Rannsókn á afleiðingum atvinnuleysis

49. fundur
Mánudaginn 09. nóvember 1992, kl. 14:48:52 (1978)

     Utanríkisráðherra (Jón Baldvin Hannibalsson) :
    Virðulegi forseti. Það er í alla staði eðlilegt að fram fari á Alþingi Íslendinga alvarleg umræða um atvinnuástandið, eðlilegt að menn lýsi áhyggjum sínum yfir því hvað kunni að vera fram undan og þess væri að vænta að fulltrúar þingflokkanna á Alþingi væru reiðubúnir til þess að reifa hugmyndir sínar um það hvað sé til ráða.
    Ég held að við bætum okkur ekki á því að ræða þetta mál á þeim forsendum að ástandið hér á landi sé að kenna vondri ríkisstjórn. Það sé við því að búast að í ljósi einhverrar hægri stefnu, eða ef menn vilja nota aðra frasa, hinnar köldu frjálshyggju, sé ástandið svona slæmt á Íslandi.
    Það er staðreynd að ríkisstjórnir á Norðurlöndum hafa á undanförnum árum lagt sig fram um að halda atvinnuleysi lægra en víðast hvar annars staðar í Vestur-Evrópu og yfirleitt tekist það. Það hefur verið markmiðssetning þeirra. Það er vitað að ríkisstjórnir á Norðurlöndum, og þá er ég ekki eingöngu að vitna til jafnaðarmannastjórnanna, hafa rekið mjög virka vinnumarkaðspólitík og beitt margvíslegum ráðstöfunum til að draga úr atvinnuleysi. Þannig er staðreynd ef við lítum til landa eins og Svíþjóðar og Noregs að verulegum fjármunum hefur verið varið til þess að standa undir kostnaði við starfsþjálfun og endurmenntunarnámskeið í því skyni að vinna bug á atvinnuleysi sem verður til við samdrátt í atvinnulífinu.
    Hv. frsm. nefndir nokkrar tölur um atvinnuleysi á Íslandi og í öðrum löndum. Nefndar voru tölurnar 5,5% í Noregi, 6% í Svíþjóð, 11--12% í Danmörku, 15% í Finnlandi, og mætti bæta við 20% á Írlandi, og meðaltal í Evrópubandalagslöndunum 9% o.s.frv. Þessar tölur segja ekki annað en það að í samanburði við löndin í kringum okkur er það svo sem betur fer að atvinnuleysi er miklu minna hér á landi en annars staðar. Ætla menn þá að álykta út frá því að það sé vegna þess að ríkisstjórn á Íslandi sé svo miklu betri en annars staðar? Væntanlega ekki. ( Gripið fram í: Það sækir í verra horf.) Já, já, við höfum af því áhyggjur að það sæki í verra horf. En ef við notum þessa mælikvarða er niðurstaðan sú að sem betur fer þá hefur okkur hér á landi tekist betur en jafnvel í Noregi eða Svíþjóð að verjast atvinnuleysinu.
    Ég geri ekki kröfu til þess fyrir hönd ríkisstjórnar eða stjórnarflokka að stjórnarandstæðingar komi hér upp og hæli ríkisstjórninni af þeim sökum vegna þess að þetta er ekki meginatriði málsins. Við bætum okkur ekki á því að ræða það á slíkum samanburðargrundvelli út af fyrir sig. Hinar eðlilegu spurningar eru þessar: Atvinnuleysið og horfurnar á vaxandi atvinnuleysi á Íslandi eru ekkert sérstakar fyrir Ísland. Við verðum að átta okkur á því að Ísland er partur af hinu alþjóðlega hagkerfi. Við höfum orðið fyrir sérstökum áföllum en þjóðirnar í kringum okkur hafa orðið að una því að atvinnuleysið þar er nú þegar orðið miklum mun meira. Þegar skyggnst er bak við tölurnar t.d. í Skandinavíu, þ.e. í Noregi og Svíþjóð, hafa menn rökstutt það mat að atvinnuleysi sé í raun og veru milli 8 og 9% ef fullt tillit væri tekið til þess sem lagt er fram af hálfu stjórnvalda í formi starfsþjálfunar.
