Þjóðaratkvæðagreiðsla um aðild Íslands að Evrópska efnahagssvæðinu

48. fundur
Fimmtudaginn 05. nóvember 1992, kl. 17:45:14 (1961)

     Ragnar Arnalds :
    Virðulegi forseti. Það eru sjö EFTA-ríki sem standa að samningnum um Evrópskt efnahagssvæði. Í fjórum þessara ríkja eru ákvæði í stjórnarskrá þar sem krafist er aukins meiri hluta á þingi við framsal valds til alþjóðlegra stofnana. Í Noregi þarf 3 / 4 hluta greiddra atkvæða. Í Finnlandi og Austurríki þurfa tveir þriðju þingmanna að greiða því atkvæði og í Svíþjóð þarf 5 / 6 hluta greiddra atkvæða. Þar er að vísu umdeilt hvort ákvæðið eigi við í þessu tilviki en sá ágreiningur skiptir ekki máli, því þar liggur fyrir að 5 / 6 hlutar eru fylgjandi þessu máli. Í tveimur ríkjum, Sviss og Liechtenstein, fer fram þjóðaratkvæðagreiðsla. Ísland er eina ríkið af þessum sjö þar sem hvorki eru ákvæði í stjórnarskrá um aukinn meiri hluta atkvæða á þingi né ákvæði um þjóðaratkvæðagreiðslu í slíkum tilvikum. Hæstv. utanrrh. hefur lýst yfir að þessi samningur sé einn sá veigamesti og örlagaríkasti sem Íslendingar hafa gert. Samt er það ætlun hæstv. ríkisstjórnar að keyra málið í gegn með knöppum meiri hluta án þess að fallist sé á frv. stjórnarandstöðunnar um aukinn meiri hluta og án þess að þjóðaratkvæðagreiðsla fari fram og það jafnvel þótt endurteknar skoðanakannanir sýni að mjög er óljóst um vilja þjóðarinnar í þessu máli. Hitt er aftur á móti ótvírætt að yfirgnæfandi meiri hluti landsmanna telur rétt að þjóðin fái að fella sinn dóm.
    Ég mótmæli vinnubrögðum hæstv. ríkisstjórnar í þessu örlagaríka máli. Ég segi já.