Rannsókn á afleiðingum atvinnuleysis

49. fundur
Mánudaginn 09. nóvember 1992, kl. 14:30:42 (1975)

     Steingrímur J. Sigfússon (andsvar) :
    Hæstv. forseti. Hæstv. forsrh. kom hér upp og staðfesti það sem ég hafði réttilega eftir honum. Það fyrsta sem hann hafði fram að færa í þessari umræðu voru ummæli hans um að Atvinnuleysistryggingasjóður væri ekki nálægt því nógu öflugur og það væri mikill skaði því að nú þyrfti hann að greiða mikið af atvinnuleysisbótum. Þessi staðreynd verður ekki hrakin. Þetta var það fyrsta og væntanlega það mikilvægasta sem hæstv. forsrh. hafði fram að færa í þessari umræðu.
    Varðandi nýjan og gamlan stíl þingmanna hvort sem þeir eru í stjórn eða stjórnarandstöðu mætti ýmislegt um ræða við hæstv. forsrh. við tækifæri. Það er auðvitað alveg ljóst að núv. stjórnarandstaða hefur gagnrýnt hæstv. ríkisstjórn harðlega í þeim tilvikum þar sem hún er gagnrýni verð. Það hefur ekkert breyst, hæstv. forsrh. Það er einhver veraldarinnar misskilningur ef hæstv. forsrh. heldur að búið sé að leggja það af að gagnrýna hæstv. ríkisstjórn þar sem hún stendur sig illa.
    Því miður er það þannig að hæstv. ríkisstjórn stendur sig svo víða illa að stór hluti af málflutningi manna hér á þinginu hefur farið í réttmæta gagnrýni á hæstv. ríkisstjórn. Hér er verið að ræða og gagnrýna einn þann þátt þar sem hæstv. ríkisstjórn hefur ekki staðið sig nógu vel, þ.e. hæstv. ríkisstjórn hefur horft á atvinnuleysi vaxa mánuð af mánuði, missiri eftir missiri og er orðið það mesta um áratuga skeið nú án þess að hafa í raun og veru lagt nokkurn skapaðan hlut fram í þeim efnum.
    Það var þetta sem ég var að vekja athygli á, að hæstv. forsrh. kaus ekki að nota ræðutíma sinn til þess að lýsa stefnu ríkisstjórnarinnar varðandi vaxandi atvinnuleysi, ekki til að tala fyrir tillögum eða úrræðum, heldur ræddi um fortíðina, um fjárhagsvanda Atvinnuleysistryggingasjóðs og aðra slíka hluti og sökin var allra annarra en hæstv. forsrh. sjálfs og ríkisstjórnar hans.