Þjóðaratkvæðagreiðsla um aðild Íslands að Evrópska efnahagssvæðinu

48. fundur
Fimmtudaginn 05. nóvember 1992, kl. 14:35:31 (1923)

     Svavar Gestsson :
    Virðulegi forseti. Það er í sjálfu sér ástæðulaust að orðlengja mikið um þá tillögu sem hér liggur fyrir. Rök með og á móti hafa verið dregin fram en þó eru nokkur atriði úr þeim umræðum sem fram hafa farið hér í dag og sömuleiðis umræðum úti í þjóðfélaginu að undanförnu sem ég tel ástæðu til að staldra við.
    Ég ætla fyrst að benda á þann veruleika í þessu máli að það er stór hluti þjóðarinnar sem vill greiða atkvæði um málið í þjóðaratkvæðagreiðslu. Það getur út af fyrir sig verið að einhverjir í stjórnarliðinu kjósi að hunsa það viðhorf en það er umhugsunarvert engu að síður og ég vona að þeir velti því fyrir sér hvað það þýðir að yfirgnæfandi meiri hluti þjóðarinnar samkvæmt skoðanakönnun vill gjarnan greiða atkvæði um málið í þjóðaratkvæðagreiðslu. Ég vona að við berum öll það mikla virðingu fyrir lýðræði og lýðræðislegum leikreglum að við teljum að þetta atriði skipti máli.
    Við teljum vonandi líka að það skipti máli að forustusveitir Alþýðusambands Íslands, Bandalags starfsmanna ríkis og bæja, Stéttarsambands bænda og Neytendasamtakanna hafa lýst stuðningi við kröfuna um þjóðaratkvæði. Finnst mönnum ekki að það skipti máli? Finnst mönnum að þeir séu í raun og veru það öruggir um sig innan múra valdsins að þeir þurfi ekki að hlusta á þessar kröfur, það skipti í raun og veru engu máli og þurfi ekki að eyða orði að því, hvað þá heldur hugsun, sem hér er á ferðinni?
    Í þriðja lagi liggur það fyrir að 34 þúsund Íslendingar hafa skrifað undir áskorun til Alþingis um að fram fari þjóðaratkvæðagreiðsla í þessu máli. Þeir sem hafna þessum sjónarmiðum á þeim forsendum að þeir séu að verja fulltrúalýðræðið, eins og talsmaður ríkisstjórnarinnar gerði hér í dag, ganga í raun býsna langt. Eru þeir með því að segja að mál, sem yfirgnæfandi meiri hluti þjóðarinnar óskar að segja skoðun sína á, megi aldrei bera undir þjóðaratkvæði? Eru þeir að segja það af því að þar með væri verið að brjóta fulltrúalýðræðið á bak aftur? Eða eru þeir einfaldlega að segja að þeir vilji ekki taka mark á meiri hluta þjóðarinnar? Nei, það getur ekki verið.
    Rökin fyrir því að það þurfi að verja fulltrúalýðræðið halda ekki heldur. Ég tel að ræða hv. 6. þm. Reykv., Sólveigar Pétursdóttur, hér áðan dugi engan veginn í þessu efni vegna þess að auðvitað er það þannig þegar um er að ræða mál af þessu tagi að þá finnast ekki þau rök til verndar fulltrúalýðræðinu sem skapa okkur í raun og veru stöðu til að hafna því að meiri hluti þjóðarinnar fái að segja skoðun á máli sem hann vill segja skoðun á. Þess vegna eru tilraunir hv. 6. þm. Reykv. og hæstv. utanrrh. til að vefja þetta mál í einhverjar lögfræðilegar formúlur tilraunir til þess eins að breiða yfir hinn pólitíska veruleika málsins. Utanrrh. vill ekki leggja málið fyrir dóm þjóðarinnar af því að, eins og hv. 6. þm. Reykv. benti á, þessir þingmenn óttast að dómur meiri hluta þjóðarinnar verði þeim í óhag og það sem verra er og kom fram í ræðu hv. þm., þeir óttast það að ríkisstjórnin, staða hennar og stefna verði dregin inn í umræður um málið. Það er í raun og veru meginástæðan. Og það kom líka fram í ummælum hæstv. forsrh. í fjölmiðlum fyrir nokkru að hann teldi að þjóðaratkvæðagreiðslan í Frakklandi væri sönnun þess að á Íslandi ætti ekki að fara fram þjóðaratkvæðagreiðsla af því að í Frakklandi drógu menn inn í umræðuna um þjóðaratkvæðagreiðsluna hina óvinsælu stjórn Mitterands í Frakklandi. Með öðrum orðum, það eru pólitísk og aftur pólitísk rök og flokkspólitísk þröng sjónarmið sem ráða. Hv. 6. þm. Reykv. getur gleymt allri sinni lögfræði í sambandi við þetta mál. Það er í raun og veru tilraun til þess að drepa málinu á dreif.
