Þjóðaratkvæðagreiðsla um aðild Íslands að Evrópska efnahagssvæðinu

48. fundur
Fimmtudaginn 05. nóvember 1992, kl. 15:12:38 (1925)

     Ingi Björn Albertsson :
    Hæstv. forseti. Ég þarf ekki að eyða löngum tíma í þessum ræðustól. Ég undirrita álit 3. minni hluta allshn. ásamt hv. þm. Eyjólfi Konráð Jónssyni. Hann hefur gert ítarlega grein fyrir því áliti og hef ég í rauninni ekki miklu við það að bæta.
    Ég vil hins vegar leyfa mér í upphafi míns stutta máls að spyrja hæstv. utanrrh. hvers vegna sú fyrirstaða er til staðar sem nú er fyrir því að hafa þjóðaratkvæðagreiðslu, hvað það er sem ríkisstjórnin er að forðast, hvers vegna hún hlýðir ekki kalli 34 þúsund Íslendinga sem undirrita áskorun um það að fá að segja álit sitt á málinu. Hvað er í raun og veru að áliti ríkisstjórnarinnar og að áliti þess fagráðhera sem með málið fer í veginum fyrir því að þjóðin fái að segja álit sitt? Ég tel það alveg skilyrðislaust að þjóðin eigi heimtingu á því að fá svar af vörum ráðherra úr þessum stóli.
    Maður hlýtur að spyrja sig: Hafa menn ekki hreina samvisku? Hafa menn ekki sannfæringu fyrir málstaðnum sem þeir eru að boða og vilja að Alþingi samþykki og þjóðin meðtaki síðan? Eru verið að fela eitthvað eða er þetta kannski dómur yfir dómgreind þjóðarinnar? Er henni ekki treystandi til þess að meta málið og taka afstöðu? Ég segi hiklaust: Þjóðin er það vel gefin að hún getur vel tekið afstöðu í þessu máli og hún á að gera það. Hún á að segja sitt álit. Ég ítreka að það álit er ekki bindandi fyrir þingmenn. Þeir eru eftir sem áður bundnir af sinni samvisku og munu láta hana eina ráða. Ég tel því að það sé skilyrðislaus krafa að ráðherrar geri grein fyrir því hvers vegna í ósköpunum þjóðin megi ekki segja álit sitt á málinu.
    Það er athyglisvert að lesa DV í dag. Þar er birt skoðanakönnun þar sem fram kemur í fyrirsögn að þrír af hverjum fjórum vilji þjóðaratkvæði um EES. Það er ekkert smáræði. Er nú ekki allt í lagi að ráðherra hlusti aðeins á rödd þjóðarinnar? ( Gripið fram í: Breytir það samviskunni?) Það hefur aldrei verið talinn löstur að hlusta á álit fólks og það held ég að klerkastéttin viti vel og hlusti eftir og móti sér svo skoðanir í framhaldi af því. Það getur því vel breytt skoðunum manna, hv. þm.
    Sú skoðanakönnun sem birtist í DV í dag er afar athyglisverð. Ef aðeins eru teknir þeir sem taka afstöðu, þá eru 75,7% fylgjandi þjóðaratkvæði um samninginn en andvígir eru aðeins 24,3%. Þetta er athyglisverð niðurstaða. Ef litið er á þá sem styðja EES-samninginn kemur í ljós að 46,9% þeirra sem styðja hann eru einnig fylgjandi þjóðaratkvæðagreiðslu. Þeir vilja fá að tjá sig í þjóðaratkvæðagreiðslu. Það er alveg ljóst að vilji þjóðarinnar til þess að fá að tjá sig um málið er skýr og klár. Ég tel að Alþingi eigi að hlusta á rödd þjóðarinnar og það eigi að gefa þjóðinni kost á að tjá sig.
    Ummæli fólks í könnuninni eru líka athyglisverð og þau taka fyllilega undir það nefndarálit sem 3. minni hluti leggur fram þar sem 3. minni hlutinn hvetur til þess að ítarlegri kynning fari fram á samningnum þar sem bæði kostir og gallar eru kynntir. 3. minni hluti vill einnig að það sé alveg skýrt fyrir þjóðinni hverjar eru afleiðingar þess að hafna samningnum. Við viljum fá alla myndina. Það sem við viljum að þjóðinni verði ljóst er hvernig þjóðfélag við erum að búa til hér, hvernig þjóðfélagsmyndin verður. Þegar menn gera sér grein fyrir því er hægt að taka afstöðu til þessa máls en ekki fyrr. Það á ekki að leika sér að framtíð þjóðarinnar. Það á ekki að taka áhættu og uppgötva það svo einn góðan veðurdag hvað felst í raun og veru í öllum EB-tilskipunum, reglugerðum, lögum, dómum og öðru slíku sem við núna vitum kannski ekkert um. Við eigum bara að upplifa það eftir nokkur ár hvað í þeim felst. Við eigum ekki að taka áhættu með íslenskt þjóðfélag. Þess vegna á kynningin að vera ítarleg og hún á að vera á báða vegu, bæði kostir og gallar tíundaðir. Öðruvísi er ekki hægt að mynda sér skoðun á málinu.
    Ummæli fólks í könnuninni eru m.a. með leyfi forseta: ,,Ég get ekki tekið afstöðu til EES núna. Ég vil mun meiri upplýsingar``, sagði kona á Austurlandi. ,,Maður stendur á gati því það veit enginn neitt um EES``, sagði kona á Norðurlandi. Svo var hv. þm. Sigbjörn Gunnarsson áðan að tala um að allítarleg kynning hafi farið fram. Ég er svolítið smeykur um að hún hafi verið of einhliða.
    Ég ætla að lesa fleiri tilvitnanir í ummæli fólks, með leyfi forseta: ,,Ég vil fá örugga fræðslu um EES áður en ég tek afstöðu``, sagði kona á Vesturlandi. Og síðasta tilvitnunin: ,,Þjóðin þurfti að hafa mikið fyrir því að brjótast undan yfirráðum Dana. Íslendingar eru bara peð í stórum veraldarleik og við þurfum að vera varkárir í alþjóðasamningum.`` Þetta sagði níræð kona á höfuðborgarsvæðinu. Ég held að það

