Rannsókn á afleiðingum atvinnuleysis

49. fundur
Mánudaginn 09. nóvember 1992, kl. 15:29:20 (1994)

     Guðni Ágústsson (um þingsköp) :
    Hæstv. forseti. Mér skilst að það sé ekki nema einn ráðherra í húsinu um þessar mundir, það sé hæstv. utanrrh. Ég hef lítið við hæstv. utanrrh. að tala um atvinnumál eða neyð fólks. Hann hefur með slíkum glannaskap oft og tíðum því miður á síðustu dögum rætt um það og dregið úr því og hætt ráðherra í sinni eigin ríkisstjórn. Ég fer fram á það að þessari umræðu verði frestað þar til þeir ráðherrar, sem hægt er að ræða við um þetta mál, eins og félmrh. og forsrh., verða viðstaddir þessa umræðu og ég tel mjög mikilvægt að iðnrh. sem hefur týnt 1.000 störfum í hendurnar á erlendum mönnum á hverju einasta ári sem hann hefur starfað, verði við þessa umræðu. Hann ber slíka ábyrgð að þetta mál verður ekki rætt á Alþingi Íslendinga öðruvísi en hæstv. iðn.- og viðskrh. verði hér viðstaddur. Þess vegna held ég að það sé mikilvægt nú að við getum rætt þetta stóra mál við ríkisstjórnina því að ég hygg að íslensk þjóð, sem bæði hellist yfir haustmyrkur og áhyggjur vegna þess að hún er sannfærð um að vandamálið á Íslandi er nákvæmlega það sama og hefur gerst í tveimur öðrum frjálshyggjulöndum. Reaganisminn var vandamálið í Bandaríkjunum, thatcherisminn var vandamálið í Bretlandi og davíðisminn er að verða vandamálið á Íslandi. Þess vegna verðum við að fá það tryggt að við umræðuna komi ríkisstjórnin með svör, bæði í atvinnumálum og hvernig hún hyggst mæta því stóra vandamáli sem blasir við þúsundum Íslendinga og atvinnufyrirtækja um allt land.