    Það er líka fróðlegt, virðulegi forseti, að velta því fyrir sér hvaða flokkar eru það sem hafa alltaf, ég segi alltaf, beitt sér gegn þjóðaratkvæðagreiðslum af því tagi sem við erum að að tala um? Það er Alþfl. og Sjálfstfl. Þannig er það. Staðreyndin er sú að í gegnum áratuga sögu þessara mála hafa Alþb. og Framsfl. í grófum dráttum átt samleið í málum af þessu tagi. Það segir sína sögu að Alþfl. skuli ævinlega þegar á herðir skipa sér hægra megin í átökum íslenskra stjórnmála um úrslitamál af þessu tagi.

    Ég ætla, virðulegur forseti, þessu næst að víkja að þeim rökum öðrum sem hv. 6. þm. Reykv. og fleiri hafa rakið hér.
    Í fyrsta lagi heyrði ég það koma fram hér áðan að þessi mál hefðu legið þannig fyrir síðustu kosningar að þjóðaratkvæði væri ónauðsynlegt. Hvernig liggur það mál við af hálfu okkar alþýðubandalagsmanna? Það liggur þannig að fyrir síðustu kosningar var því lýst yfir af okkur, m.a. af formanni Alþb., að við teldum óhjákvæmilegt að leggja samninginn um Evrópskt efnahagssvæði fyrir dóm þjóðarinnar, fyrir þjóðaratkvæði, ef hann yrði gerður á því kjörtímabili sem þá fór í hönd. Það var því augljóst mál hver okkar afstaða var í þessu efni. Þess vegna er það í raun og veru alveg út í hött að bera fyrir sig þau rök sem hv. 6. þm. Reykv. reyndi áðan.
    Annað atriðið sem hv. þm. reyndi að bera fyrir sig var að ef það yrði samþykkt að hafa þjóðaratkvæðagreiðslu um þetta mál yrði að hafa þjóðaratkvæðagreiðslur um fjöldamörg önnur mál. Hún nefndi sem dæmi: Fiskveiðistefnu, ríkisfjármál, byggðamál. Ég segi: Öll eru þessi mál stór en hvorki eru þau samanlögð né hvert um sig jafnstór og samningurinn um Evrópskt efnahagssvæði. Það er algerlega fráleitt og í raun og veru engin rök til í því að segja að menn séu að ákveða þjóðaratkvæðagreiðslu í þessum málum þó svo menn ákveði þjóðaratkvæðagreiðslu um Evrópskt efnahagssvæði.
    Ein rökin sem hæstv. utanrrh. hefur flutt í þessu máli eru svo þau að málið sé svo flókið að ekki sé hægt að leggja það fyrir þjóðina. Ég tel þetta bæði rétt og rangt. Í rauninni er málið viðamikið. Það er gríðarlega viðamikið og snertir alla þætti íslensks þjóðlífs en það er ekki flókið vegna þess að það er verið að spyrja þjóðina, ef við höfum um þetta þjóðaratkvæðagreiðslu: Eru menn tilbúnir til að samþykkja að ryðja burtu öllum takmörkunum ríkisborgararéttar á fjórfrelsissviðinu á því svæði sem Evrópskt efnahagssvæði nær yfir? Þetta eru öll ósköpin. Þetta liggur þarna fyrir og ekkert annað. Menn geta út af fyrir sig sagt: Þessu fylgja breytingar á lögum um einkaleyfi, breytingar á lögum um staðlaráð, breytingar á lögum um þetta og hitt. Það eru aukaatriði. Lykillinn að þessu fjölmúlavíli sem samningurinn um Evrópskt efnahagssvæði er er alveg skýr. Hann liggur í ákvæðum sem lúta að því að fella niður í raun og veru allar takmarkanir sem byggjast á því að menn noti sinn rétt sem ríkisborgarar tiltekins ríkis. Málið er því í raun og veru nauðaeinfalt.
    Hver eru rökin fyrir því að hafa þjóðaratkvæðagreiðslu um Evrópskt efnahagssvæði að mínu mati? Þau eru aðallega tvíþætt, virðulegi forseti.
