Þjóðaratkvæðagreiðsla um aðild Íslands að Evrópska efnahagssvæðinu

48. fundur
Fimmtudaginn 05. nóvember 1992, kl. 15:46:42 (1931)

     Utanríkisráðherra (Jón Baldvin Hannibalsson) (andsvar) :
    Virðulegi forseti. Ég er feginn að menn játa greiðlega að sú till. sem hér liggur fyrir er ekki tillaga um þjóðaratkvæðagreiðslu heldur um það að fram fari skoðanakönnun sem hefur aðeins ráðgefandi gildi eins og aðrar skoðanakannanir.
    Í annan stað er spurt: Vill ráðherra ekki að þjóðin hafi síðasta orðið um samninginn? Jú, hann bæði vill og er sannfærður um að hún hefur það. Það er óhagganleg staðreynd að þeir stjórnarflokkar sem nú mynda meiri hluta á Alþingi Íslendinga gengu til seinustu kosninga um það mál efst á blaði að lúka þessum samningi og fengu til þess meiri hluta þjóðarinnar.
    Í annan stað: Það var frá því gengið og þannig um hnúta búið að það er uppsagnarákvæði í samningnum sem beita má hvenær sem er. Að fenginni tveggja ára reynslu af samningnum, ef menn telja erfitt að þekkja raunverulegt inntak hans nema af fenginni reynslu, mætti t.d. hugsa sér að spyrja þjóðina beinlínis að því í næstu kosningum hvort hún vilji að þessu uppsagnarákvæði verði beitt.
    Hv. þm. sagði að það hefði verið villandi í mínu máli --- að fullvalda þjóð geti alltaf rift alþjóðasamningum. Það er ekki algilt. Ef við lítum t.d. á þá samninga sem þjóðaratkvæðagreiðslur hafa gengið um samkvæmt stjórnskipunarreglum í Evrópubandalagsríkjum eins og Danmörku að því er varðar afstöðuna til Maastricht-samningsins, felur hún í sér framsal á valdi þjóðríkis öfugt við þennan samning og er bindandi og varanlegur og erfitt að snúa til baka af þeirri braut.