sé vel við hæfi að á þessar raddir sé hlýtt.
    Hér hefur aðeins verið minnst á fulltrúalýðræði. Ég ætla ekki að fjalla um það. Ég vil bara segja að ég lít á það sem fulltrúalýðræði að fulltrúarnir geti tekið afstöðu til þess og ákveðið að leita eftir áliti þjóðarinnar. Ég tel það hluta af fulltrúalýðræðinu. Því er ekkert verið að fara á skjön við fulltrúalýðræðið þó að menn samþykki að hlusta á rödd þjóðarinnar enda veit ég ekki betur en það tíðkist víða um land í sveitarfélögum. Ég veit ekki betur en það hafi verið leitað eftir áliti fólks á hundahaldi, opnun áfengisverslunar og fleiru. Þetta er því til í smærra mæli.
    Að menn séu að bregðast skyldu sinni við að taka afstöðu í þessu máli er alrangt. Það kom fram hjá frsm. 1. minni hluta. Það er bara alrangt. Það er enginn að bregðast skyldu sinni. Það er aðeins verið að leita eftir áliti þjóðarinnar til þess að hjálpa mönnum við að mynda sér skoðun, ef þeir hafa ekki þegar gert það, en fyrst og fremst að leyfa þjóðinni að tjá sig. Það er málið. Ég vil gjarnan að það komi fram hvað mína afstöðu varðar til EES, að hún kemur engan veginn fram með því að ég styðji tillögu um þjóðaratkvæði. Það hefur ekkert með afstöðu mína til málsins eða samningsins sem slíks að gera. Hér er hins vegar um svo stórt mál að ræða að við verðum að hlusta.
    Auðvitað er fjölmörgum spurningum ósvarað sem þarf að upplýsa fólk um. Það þarf að upplýsa fólk um hverjar afleiðingarnar eru. Erum við að skerða dómsvald? Erum við að skerða löggjafarvald? Erum við að skerða fullveldið? Eru við að brjóta stjórnarskrána? Hvernig hafa hinir ýmsu afmörkuðu þættir áhrif á þjóðlífið?
    Þessa stuttu ræðu, hæstv. forseti, vildi ég flytja. Ég sagði í upphafi að hv. þm. Eyjólfur Konráð Jónsson hefði þegar farið yfir okkar sameiginlega nefndarálit. Við það hef ég ekki miklu meiru að bæta öðru en því sem ég hef nú sagt.