Rannsókn á afleiðingum atvinnuleysis

49. fundur
Mánudaginn 09. nóvember 1992, kl. 13:58:32 (1966)

     Drífa Hjartardóttir :
    Virðulegi forseti. Öflugt atvinnulíf er undirstaða velferðar í landinu og það er efnahagslegra og fjárhagslegra mikilvægara en nokkuð annað. Á grundvelli þess rís samfélag menningar og mannúðar. Vinnan göfgar manninn og veitir honum gleði. Að hafa góða og trausta vinnu veitir öllum vissa lífsfyllingu, þegar menn finna að það er þörf fyrir vinnuafl þeirra og þeir sjá um leið sjálfum sér og fjölskyldu sinni farborða. Íslendingar hafa ekki þurft að glíma við verulegt atvinnuleysi áratugum saman og við höfum verið mjög stolt af þeirri sérstöðu okkar meðal nágrannaþjóðanna. Unglingarnir okkar hafa getað fengið störf í atvinnulífinu og verið þar alvöruþátttakendur. Það er því afar mikilvægt að þeir fái störf við sitt hæfi þegar þeir koma út á vinnumarkaðinn.
    Því miður dynja yfir okkur fréttir alls staðar að af landinu þar sem verið er að segja fólki upp störfum svo tugum skiptir. Því miður virðist sem atvinnuleysið sé að verða viðurkennt sem viðvarandi ástand í landinu þar sem Þjóðhagsstofnun gerir ráð fyrir 3,4% atvinnuleysi á næsta ári. En þetta er ekki alvont því við heyrum líka í fréttum að það vanti fólk til starfa víða á landsbyggðinni t.d. á Dalvík.
    Atvinnuleysið er áhyggjuefni því það á sér marga drauga sem verður að kljást við. Þessir draugar nefnast vanmáttur, kvíði, ótti og sjálfsfyrirlitning. Það er erfitt að horfa upp á fullfrískt fólk finna fyrir vanmætti sínum og verða að viðurkenna þá staðreynd að það getur ekki lengur unnið fyrir daglegum nauðsynjum, verður að þiggja atvinnuleysisbætur og leita á náðir stofnana þegar allt um þrýtur. Það er því afar mikilvægt að gera sér grein fyrir því hve atvinnuleysið er viðamikið og hverjar afleiðingar þess eru.
    Það eru margir óvissuþættir þegar rætt er um tölu atvinnulausra. Má þar nefna dulið atvinnuleysi meðal bændafólks, en engar upplýsingar liggja fyrir um hve marga einstaklinga sé þar að ræða. Bændur eiga engan rétt á atvinnuleysisbótum þrátt fyrir þá staðreynd að síðan 1991 hafa þeir greitt iðgjald af launum sínum. Réttindi og skyldur verða að fara saman og verður því annaðhvort að afnema greiðsluskyldu bænda í Atvinnuleysistryggingasjóð eða veita þeim rétt til bóta.
    Við núgildandi búvörusamning um mjólkurframleiðslu undirrituðu þáv. fjmrh. og landbrh. bókun þar sem fram kemur að þeir séu sammála um að skilgreina beri rétt bænda til atvinnuleysisbóta og launatryggingar vegna gjaldþrota í samræmi við álagt tryggingagjald. Þó bændafólk sé atvinnulaust getur það hvergi skráð sig atvinnulaust vegna þess að réttur þess til bóta hefur ekki verið skilgreindur. Ættu ekki þeir að eiga rétt til bóta sem hafa hætt búrekstri eða orðið að draga verulega saman starfsemi sína vegna óviðráðanlegra utanaðkomandi orsaka eða þeir sem hafa selt greiðslumark sitt og ekki fengið vinnu vegna samdráttar í þjóðfélaginu, þeir sem hafa selt hluta fullvirðisréttar eða orðið fyrir svo mikilli niðurfærslu fullvirðisréttar að bú þeirra er komið niður fyrir ákveðna lágmarksstærð. Aðeins þeir sem eru í stéttarfélagi hafa rétt til bóta og er það í rauninni einsdæmi meðal lýðræðisþjóðfélaga.
    Á landsbyggðinni er einnig töluvert dulið atvinnuleysi meðal kvenna. Nú eru að fara af stað námskeið í öllum kjördæmum á vegum Iðntæknistofnunar sem er allverulega styrkt af félmrn. þannig að kostnaður þátttakenda verður í lágmarki. Markmið þessara námskeiða er að efla og bæta stöðu landsbyggðarkvenna á vinnumarkaði, m.a. vegna þess að konum bjóðast færri atvinnutækifæri en körlum. Það á að benda konum á leiðir til að velja og vinna úr hugmyndum um eigin atvinnumöguleika og gera konum kleift að taka virkan þátt í atvinnuuppbyggingu í heimabyggð og þjálfa þær í markvissum vinnubrögðum og ekki hvað síst að efla þeim sjálfstraust. Konur munu þarna fá hagnýtar upplýsingar um virðisaukaskatt, en hann er þyrnir í augum margra kvenna. Á þessum námskeiðum munu þær einnig fá upplýsingar um sjóði og aðrar hagnýtar upplýsingar.
    Atvinnulífið á Íslandi hefur því miður einkennst af kjarkleysi og það er kominn tími til að efla þor og dug með þjóðinni. Við eigum mikla möguleika ef við kunnum að nýta okkur þá. Ísland er auðugt land og á að hafa alla burði til að standa undir góðum lífskjörum.
    Við höfum borið okkur saman við OECD-löndin sem eru tekjuhæstu þjóðir heims. Í þeim samanburði höfum við dregist aftur úr undanfarin ár og munum halda því áfram ef ekki verður breyting á þeim hægagangi sem íslenskt atvinnulíf hefur verið í. Það þarf að setja fram djörf markmið um framþróun í atvinnumálum. Það sem er sýnilegt í dag er nýtt álver, sem mun gefa nokkur hundruð manns störf, og sala á orku úr landi. En við eigum mikla orku óbeislaða í fallvötnum og jarðhita. Talið er að ferðaþjónustan geti á næstunni bætt við sig 2.000 nýjum störfum.
    Það er nauðsynlegt að örva nýsköpun og frumkvæði í íslensku atvinnulífi með því að styrkja og efla þá einstaklinga sem hafa yfir að ráða markaðshæfum nýjungum. Við þurfum að nýta okkur íslenskt hugvit og efla með okkur samkennd og þá vitund að velja það sem íslenskt er. Við getum ekki ætlast til þess að aðrir beri virðingu fyrir því sem við höfum upp á að bjóða ef við gerum það ekki sjálf. Við megum aldrei gleyma því að með því að kaupa íslenska vöru erum við að skapa löndum okkar atvinnu og við eigum að hlúa að því sem fyrir er.
    Athyglisverðar aðgerðir í samvinnu ríkis og sveitarfélaga koma til með að tryggja jafnvel þúsund manns atvinnu. Þessar aðgerðir felast í því að ríkisvaldið hverfur frá því að hætta við endurgreiðslu virðisaukaskatts og sveitarfélögin greiði í staðinn 500 millj. kr. í Atvinnuleysistryggingasjóð sem notaður verður í verkefni á vegum sveitarfélaganna.
    Ég hef trú á því að ef við snúum vörn í sókn og hættum öllu bölsýnistali þá muni okkur ganga vel.