Þjóðaratkvæðagreiðsla um aðild Íslands að Evrópska efnahagssvæðinu

48. fundur
Fimmtudaginn 05. nóvember 1992, kl. 14:29:14 (1922)

     Sigbjörn Gunnarsson :
    Virðulegi forseti. Till. sú sem hér er til umræðu fjallar í raun um að fara skuli fram víðtæk skoðanakönnun um afstöðu kosningabærra manna í landinu til aðildar að hinu Evrópska efnahagssvæði. Hér á undan hefur nokkuð verið vikið að því hvernig 48. gr. stjórnarskrárinnar gerir þjóðaratkvæðagreiðslu óþarfa og hirði ég ekki um að færa frekari rök fyrir því. Því er gjarnan haldið á lofti og kemur raunar fram í áliti 2. og 3. minni hluta allshn. að ef gengið verði til þjóðaratkvæðagreiðslu um aðild að EES, muni þurfa ítarlega kynningu á efni samningsins. Slík kynning hefur þegar farið fram. EES-samningurinn hefur hlotið meiri og almennari kynningu en nokkur alþjóðasamningur sem gerður hefur verið frá stofnun lýðveldisins. Samningaviðræðurnar fóru fram fyrir opnum tjöldum og ég leyfi mér að efast um að nokkurs staðar hafi fjölmiðlar fylgst jafngrannt með gangi mála sem hér á Íslandi og miðlað af þeim fréttum. Auk þess hefur ráðuneyti utanríkismála gefið út bæklinga og dreift á heimili landsmanna og allar frekari upplýsingar verið auðfengnar fyrir þá sem þess óska. Þannig hafa þeir sem hafa viljað haft öll tækifæri til að kynna sér samninginn. Hins vegar er ógerlegt að neyða fólk til að kynna sér umræddan samning og varla trúi ég því að það sé vilji flm. tillögunnar.
    Nú nýlega skýrði góður og gegn þingmaður frá því að eftir nær tveggja ára vandaða athugun á EES-samningnum hefði hann loks komist að niðurstöðu um afstöðu sína. Er af sanngirni hægt að ætlast til þess að þjóðin setji sig af mikilli kostgæfni inn í mál á fáum vikum sem tekur þingmenn allt að tveimur árum að gera þrátt fyrir greiðan aðgang að upplýsingum og áliti sérfræðinga?
    Við síðustu alþingiskosningar var aðild að Evrópsku efnahagssvæði eitt helsta kosningamálið. Eins og menn væntanlega muna var framganga formanns Framsfl. sérdeilis eftirtektarverð í baráttunni fyrir aðild að Evrópsku efnahagssvæði, einkum á síðustu dögum kosningabaráttunnar. Að vísu hefur formaðurinn skipt um skoðun síðan eins og alþjóð veit. Raunar hafa fleiri sporgöngumenn samningsins um hið Evrópska efnahagssvæði frá tíð síðustu ríkisstjórnar snúið við blaðinu og eru nú fráhverfir hinum ágæta samningi sem þeir eiga miklar þakkir fyrir að hafa lagt drög að og verða seint oflofaðir fyrir. Mér segir svo hugur að síðar meir muni að því koma að allir vildu Lilju kveðið hafa.
    Tillagan um þjóðaratkvæðagreiðslu mun hins vegar auðvelda þeim stjórnmálamönnum, sem leikið hafa tveimur skjöldum við meðferð EES-samningsins eftir því hvort þeir hafa verið stuðningsmenn ríkisstjórnar eða ekki, að taka ekki afstöðu til EES-samningsins. Með öðrum orðum, að skjóta sér á bak við það að Alþingi hafi hafnað þjóðaratkvæðagreiðslu og taka því ekki afstöðu til málsins. Það kann að vera þægilegt á stundum að koma sér hjá því að taka afstöðu í viðkvæmum deilumálum en hitt má síðan deila um hversu stórmannlegt það er.
    Virðulegi forseti. Vissulega efast enginn um að Alþingi geti skotið málum til þjóðaratkvæðagreiðslu. Nokkrum sinnum frá stofnun lýðveldisins hafa tillögur þess efnis komið fram en ávallt verið hafnað á hinu háa Alþingi. Ég tel ekki viturlegt að hlaupa til og samþykkja tillögur um þjóðaratkvæði um einstök mál eins og hér er lagt til. Ég hygg að samþykkt tillögunnar muni skapa fordæmi um aukna notkun þjóðaratkvæðagreiðslu. Ég tel varasamt að ana að slíku án fyrirhyggju. Það er t.d. ljóst að vægi atkvæða landsmanna mun verða jafnt og ef mig misminnir ekki, þá er slík hugsun eitur í beinum a.m.k. sumra flutnings- og stuðningsmanna tillögunnar. Í áliti stjórnarskrárnefndar frá 1983 laut ein tillaga að því að tiltekinn hluti kjósenda gæti krafist þjóðaratkvæðagreiðslu. Þá urðu undirtektir litlar ef nokkrar við slík sjónarmið. Það er hins vegar full ástæða til að mínu mati að þingheimur velti rækilega fyrir sér hvort setja beri reglur um þjóðaratkvæðagreiðslu.
    Þau rök eru gjarnan færð fram að samningurinn um hið Evrópska efnahagssvæði hafi svo víðtæk áhrif í þjóðfélaginu að nauðsynlegt sé að bera hann undir atkvæði þjóðarinnar. Vissulega er það rétt að áhrifin eru víðtæk. Hins vegar eru mörg önnur málefni sem að mínu mati hafa ekki síður víðtæk áhrif á daglegt líf fólks í landinu og bæri því að leggja í dóm þjóðarinnar samkvæmt framansögðu. Má þar t.d. nefna lög um stjórnun fiskveiða, landbúnaðarmál og byggðamál. Ef flm. tillögunnar um þjóðaratkvæðagreiðslu um EES-samninginn lýsa því yfir að þeir muni beita sér fyrir að slík málefni, sem ég nefndi hér á undan, verði borin undir þjóðaratkvæði, þá mun ekki standa á mér að endurskoða hug minn til þessarar tillögu. Ef þeir gera það ekki þá leyfi ég mér að álykta sem svo að eitthvað annað búi að baki flutningi tillögunnar en ást á lýðræðinu.