    Í fyrsta lagi eru mín rök þau að samningurinn um Evrópskt efnahagssvæði sé stærsta mál sem lagt hefur verið fyrir Alþingi Íslendinga á undanförnum áratugum --- ég hef stundum sagt frá stofnun lýðveldisins --- af því að samningurinn um Evrópskt efnahagssvæði og framkvæmd hans mun í einstökum atriðum snerta öll svið þjóðlífsins: Atvinnuvegi, iðnað, sjávarútveg, landbúnað, fjármálastjórn, menntamál og hvað eina.
    Dæmi: Í iðnn. Alþingis liggur núna fyrir frv. til laga, sem flutt er vegna Evrópsks efnahagssvæðis, um svæðislýsingar smárása í hálfleiðurum og ég veit að þingmenn þekkja alveg í smáatriðum. Hér er um að ræða frv. sem gengur út á að það þurfi að setja sameiginlegar reglur á svæðinu um rétt hönnuða svæðislýsinga sem notaðar eru við framleiðslu smárása í hálfleiðurum. Ég sé það á andliti hvers einasta þingmanns og ekki síst hæstv. umhvrh. að honum er gjörljóst hvaða mál er hér á ferðinni.
    Þetta nefni ég til marks um að samningurinn um Evrópskt efnahagssvæði mun alls staðar koma við í íslenska þjóðfélaginu og það eitt út af fyrir sig eru sjálfstæð rök í málinu.
    Í annan stað tel ég að í þessu máli geti falist fyrsta skrefið inn í Evrópubandalagið. Það er mín skoðun að það sé veruleg hætta á að svo verði.
    Í þriðja lagi tel ég að af þessum ástæðum og öðrum sé það siðferðilegur réttur hvers einasta manns í lýðræðisríki að fá að segja skoðun sína á þessu máli. Þetta eru rök númer eitt. Þetta snertir allt þjóðfélagið, þetta gæti verið fyrsta skrefið inn í Evrópubandalagið og þarna er um að ræða siðferðilegan rétt.
    Auk þess ætla ég að tefla því fram í þessari umræðu, sem hefur kannski ekki komið allt of mikið fram áður, að stjórnarskrá lýðveldisins Íslands gerir ráð fyrir þjóðaratkvæðagreiðslum. Það er beinlínis rangt að stjórnarskráin hafni þjóðaratkvæðagreiðslu. Þvert á móti er það þannig að stjórnarskráin gerir ráð fyrir þjóðaratkvæðagreiðslum með alveg tilteknum hætti.
    Reyndar er það svo að í þremur greinum stjórnarskrárinnar er þjóðaratkvæðagreiðslan nefnd sem óhjákvæmilegt úrræði. Það er í fyrsta lagi þegar forseti Íslands neitar að staðfesta lög sem Alþingi hefur samþykkt. Í öðru lagi þegar um það er að ræða að meiri hluti Alþingis telur að leysa þurfi forseta Íslands frá embætti og það er í þriðja lagi þegar gerðar verði, eins og það er orðað í stjórnarskránni, ,,breytingar á kirkjuskipan landsins``. Með öðrum orðum gerir stjórnarskráin sjálf ráð fyrir þjóðaratkvæðagreiðslum um þessi atriði. Það er því rangt og hættulegur útúrsnúningur af lögfræðingum að halda því fram að stjórnarskráin geri ekki ráð fyrir því að þjóðaratkvæðagreiðslur fari fram.
    Auk þess er það þannig að þegar stjórnarskrá lýðveldisins Íslands var sett ræddu menn um það hvernig ætti að velja forseta. Á að kjósa forseta með kjörmönnum eins og í Finnlandi? Á að kjósa forseta með kjörmönnum eins og í Bandaríkjunum? Eða á að kjósa forseta af Alþingi eins og gerðist þegar Sveinn Björnsson var kosinn forseti í fyrsta skipti? Niðurstaðan varð sú að forseti Íslands ætti að vera þjóðkjörinn. Hver voru rökin fyrir því? Rökin voru þau að með því móti gæti þjóðin veitt sínu eigin þingi aðhald. Þessi sjónarmið komu mjög skýrt fram í ræðum þeirra stjórnarskrárnefndarmanna sem lögðu stjórnarskrárfrv. fyrir á sínum tíma áður en lýðveldið Ísland var stofnað.
    Þess vegna er það algerlega fráleitt og um leið háskalegt þegar einstakir þingmenn, ég tala nú ekki um löglærðir þingmenn, leyfa sér að halda því fram að stjórnarskráin hafni grundvallaratriðum þjóðaratkvæðagreiðslu. Því fer víðs fjarri. Það er af þessum ástæðum, virðulegur forseti, sem tekin er um það ákvörðun í stjórnarskránni að það er ekki ákveðið hér heldur af þjóðinni hver skuli vera forseti Íslands. Það fer fram þjóðaratkvæðagreiðsla um það hver skuli vera forseti Íslands. Þjóðaratkvæðagreiðsla um það hver skuli vera forseti Íslands hefur farið fram fjórum sinnum frá því að lýðveldið var stofnað.
