Þjóðaratkvæðagreiðsla um aðild Íslands að Evrópska efnahagssvæðinu

48. fundur
Fimmtudaginn 05. nóvember 1992, kl. 13:56:37 (1919)

     Steingrímur Hermannsson :
    Virðulegi forseti. Það er óþarfi að halda langa ræðu um þetta mál nú. Bæði hefur málið verið ítarlega rætt á Alþingi og sömuleiðis og ekki síður með þjóðinni á fjölmörgum fundum og manna á meðal. Ég stend þó upp til að gera grein fyrir þeirri ákveðnu niðurstöðu Framsfl. að halda beri þjóðaratkvæðagreiðslu um aðild að hinu Evrópska efnahagssvæði. Það samþykkti flokkurinn einróma á miðstjórnarfundi sínum 2. maí sl. og hefur ítrekað þá samþykkt iðulega síðan. Það var gert að mjög vel athuguðu máli. Í rauninni þykir mér að þyngstu rökin fyrir því að þjóðaratkvæðagreiðsla verði haldin um þetta mál hafi komið fram í orðum hæstv. utanrrh. sem hefur sagt það aftur og aftur hér á hinu Alþingi að þetta sé mesti milliríkjasamningur sem Íslendingar hafa nokkru sinni gert. Ég hygg að þetta sér rétt hjá hæstv. utanrrh. Það eru því mjög veigamikil rök fyrir því að þjóðin fái að segja álit sitt á svo veigamiklum samningi.
    Auk þess hefur komið fram mjög eindregin ósk frá fjölda manna að fá að segja álit sitt á samningnum í þjóðaratkvæðagreiðslu. Nægir þar að nefna rúmlega 34 þúsund kosningabæra einstaklinga sem hafa skrifað undir áskorun til Alþingis. Sömuleiðis hafa Neytendasamtökin, félög launþega og bænda eindregið skorað á AlÞingi að þjóðaratkvæðagreiðsla verði höfð um samninginn. Samkvæmt síðustu skoðanakönnun munu yfir 70% aðspurðra telja að þjóðaratkvæðagreiðslu beri að hafa um samninginn. Það er afar athyglisvert að í þeim hópi eru fjölmargir sem svöruðu aðspurðir að þeir styddu þennan samning. Þarna eru vitanlega fram komin afar veigamikil rök fyrir því að um samninginn verði fjallað í þjóðaratkvæðagreiðslu.
    Þessi samningur er mjög umdeildur. Á því er ekki nokkur vafi og það hljóta bæði þeir sem sækja fast að fá hann samþykktan og þeir sem eru andsnúnir honum að viðurkenna. Það er afar veikt að knýja svo umdeildan samning í gegnum Alþingi en neita þjóðinni að segja álit sitt á honum. Með því er að mínu mati verið að stofna til átaka sem við sjáum ekki fyrir endann á. Ríkisstjórnin stæði satt að segja langtum sterkari að vígi ef hún hlyti stuðning þjóðarinnar í þjóðaratkvæðagreiðslu við þennan samning. Hún

mundi bæði styrkja þá ætlan sína að fá samninginn samþykktan og styrkjast sjálf mjög í sessi.
    Ég vek athygli á því að í þessari sömu skoðanakönnun kom fram að meiri hluti þeirra sem aðspurðir voru eru fylgjandi því að samningurinn verði gerður.
    Ég hlustaði að sjálfsögðu á rök hjá hv. flm. 1. minni hluta hér áðan og þótti þau heldur léttvæg. Við erum ekki að leggja til að almennt verði sú regla upp tekin að halda þjóðaratkvæðagreiðslu um fjárlögin eins og kom fram eða eitthvað þess háttar. Ég tel að sá samanburður sé alveg út í hött ef ég leyfi mér að orða það svo. Við erum að leggja til að þjóðaratkvæðagreiðsla verði haldin um þann mikilvægasta alþjóðasamning sem gerður hefur verið af hálfu Íslendinga, svo notuð séu orð hæstv. utanrrh. Væntanlega verða slíkir samningar ekki margir.
    Ég hlýt einnig að taka undir það með hv. síðasta ræðumanni að þetta með fulltrúalýðveldið, orð sem skyndilega hefur sprottið upp og virðist notað, eins og hann orðaði það, á tyllidögum, er gott og blessað út af fyrir sig. En það er enginn að tala um að kollvarpa þessu fulltrúalýðveldi.
    Ég vísa því einnig á bug að þingmönnum beri svo ákveðið að fara eftir sinni sannfæringu að þeir megi ekki hlusta á vilja þjóðarinnar. Hvers konar rök eru það? Ég vil spyrja hv. þm.: Hve margir eru þeir hér inni sem hafa ekki hlustað á rök sinna umbjóðenda og kannski breytt sinni sannfæringu? Sannfæringin mótast vitanlega af svo mörgu og hún mótast af eigin skoðun þingmannsins á málinu að sjálfsögðu. Ég vona að enginn þingmaður sé svo þver í sínum skoðunum að hann hlusti ekki á rök annarra, bæði andstæðinga og ekki síst sinna umbjóðenda. Hér er í raun og veru verið að gefa kjósendum, Íslendingum sem hafa kosningarrétt, tækifæri til þess að segja sína skoðun. Ég yrði ekki undrandi þótt það kynni að hafa áhrif á afstöðu einhvers þingmanns og mér finnst það fullkomlega eðlilegt.
    Þau rök hafa verið færð fram að þessi samningur sé svo flókinn að ekki sé hægt að leggja hann fyrir þjóðina. Ég vísa því fullkomlega á bug og vísa reyndar á rökstuðning 1. minni hluta sem segir að þessi samningur hafi verið mjög vel kynntur fyrir þjóðinni. Ég er að vísu þeirrar skoðunar að það þurfi að gerast enn þá betur. Ég treysti þjóðinni afar vel til að segja álit sitt á þessum samningi. Ég treysti því og veit reyndar að það er engum vafa undirorpið að hægt er að leggja fram öll meginrök með og á móti þessum samningi á mjög skiljanlegu máli fyrir þjóðina alla. Ég þykist vita að hæstv. utanrrh. telji að utanrrn. hafi gert það eins og kemur fram í áliti 1. minni hluta.
    Ég vara við því að knýja þennan samning fram án þess að verða við þeirri eindrægu og einlægu ósk mikils meiri hluta þjóðarinnar, sem ég hef rakið hér, og ég óttast að það leiði til ófarnaðar ef það er gert. Þetta eru meginástæðurnar fyrir því að Framsfl. mælir eindregið með því að þjóðaratkvæðagreiðsla verði samþykkt.