    Spurningin er út af fyrir sig ekki þessi: Vond eða góð ríkisstjórn? Spurningin er: Hver eru úrræðin? Þá held ég að menn bæti sig heldur ekki á því að búa til einhverja einfalda svarthvíta mynd og segja sem svo: Annars vegar eru þau sjónarmið að gera ekki neitt. Hver maðurinn á fætur öðrum hefur leyft sér að láta í ljós það mat sitt að hér sé ríkjandi af hálfu stjórnvalda sú stefna í atvinnumálum að hafast ekki að. Þeir sem til þekkja í íslensku atvinnulífi vita auðvitað að þetta er fjarstæða. Af þeirri einföldu ástæðu að hlutur hins opinbera, ríkis og sveitarfélaga, í íslensku atvinnulífi er mikill og má nefna mörg dæmi um það. Við skulum taka sem dæmi að það er sérstaða í íslensku atvinnulífi að fjármálakerfið, og á það bæði við um banka og sjóðakerfi, er yfirleitt í opinberri eigu og rekið á ábyrgð ríkisins. Hlutfall ríkisábyrgða vegna fjárfestinga í atvinnulífi er gríðarlega hátt. Þannig má mæla í milljörðum og aftur milljörðum beint framlag hins opinbera til atvinnustefnu á Íslandi. Meira að segja í mörgum tilfellum langt umfram það sem tíðkast hjá öðrum þjóðum.
    Til eru þeir menn, sjálfskipaðir talsmenn hluta atvinnulífsins, sem hafa komið fram með kröfur um að þessi vandamál eigi að leysa með meiri háttar gengisfellingu. Það er kjarni málsins að fulltrúum stjórnarflokkanna, fulltrúum ríkisstjórnarinnar og fulltrúum aðila vinnumarkaðarins flestöllum ber saman um að nú beri okkur að taka höndum saman til að koma í veg fyrir að til slíks óráðs verði gripið. Það er auðvelt að sýna fram á að gengisfelling við þessar kringumstæður gerir ekki einasta illt verra heldur yrði beinlínis til að ríða baggamuninn um það að kollvarpa þeim skuldugu fyrirtækjum sem verst eru sett á Íslandi.
    Þær aðgerðir sem nú eru til umræðu milli aðila vinnumarkaðar og stjórnvalda og ræddar verða þegar þar að kemur áfram við fulltrúa stjórnarandstöðuflokkanna snúast um að varðveita þann árangur sem náðst hefur á undanförnum árum í íslensku efnahagslífi. Að varðveita þann árangur sem felst í stöðugleika til frambúðar. Að varðveita kosti þess að hafa hér lægri verðbólgu en í öðrum löndum. Að gera betur en okkur hefur tekist að svo stöddu í að styrkja þennan stöðugleika með aðhaldsaðgerðum í ríkisfjármálum. Um það snúast þessar aðgerðir. Fyrir utan að beita verður sérstökum sértækum aðgerðum til að ráðast að rótum vandans sem er uppsafnaður skuldavandi sjávarútvegsins frá fyrri tíð.
    Við erum með öðrum orðum á sama báti og þjóðirnar í kringum okkur. Ef við lítum á það sem jákvætt er og það sem neikvætt er sjáum við að á suma mælikvarða hefur okkur tekist betur en öðrum. Það er vegna þess að atvinnuleysið er hér lægra en annars staðar. Það er vegna þess að verðbólga er hér lægri en annars staðar. Það er vegna þess að innbyggður hallarekstur í ríkisbúskapnum er þrátt fyrir allt minni hér en t.d. í þeim löndum sem við þurfum helst að bera okkur saman við. Ég skal nefna sem dæmi Svíþjóð þar sem stefnir í að halli í ríkisbúskapnum á árinu 1992 nemi um 180 milljörðum kr. og sé yfir 7% af þjóðarframleiðslu. Við erum að basla við 6 milljarða halla, sem er of hár, og hlutfallstölur 1,5--2,5% af þjóðarframleiðslu, svo ég nefni viðmiðun.
