Rannsókn á afleiðingum atvinnuleysis

49. fundur
Mánudaginn 09. nóvember 1992, kl. 13:53:12 (1965)

     Elín R. Líndal :
    Virðulegi forseti. Hér er hreyft ákaflega mikilvægu máli og vil ég lýsa stuðningi mínum við það. Ég er þeirrar skoðunar að atvinnuleysi sé þjóðfélaginu ákaflega dýrt, bæði beint og óbeint. Það er ekki eingöngu hægt að setja punkt á eftir atvinnuleysisbótunum fyrir þá einstaklinga sem eru svo heppnir í óheppni sinni að eiga rétt á þeim. Það verða líka aukin útgjöld í heilbrigðiskerfinu þegar líkamlegt og andlegt þrek þrýtur hjá þeim aðilum sem búið er að skapa það þjóðfélag að ekki er pláss fyrir þá í atvinnulífinu.
    Einn þátturinn er það böl sem fylgir atvinnuleysi, t.d. aukin hætta á upplausn heimilanna, aukin vímuefnaneysla og afbrot. Það er til fólk, t.d. ungt fólk, sem finnst ekkert pláss fyrir það í þjóðfélaginu og fyllist réttlátri reiði. Það gengur um götur og hefur ákaflega lítið við að vera. Aðgerðarleysið brýst út í hinum ýmsu myndum. Það myndast hópar sem hafa ýmis öfgamál sem sérstök baráttumál. Því miður segir það manni að þetta er orðið til í þjóðfélaginu eins og það er núna. Ég tel framtíðarsýn ungs fólks í dag sem er að koma út á vinnumarkaðinn ekki mjög bjarta.
    Ég ætla aðeins að koma inn á þáltill. Í tillögunni er segir m.a. að rannsóknin skuli við að leitast við að leiða fram upplýsingar um áhrif atvinnuleysis á almenn kjör barna, kvenna, unglinga og annarra hópa sem atvinnuleysi kemur sérstaklega illa við. Ég tel vanta einn hóp í upptalninguna. Ég tel atvinnuleysi ekki síður hafa áhrif á karlmenn en aðra hópa. Við höfum byggt þetta þannig upp og erum ekki lengra komin en svo að þeir hafa margir enn þá þá trú að þeir séu aðalfyrirvinnur heimilanna. Ég tel því áhrif atvinnuleysis virka mjög niðurdrepandi á þennan hóp. Þess vegna tel ég ekki síður þörf á að þeir séu með í þessari upptalningu einfaldlega á þeim forsendum að ég tel áhrif atvinnuleysis ekki síður vega þungt hjá þeim þó ég taki undir þá skoðun flm. að atvinnuleysi komi mjög illa við þá hópa sem hann telur sérstaklega upp.
    Í fylgiskjölum með þáltill. eru atvinnuleysisskráningar. Eins og fram hefur komið kemur hið alvarlega dulda atvinnuleysi, sem til er í þjóðfélaginu, ekki fram í þeim. Stór hópur manna á ekki rétt á atvinnuleysisbótum. Svo eru líka það fólk sem skráir sig ekki strax þegar það missir vinnuna, meðan fólk trúir ekki að það sé orðið algjörlega atvinnulaust og reynir fyrst að útvega sér atvinnu. Þegar upp er staðið er það búið að tapa niður svo og svo mörgum tímum sem það þarf að skila til þess að eiga rétt á atvinnuleysisbótum. Þetta safnast mjög fljótt upp og hverja viku eða mánuð sem fólk trúir ekki að það þurfi að fara niður á skrifstofurnar og standa frammi fyrir þessu tapar það tíma.
     Þetta er vandræðakerfi sem við búum við og ekki að ástæðulausu sem þetta fólk hefur stofnað sín samtök og er vonandi að það hjálpi þeim sem bágt eiga í þessum málum.
    Ég lýsi aftur stuðningi mínum við tillöguna. Ég bind vonir við að rannsókn eins og sú sem hér er lögð til auki skilning manna á aðstöðu þeirra sem atvinnulausir eru og er ekki vanþörf á.