Þjóðaratkvæðagreiðsla um aðild Íslands að Evrópska efnahagssvæðinu

48. fundur
Fimmtudaginn 05. nóvember 1992, kl. 16:18:45 (1941)

     Kristinn H. Gunnarsson (andsvar) :
    Virðulegi forseti. Það kom mjög skýrt fram í ræðu hv. 6. þm. Reykv. að það sjónarmið kom fram í nefndarálitinu að til þess að taka ákvörðun um EES þurfi menn umboð frá kjósendum. Það umboð hlýtur að markast af þeirri stefnu sem þeir lögðu fyrir kjósendur. Hv. 6. þm. Reykv. las upp þá stefnu, bæði úr samþykktum Sjálfstfl. og yfirlýsingu ríkisstjórnarinnar, sem er að samningurinn verði að uppfylla það skilyrði að tryggja hindrunarlaus viðskipti með fisk. Það gerir samningurinn ekki. Það er óumdeilt. Það þýðir að ríkisstjórnin og þingmenn hennar hafa ekki umboð til að afgreiða þennan samning samkvæmt eigin skilningi. Fróðlegt væri að fá röksemdir frá hv. 6. þm. Reykv. fyrir því hvernig þingmenn ætli sér að taka afstöðu og ljúka málinu umboðslausir.
    Ég bendi líka á að það er rétt að ef menn samþykkja þá till. sem hér liggur fyrir felst í því breyting á stefnu. Það skapar fordæmi. En það skapar líka fordæmi að hafna tillögunni. Það skapar fordæmi upp á síðari tíma, upp á enn stærri samninga sem hingað kunna að koma eins og t.d. samningur um aðild Íslands að EB.
    Það kemur skýrt fram í áliti 1. minni hluta að þeir eru á móti því að brjóta íslenska stjórnskipunarhefð. Það þýðir að þeir eru væntanlega á móti því að samningur um aðild Íslands að EB verði borinn undir þjóðina ef til þess kemur.