Þjóðaratkvæðagreiðsla um aðild Íslands að Evrópska efnahagssvæðinu

48. fundur
Fimmtudaginn 05. nóvember 1992, kl. 14:13:53 (1921)

     Kristinn H. Gunnarsson :
    Virðulegi forseti. Hér er fjallað um mikilsvert mál sem að vissu leyti, ef samþykkt verður, mundi hafa í för með sér nokkra breytingu á afstöðu Alþingis til mikilsverðra mála og rétt almennings til að hafa álit og segja sína skoðun á þeim. Í áliti 1. minni hluta kemur fram sú skoðun að það að vísa máli til þjóðar til umsagnar sé brot á íslenskri stjórnskipunarhefð. Með þessum rökum eru þeir sem standa að þessu áliti í raun og veru að segja að það komi ekki til álita að vísa til þjóðarinnar umsókn Íslands um aðild að Evrópubandalaginu ef til þess kemur. Það er ekki útilokað mál. Það kemur fram í samþykktum beggja stjórnarflokkanna að þeir útiloka ekki aðild að EB.

    Það er augljóst mál að ef menn hafna þjóðaratkvæðagreiðslu nú á þeim grundvelli að það væri brot á íslenskri stjórnskipunarhefð væru menn að brjóta þá stjórnskipunarhefð ef menn vísuðu til þjóðarinnar umsókn Íslands um aðild að EB. Ég fæ ekki aðra niðurstöðu út úr röksemdafærslu 1. minni hluta en að hann sé andvígur því og muni verða ef til þess kemur að íslensk þjóð fái eitthvað um það að segja hvort við verðum aðilar að Evrópubandalaginu. Þetta er mikilvægt að hafa í huga þegar menn fara yfir röksemdafærslu af þessu tagi, þ.e. hvað hún leiðir af sér gagnvart öðrum mikilsverðum málum.
    Sú fullyrðing kemur fram í nál. þeirra að þingmenn hafi fengið umboð í síðustu alþingiskosningum til þess að ljúka málinu. Til að meta þessa fullyrðingu þurfum við að rifja upp hvað þessir flokkar sögðu um Evrópskt efnahagssvæði í kosningabaráttunni því við hljótum að álykta sem svo að hafi menn fengið umboð til að ljúka einhverju máli þá sé það á grundvelli þeirra yfirlýsinga sem menn gáfu þegar þeir ræddu við kjósendur fyrir síðustu alþingiskosningar.
    Hvað skyldu þessir flokkar hafa lagt upp með gagnvart almenningi í landinu á þessum tíma? Hver voru þeirra skilyrði fyrir því að þeir mundu samþykkja aðild að EES? Við skulum rifja upp hvað Sjálfstfl. setti fram um það efni. Það kemur fram í landsfundarsamþykktum flokksins sem samþykktar voru 10. mars 1991 eða fáum dögum fyrir síðustu alþingiskosningar. Í hefti sem þeir hafa gefið út um sínar samþykktir kemur eftirfarandi fram á bls. 40, með leyfi forseta:
    ,,Sjálfstæðismenn telja að Íslendingar eigi samleið með öðrum EFTA-ríkjum um þátttöku í Evrópsku efnahagssvæði að því tilskildu að samningar takist um hindrunarlaus viðskipti um sjávarafurðir.``
    Þetta voru skilyrði Sjálfstfl. fyrir aðild að EES og þetta var það sem þeir sögðu við kjósendur sína á þeim tíma, að það væri forsenda fyrir því að þeir gætu fallist á þennan samning að í honum fælust hindrunarlaus viðskipti með sjávarafurðir. Öll vitum við hver reyndin er. Það er ekki. Með þeirri röksemdafærslu að menn hafi fengið umboð til að ljúka málinu á grundvelli yfirlýsinga sinna má fallast á að ef samningurinn mætti þeim kröfum og skilyrðum sem menn settu þá hefðu menn það umboð. En þegar samningurinn gerir það ekki er ekki annað hægt að segja en að menn hafi ekki umboð til að ljúka máli á þeim grundvelli sem liggur fyrir. Það er augljóst mál að samningurinn uppfyllir ekki þær kröfur sem Sjálfstfl. setti fyrir samþykkt EES. Hann hefur því ekki fengið umboð til að ganga frá því að ljúka samningnum eins og liggur fyrir nú. Þegar hann hefur ekki það umboð er það eðlileg og lýðræðisleg afstaða að menn snúi sér til þjóðarinnar aftur með samning sem lítur öðruvísi út en rúmast innan þess umboðs sem menn telja sig hafa fengið.