    Það sem nú þarf að gerast er að það takist sem allra víðtækust samstaða meðal þjóðarinnar um að varðveita þann árangur sem náðst hefur og um að koma því til skila að menn mega ekki vanmeta þennan árangur. Menn mega ekki fórna honum í nafni einhverra heilagsandahoppara sem halda að þeir geti leyst þessi vanamál með patentlausnum og allra síst þeirra sem boða fortíðarúrræðin um gengisfellingu þegar vandinn er fyrst og fremst þessi: Við erum í samdrætti í hinu alþjóðlega hagkerfi. Það bitnar á okkur. Í annan stað erum við með sérstakt vandamál í sjávarútvegi sem er fyrst og fremst í því fólgið að sá afli sem á land berst, og ég er ekki bara að vitna til aflaheimilda heldur raunverulegra veiða, er miklum mun minni en hann var fyrir fáeinum árum síðan. Og skyldi engan undra að það reyni á í atvinnulegu tilliti þegar slíkt ástand bætist við samdráttarskeið sem búið er að standa í fimm ár og er einfaldlega að rekja til þess að við erum komin yfir endimörk vaxtar í sjávarútvegi og okkur hefur ekki tekist að ná fram þeim lausnum sem við stefndum að sem var að semja við erlenda fjármagnseigendur um nýtt átak í virkjunarmálum og nýja álbræðslu á Íslandi.
    Ef hvort tveggja væri til staðar, þ.e. að ekkert sérstakt vandamál væri við að fást í sjávarútvegi, þ.e. ekki hefði orðið þessi raunverulegi aflabrestur, eða að tekist hefði að ná þeim samningum sem við stefndum að en raunverulega hafa frestast vegna samdráttarins í hinu alþjóðlega hagkerfi, þá væri ekkert atvinnuleysisvandamál við að fást á Íslandi. Þá væri reyndar enginn meðaltalshalli í sjávarútvegi heldur.
    Þetta eru vandamálin. Við þeim verður ekki brugðist með gengisfellingu. Það sem við erum að ræða um er sameiginlegt átak með hugsun til framtíðar um að lækka kostnað fyrirtækja og atvinnulífs með því að létta af þeim ýmsum launatengdum gjöldum og sköttum, að styrkja síðan forsendur stöðugleika í gengi með styrkari stöðu í ríkisfjármálum og í þriðja lagi með því að ná samstöðu um hlut sem frestað hefur verið í mörg mörg ár í íslenskum þjóðarbúskap, þ.e. að ráðast að rótum vandans varðandi skuldastöðu sjávarútvegsins, sem er hinn raunverulegi akkilesarhæll, versta og illviðráðanlegasta vandamálið sem við er að fást. Í fjórða lagi að hugsa til framtíðar um hvað við getum gert sameiginlega á vettvangi stjórnsýslu, ríkis, sveitarfélaga og atvinnulífs til að draga úr óþarfa kostnaði við yfirbyggingu. Hvort heldur það er með því að ná samkomulegi um að hraða áformum um fækkun sveitarfélaga og stækkun þeirra og fylgja því eftir t.d. með aðgerðum til að fækka og stækka lífeyrissjóði. Þannig mætti lengi telja þegar við lítum á hið opinbera kerfi á Íslandi.
    Umræða sem snýst um rétta skilgreiningu á vandanum og jákvætt hugarfar gagnvart þeim leiðum sem færar eru út úr honum er af hinu góða. En umræða með gagnkvæmum ásökunum um að þetta sé allt einhverjum flokknum að kenna verður engum að gagni.