s.frv. Einnig hafa tugþúsundir Íslendinga undirritað slíkar áskoranir. Ég held því að viljinn um þetta mál sé nokkuð ljós. En okkur vantar að fá að vita viljann um það hvert við leggjum héðan í frá og það ættu menn helst að vera sammála um.
    Ef reynt er að knýja málið fram án þjóðaratkvæðagreiðslu gæti það haft ófyrirsjáanlegar afleiðingar. Málið er ekki flokkspólitískt. Deilur um flokka eða ríkisstjórn eiga þar ekki heima. Þetta er mál sem er þannig vaxið að menn skiptast ekki eftir flokkum við stuðning eða andstöðu við það.
    Sá sem hefur trú á málstað sínum og kynnir hann rækilega er að sjálfsögðu óhræddur að leggja sína samvisku og málstað undir dóm þjóðarinnar.
    Það er langt í frá að Evrópuþjóðirnar hafi leyst sín mál eða að þau séu í höfn. Það sést best á því

að þessar þjóðir standa ráðþrota við lausn hernaðarlegra átaka í álfunni sem Íslendingar vilja síst af öllu blandast í. Daglega berast líka fregnir af harkalegum pólitískum átökum í Evrópulöndunum, löndunum í álfunni okkar. Í stofnunum Evrópubandalagsins eru líka slík pólitísk átök og þau fara ekki minnkandi heldur vaxandi. Íslendingum ber líka að varast að blanda sér í slíkar deilur.
    Nú síðast heyrum við fregnir af því að fríverslunarsamtökin, GATT, aðalsamtökin sem við höfum trúað á, bæði þessi þjóð og aðrar frjálsar þjóðir, að gætu opnað heiminn fyrir frjálsum viðskiptum og meiri auðlegð, eru nánast í uppnámi. Það veit enginn hver annan grefur. Það er að verða styrjaldarástand í óeiginlegri merkingu, pólitískri merkingu, á milli Bandaríkjanna og Evrópubandalagsins sérstaklega og Japans raunar líka, um það hvernig fara megi með viðskiptafrelsið sem menn tengdu við GATT. Það er ekki sérstaklega skemmtilegt fyrir okkur að taka afstöðu í því máli með eða móti einhverjum. Við verðum auðvitað að hafa okkar sjálfstæði og okkar eigin pólitísku skoðun eins og við höfum alltaf haft en ekki að ánetjast einhverjum öðrum skoðunum yfirgnæfandi stórveldis.
    Ef svo illa tækist til að þetta mál leystist ekki og það með þeim hætti að tillagan yrði samþykkt er mikill vandi fyrir höndum. Hér er talað fjálglega um fulltrúalýðræði. Hvað það er veit ég naumast. Ég er hæstaréttarlögmaður engu að síður. Þetta er nýtt af nálinni hygg ég, alla vega finn ég þetta orð ekki í orðabókum. Þetta er líklega eitthvað sem notað er á tyllidögum.
    Fullveldis landsins er af sögulegum ástæðum vendilega gætt í sjálfri stjórnarskránni og henni er erfitt að breyta án víðtæks stuðnings. Það er styrkur okkar í samskiptum við þá sem við viljum semja við, á grundvelli laga okkar að sjálfsögðu, að það er nánast ekki hægt að breyta stjórnarskránni. Þetta skilja þrautreyndir, erlendir samningamenn sem okkur eru velviljaðir. Það var svo vel gengið frá stjórnarskránni að hún er nærri því óhagganleg. Það er varla hægt að afnema neitt af fullveldinu og gefa það til annarra. Það er nánast ekki hægt. Málið er þess vegna gífurlega vandasamt og ég held að við ættum öll að gera okkur grein fyrir því.
    Þriðji minni hluti telur engin vandkvæði á því að ná tvíhliða samningum í samráði við önnur EFTA-ríki en oftast mætti ná svipuðum árangri með einhliða lagasetningu af okkar hálfu. Það getum við gert. Við getum reynt að aðlaga ýmislegt að þeirri þróun sem er í Evrópu og ekkert nema sjálfsagt um það að segja að borga þar með óbeint eitthvað af kostnaðinum sem við höfum þegar lagt í. En samkvæmt þeim reglum sem við mundum hafa í skiptum við EFTA, sem kannski yrði eitt eftir, gætum við kannski samið beint við þá. En við mundum auðvitað fylgjast með þróuninni og herma gömul og ný loforð Evrópubandalagsins um að taka upp tvíhliða viðræður við okkur, sem ekki hefur mátt nefna nú um langt skeið, upp á bandalagið sjálft, hið heilaga bandalag, og vita hvort þeir minntust þess ekki að þeir hafa bæði í mín eyru og margra annarra heitið því að við sætum við svipað borð og þeir. Þeir hafa sagt það, t.d. Henning Christophersen, aðstoðarframkvæmdastjóri í framkvæmdastjórninni, að við hefðum gert allt sem að okkur sneri, þ.e. við hefðum opnað alla markaði með fríverslun til Íslands fyrir þá með verslun á þeirra afurðum, iðnaðarvarningnum til okkar, en þeir hefðu svikist um að gera það sama gagnvart okkur, t.d. að því er varðaði fiskinn sem fer til Spánar og Portúgal.
    Ég ætlaði sem sagt ekki að fara út í langt mál. Það er ástæðulaust. Ég held að þingmenn séu orðnir nægilega menntaðir eða þreyttir eins og utanrrh. sem sagðist hundleiður á þessu bandalagi. Það er langt síðan hann sagði það, blessaður. Við hv. þm. Ingi Björn Albertsson leggjum til að þáltill. verði samþykkt.