    Lítum á samþykktir Alþfl. Á hvaða grundvelli gengu þeir til sinna kjósenda og báðu um umboð til að ljúka málinu? Það kemur fram í kosningastefnuskrá þeirra á bls. 24, með leyfi forseta:
    ,,Tollar á unnum fiski og styrkir til sjávarútvegs í Evrópubandalaginu torvelda innlendri fiskvinnslu að keppa um fiskinn sem aflast á Íslandsmiðum. Við þessu þarf að bregðast með því að knýja fram aukna fríverslun með fiskafurðir í samningaviðræðum EFTA-ríkjanna og Evrópubandalagsins.``
    Skilyrðið er: Fríverslun. Niðurstaðan er: Ekki fríverslun. Samningurinn, eins og hann liggur fyrir nú, uppfyllir ekki það skilyrði sem Alþfl. setti fram.
    Í þriðja lagi skulum við athuga hvaða skilyrði ríkisstjórnin sjálf setti fyrir því að samningurinn væri ásættanlegur. Skyldi samningurinn uppfylla þau skilyrði sem ríkisstjórnin sjálf setti þegar hún var mynduð? Við skulum gæta að hvað er í stefnuskrá þeirra sem ber heitið ,,Velferð á varanlegum grunni``. Þar kemur fram á tveimur stöðum í stefnuskránni á bls. 31 og 39 að í fyrsta lagi sé samningaviðræðum ekki lokið. Þar segir á bls. 31: ,,Stefnt er að því að ljúka samningnum`` og á bls. 39: ,,Ríkisstjórnin mun reyna til þrautar að ná samningum``. Hvernig geta menn fengið umboð til að ljúka máli sem er ekki lokið einu sinni þegar ríkisstjórnin er mynduð? Það er viðfangsefni þeirra sem bera fram röksemdafærslu af þessu tagi að rökstyðja það. En þá skulum við líta á þær kröfur sem ríkisstjórnin setur upp gagnvart samningnum til að hann sé ásættanlegur að mati ríkisstjórnarflokkanna. Það kemur fram á báðum þessum stöðum sem ég vitnaði til að forsendan er óhindraður markaðsaðgangur með afnámi erlendra tollmúra. Það er forsenda ríkisstjórnarinnar. Það er það sem hún segir sínum kjósendum að sé skilyrði fyrir því að hún geti tekið við samningnum. Þetta eru þær kröfur sem við setjum til að ganga að samningnum. Hver er niðurstaðan? Hún er allt önnur og veikari þannig að menn eru að leggja fram til samþykktar samning sem uppfyllir ekki kröfur Sjálfstfl. í kosningabaráttunni, ekki kröfur Alþfl. í kosningabaráttunni og ekki kröfur ríkisstjórnarinnar sjálfrar þegar hún var mynduð. Auðvitað er það eðlileg afstaða og lýðræðisleg krafa þegar svo er um hnútana búið að máli sem þannig er vaxið verði skotið til þjóðarinnar til umsagnar. Önnur afstaða er ólýðræðisleg og sæmir ekki þingmönnum hér á Alþingi að taka.
    Sú skoðun, sem hér hefur komið fram að það beri ekki að heimila þjóðinni að segja sitt álit á þessum samningi, er ólýðræðisleg. Hún er skoðun manna sem eru hrokagikkir valdsins og hafa gleymt uppruna sínum og telja að lýðræðið sé fólgið í því að fulltrúarnir sem kosnir eru geti hagað sér eins og þeir vilja.