    Þessi veruleiki þar sem Alþingi og stjórnarskrárgjafinn sjálfur kallar þjóðina til með beinum hætti í þremur tilvikum og setur leikreglur sem kallar í raun og veru þjóðina til alltaf þegar valinn er forseti sannar það óvefengjanlega að stjórnarskráin byggist á því að þjóðin sé kölluð til.
    Í erlendum fræðiritum af ýmsu tagi um stjórnarskrár, forsetaembætti og þing er fróðlegt að lesa yfir hvernig útlendir aðilar m.a. skoða íslensku stjórnarskrána. Það er afar fróðlegt að lesa þær úttektir þar sem það undirstöðuatriði kemur m.a. fram að í rauninni er það svo samkvæmt stjórnarskránni að forsetinn á Íslendi hefur mjög mikil völd þó að í veruleika hafi það verið þannig að því valdi hefur ekki verið mikið beitt. En valdið er til staðar. Stjórnkerfi okkar er þess vegna ekki þröngt parlamentarískt kerfi, er ekki þröngt fulltrúalýðræði, heldur er stjórnkerfi okkar það sem kallast á erlendum málum, ,,semiprecidentiell`` eða parlamentarískur dúalismi. Hvað þetta þýðir upp á íslensku nákvæmlega skal ég ekki segja. En það sem verið er að tala um er að þarna eigast við tvö kerfi þar sem er annars vegar þingið og hins vegar þjóðin og stjórnarskráin gerir ráð fyrir því að þau taki þátt í því saman að kveða upp úrskurði í stærstu málum þjóðfélagsins.
    Um þetta hafa verið skrifaðar langar og ítarlegar ritgerðir m.a. af þekktum frönskum sérfræðingi sem heitir Michail Deverges og sömuleiðis af skandinavískum sérfræðingum. M.a. er nýlega komin út bók eftir sænskan sérfræðing í stjórnmálum, stjórnmálafræði og stjórnskipun, sem starfar við háskóla í Stokkhólmi sem prófessor, þar sem hann gerir ítarlegan samanburð á stjórnkerfum Norðurlandanna. Þar er algerlega ljóst að menn telja íslenska stjórnkerfið sérstaklega athyglisvert vegna þess að það er gert ráð fyrir þeim möguleika að þjóðin ekki aðeins kjósi þingið heldur eigi hún það vald sem er fólgið hjá forsetanum eða í þjóðaratkvæðagreiðslum til þess að taka ákvarðanir eða jafnvel til þess að stöðva þingið.
    Þess vegna er nál. 1. minni hluta í hróplegri andstöðu við grundvallarhugsjónir íslensku stjórnskipunarinnar. Það er verri lögfræði en hægt er að ætlast til að menn setji frá sér jafnvel þó þeir séu í þeirri þröngu stöðu að verja andstöðu við þjóðaratkvæðagreiðslu fyrir hönd Sjálfstfl. þar sem menn hafa að vísu leyft sér eitt og annað í gegnum tíðina.
    Þjóðaratkvæðagreiðslur hafa iðulega farið fram á Íslandi fyrr á árum eins og menn þekkja. M.a. um bann eða ekki bann, um þegnskylduvinnu og síðan um stofnun lýðveldis og fleiri þætti. Það er því sterk hefð fyrir því að það fari fram þjóðaratkvæðagreiðsla og ég kem hér upp aðallega, virðulegur forseti, til að undirstrika að það er ekki í andstöðu við stjórnskipun Íslands að hafa þjóðaratkvæði og til að undirstrika að ég tel hættulegt að láta þeim hlutum ómótmælt að stjórnskipun Íslands sé svo þröng og einræðissinnuð að hún útiloki að það geti farið fram þjóðaratkvæði um mál sem er stærsta mál lýðveldisins hvernig svo sem menn skoða það.
    Þess vegna skora ég á þá menn sem hafa verið að velta þessu máli fyrir sér að fylgja sannfæringu sinni, jafnvel þó flokkspressan kunni að hafa verið þung. Ég skora á hæstv. utanrrh., sem er vitur maður, að hugleiða það mjög alvarlega hvort hann er ekki á villigötum, hvort hann er ekki þarna að skapa fordæmi sem gæti verið notað af óvandaðri mönnum en honum þegar fram í sækir í landinu.