    Það er hægt að fara yfir langan lista af kosningaloforðum t.d. Sjálfstfl. sem hafa verið svikin. Það er augljóst mál að menn, sem stjórna með þessu hugarfari, eru í engu sambandi við kjósendur og engum takti við lýðræðislegar hefðir. Ég vil segja um þá röksemdafærslu að samningurinn sé uppsegjanlegur með 12 mánaða fyrirvara að uppsögn á samningi riftir ekki gerðum sem gerðar eru í skjóli samningsins. Það er alveg borin von að halda því fram að ef menn segja upp samningnum eftir nokkur ár þá þýði það að

menn rifti þeim gerðum innan lands sem gerðar hafa verið á því tímabili. Menn munu ekki afturkalla sölu lands til útlendinga þó að menn segi upp samningnum. Menn munu ekki ná forræði auðlinda úr höndum útlendinga sem þeir kunna að hafa fengið í skjóli samningsins við það að samningnum verður sagt upp. Það er því varla boðleg röksemdafærsla að bera fyrir sig þá skoðun að hægt sé einhvern tíma seinna að segja samningnum upp. Og það er beinlínis hlægilegt að hlusta á hæstv. utanrrh. segja: Ég er tilbúinn að bera upp samninginn eftir tvö ár, uppsagnarákvæði samningsins.
    Við skulum rifja upp afstöðu hæstv. utanrrh. til þjóðaratkvæðagreiðslu í svona veigamiklum málum. Hver var afstaða hans árið 1969 til kröfunnar um þjóðaratkvæðagreiðslu um EFTA-samninginn? Sá ágæti ráðherra var þá að vísu ekki í Alþfl. heldur í öðrum flokki sem studdi EFTA-samninginn. En formaður þess flokks sagði: Í svona viðamiklu máli ber að hafa þjóðaratkvæði. Sá formaður hét Hannibal Valdimarsson. Ritstjóri málgagns þess flokks sagði það sama: Það ber að hafa þjóðaratkvæði, og ritstjórinn hét Jón Baldvin Hannibalsson.
    Árið 1969 treysti hæstv. núv. utanrrh. þjóðinni til þess að hafa skoðun á málinu. 1992 hleypur hann frá þjóðinni og vill ekki að hún fái að segja álit sitt á málinu. Um svona afstöðu, þar sem menn eru á flótta undan eigin sannfæringu, verður ekki annað um sagt en að sé heybrókarskapur. Menn sem þora ekki að standa við afstöðu sína núna eru best geymdir í þeim hópi stjórnarliðsins sem ég veit ekki hver er, en hæstv. utanrrh. kallaði ,,heybrækurnar`` í stjórnarliðinu.
    Ég hef ítrekað reynt að fá hæstv. utanrrh. til að koma hér í ræðustól og svara því hvers vegna hann treysti ekki íslensku þjóðinni nú en hann hefur ætíð lagt á flótta út úr þingsalnum þegar þetta hefur borið á góma og menn sjá hér auðan stól utanrrh. Hæstv. utanrrh. vill ekki ræða þetta mál vegna þess að það er augljóst að afstaða hans mótast af eigingjörnum, persónulegum forsendum. Árið 1969 var hann í stjórnarandstöðu. Þá var allt í lagi að spyrja þjóðina. 1992 er hann sjálfur í stjórn og ráðherra. Þá má ekki spyrja þjóðina því að þjóðin gæti sagt annað en hann vill. Fulltrúalýðræði sem er komið í þá stöðu að fulltrúarnir í mikilsverðustu málum landsins taka afstöðu út frá eigingjörnum, persónulegum hagsmunum er komið á villigötur. Og það er kominn tími til að rétta af þessa fámennisvaldsslagsíðu á fulltrúalýðræðinu og það verður gert með því einu að menn hafi kjark til þess að horfast í augu við kjósendur og vísa stórum málum til þjóðarinnar.
    Verði þessi tillaga um þjóðaratkvæðagreiðslu felld þá eru núv. stjórnarflokkar að segja við þjóðina: Við ætlum ekki að spyrja ykkur þegar við ákveðum að sækja um aðild að EB.